Einsleitur Hæstiréttur

Þjóðfélagið hefur á síðustu dögum heldur betur riðað í ljósi ákvörðun Hæstaréttar að ógilda kosningar til stjórnlagaþings. Umræðan hefur færst frá háværri kröfu um að ríkisstjórn og löggjafi sæti ábyrgð fyrir vanrækslu sína, yfir í gagnrýni á Hæstarétt.

Þjóðfélagið hefur á síðustu dögum heldur betur riðað í ljósi ákvörðun Hæstaréttar að ógilda kosningar til stjórnlagaþings. Umræðan hefur færst frá háværri kröfu um að ríkisstjórn og löggjafi sæti ábyrgð fyrir vanrækslu sína, yfir í gagnrýni á Hæstarétt.  Umtalið beinist að slæmum rökstuðning og sumir hafa fleygt því fram að pólitískar skoðanir einstaka dómara hafi ráðið för fremur en lög og réttur, eða réttlætið öllu heldur. Hér verður þó látið liggja milli hluta hvort þetta tvennt fari alltaf saman í íslensku réttarkerfi.

Í þessum pistli ætla ég ekki að fara út í skoðanir mínar sem lögfræðingur hvort dómurinn sé efnislega rangur eða réttur. Í umræðunni vakti helst athygli mína og var mér áhyggjuefni, þær staðhæfingar að úrlausn Hæstaréttar væri af pólitískum toga.Það er andstætt allri réttlætis- og blygðunarkennd minni sem lögfræðings, að pólitískar skoðanir ráði för þegar komist er að niðurstöðu um lagalegt ágreiningsefni og ef þær láta á sér kræla, beri að kaffæra þeim umsvifalaust í hinni lagalegu vildarréttar aðferð af öllu afli.

Í helgarblaði DV til að mynda, var Hæstaréttardómurum skellt á forsíðu blaðsins með áfergju og inn í blaðinu var fjallað um vensl einstaka dómara, starfsreynslu og fortíð. Einsleitni Hæstaréttar blasti við mér með morgunkaffinu. Það var þó ekki tilvísun DV til þess að einstakir Hæstaréttardómarar tilheyrðu  hinum svokallaða „Eimