Ekki meir, Geir!

Það sem ég er að velta fyrir mér er hver sé raunveruleg frammistaða fjármálaráðherrans í rekstri ríkiskassans? Er sú ímynd festu og ábyrgðar sem Geir H. Haarde hefur viljað halda á lofti tálsýn ein? Er hann jafnvel lélegur hirðir vors fjárs? Fögur fyrirheit
Fyrir nokkrum vikum síðan horfði ég á Geir H. Haarde lýsa því í Kastljósþætti hvernig ríkisfjármálin stæðu í miklum blóma og að ríkissjóður skyldi rekinn með hagnaði. Þetta var í tilefni kynningar á fjárlagafrumvarpinu. Mig rámar reyndar í það að hafa séð hann fyrir ári síðan halda sömu ræðuna af sama tilefni og í bæði skiptin fékk hann silkihanskameðferð hjá fréttamönnunum sem reyndar afsökuðu sig með því að þeir hefðu fengið frumvarpið samdægurs. Það sem ég er að velta fyrir mér er hver sé raunveruleg frammistaða fjármálaráðherrans í rekstri ríkiskassans? Er sú ímynd festu og ábyrgðar sem Geir H. Haarde hefur viljað halda á lofti tálsýn ein? Er hann jafnvel lélegur hirðir vors fjárs?

Halli á Haarde
Niðurstaðan er komin fyrir seinasta ár. Í stað þess rúmlega 18 milljarða afgangs sem boðað hafði verið að yrði af ríkisrekstrinum þá er staðreyndin rúmlega 8 milljarða halli. Munurinn er ríflega 26 milljarðar. Nú hefði einhver getað velt því fyrir sér hvort slík skekkja væri ekki tilefni til að bretta upp ermar og leita leiða til að skera niður. Nei. Geir H. Haarde hefur ákveðið að rétta leiðin sé að fara í skattahækkanir. Þungaskatt um 400 milljónir. Bensíngjald um 600 milljónir. Hann hefur jafnframt lækkað vaxtabætur sem jafngildir skattahækkun um aðrar 600 milljónir og dregið úr framlagi til sérstaks lífeyrissparnaðar sem er í reynd skattahækkun um u.þ.b. 500 milljónir til viðbótar. Ekki má svo gleyma 5% hækkun afnotagjalds Ríkisútvarpsins sem er nauðungargjald af verstu sort. Þetta kemur frá manninum sem sagði fyrir kosningar að ríkiskassinn væri svo fullur að við ættum fyrir alls konar skattalækkunum. Það hljóta að hafa verið ýkjur?

Ráðuneyti langt fram úr heimildum
Hvað með þá festu sem ráðherrann segist sýna í stjórnun ríkisútgjalda? Eru áætlanir jafn fagmannlega unnar og hann vill vera að láta? Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar fóru útgjöld 109 fjárlagaliða af 510 fram úr þeim 4% mörkum sem ákveðin eru í reglugerð um framkvæmd fjárlaga. Þar af voru um 80 stofnanir og aðalskrifstofur ráðuneyta. Í sumum tilvikum var stofnað til útgjalda langt umfram 4% mörkin. Eftir höfðinu dansa limirnir og höfuðið á Geir H. Haarde virðist vera upp í skýjunum. Hann leggur fram hvert fjárlagafrumvarpið á fætur öðru þar sem hann lofar afgangi en lítið verður úr efndum. Annað hvort er frumvarpið svona illa unnið eða enginn þykist þurfa að fara eftir því. Við vitum nú þegar að þingmenn samþykkja svo alltaf fjáraukalög þar sem inni eru útgjöld sem ættu auðvitað að vera inni í frumvarpinu sjálfu. Ef fjármálaráðherra hefði einhvern styrk þá myndi hann taka þessar framúrkeyrslustofnanir og -ráðuneyti á teppið. Hann myndi stöðva misnotkun þingmanna á fjáraukalögunum. En það virðist vera að rólyndisyfirbragð fjármálaráðherrans beri alls ekki vitni um festu og ákveðni heldur um átaka- og framtaksfælni.

Mýtan um hagsýna hægrimenn
Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið sig illa þegar kemur að mennta- og heilbrigðismálum. Við höfum dregist aftur úr í menntun og kostnaður fjölskyldna vegna læknishjálpar og lyfjakaupa hefur hækkað umtalsvert. En við þessu mátti svo sem búast. Hins vegar hélt ég í einfeldni minni að eitthvað væri á bakvið það þegar Sjálfstæðismenn gortuðu af getu sinni til að gæta aðhalds í ríkisrekstri. Nei. Staðreyndirnar tala sínu máli. Skattbyrði hefur aukist meira hér á landi síðan 1995 en í nokkru öðru OECD landi. Af hverjum 100 þúsund kalli sem Íslendingur þénar í dag borgar hann 29.000 kr. til ríkisrekstarins en borgaði 25.000 kr. fyrir átta árum. Skyldi engann undra því umfang ríkisrekstrarins hefur ríflega tvöfaldast á sama tímabili.

Báknið kjurt
Af mönnunum sem eitt sinn sögðust vilja „báknið burt“ hefur verið lagt fram frumvarp um ríkisábyrgð til handa sérstöku gælufyrirtæki. Þeir hafa með margvíslegum hætti viljað skipta sér af atvinnulífinu. Aðeins eitt dæmi af mörgum er sérstakt hugbúnaðarfyrirtæki sem flugmálastjóri setti á laggirnar í stað þess að kaupa þjónustu einkaaðila. Fjármálaráðuneytið og ríkisspítalarnir yfirbuðu siðan einnig einkafyrirtæki á launamarkaðnum til að byggja upp eigin upplýsingatæknisvið. Lagðir voru einkavegir fyrir ráðherrabíla framan við hús sem endurnýjuð voru til einkanota fyrir móttökur ríkisstjórnarinnar. Björgunarþyrlan okkar, TF Líf, var notuð til að ferja búlgarskan starfsbróður forsætisráðherra á Þingvöll þangað sem margir mikilvægari menn höfðu látið sér nægja að keyra í bíl.

Stórt ríkisvald afleiðing of langrar setu stjórnarinnar
Nei! Þrátt fyrir skattalækkanaloforð fyrir kosningar. Þrátt fyrir innantóma frasa og yfirlýsingar um mikilvægi aðhalds í ríkisrekstri. Þrátt fyrir mýtuna um hagsýna hægrimenn þá verður ekki farið betur með peningana okkar fyrr en skipt hefur verið um ríkisstjórn. Það er einfaldlega þannig að stórt ríkisvald er hluti af valdabatteríi ríkisstjórnarflokkana. Ekki má styggja flokksgæðingana sem komið hefur verið fyrir á lykilstöðum. Það er allt í lagi að henda í þessa hít meðan að það eru réttir menn sem fljúga á Business Class á kostnað ríkisins. Á meðan að Sjálfstæðisflokkurinn ræður Ríkisútvarpinu. Á meðan að það eru réttir menn sem fá bitlinga.

Það vantar pólitískan vilja til aðhalds
Við æsta Sjálfstæðismenn sem lesa þessa grein og finnst erfitt að horfast í augu við staðreyndir vil ég segja þetta: Hefur ríkisstjórn síðustu ára ekki fjölgað ýmis konar óþarfa nefndum í stað þess að fækka þeim? Hefur ferða-, aksturs- og risnukostnaður ekki aukist á hverju ári í tíð hennar? Hefur ekki ríkisstarfsmönnum fjölgað? Hafa fögur fyrirheit um minna ríkisvald ekki verið svikin?

Eitt skref áfram og tvö aftur á bak
Jú. Ég trúi enn að einhverjar erlendar skuldir hafi verið greiddar (þótt ríkisfyrirtækið Landsvirkjun hafi líklega vegið upp á móti með erlendri lántöku). Ég trúi að nokkrar löngu tímabærar einkavæðingar hafi átt sér stað en það er bara dropi í hafið þegar litið er á allt bruðlið. Þegar litið er á gífurlega útþenslu ríkisvaldsins. Þegar litið er á báknið sem tútnar stöðugt út. Það er slappur árangur þegar að aðstæður hafa verið til að skila almenningi svo miklu meira.

Niðurstaðan er því sú að það er halli af tíð Geirs H. Haarde í fjármálaráðuneytinu. Og þeir sem vilja báknið burt verða að taka upp nýtt slagorð: „Ekki meir, Geir!“

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand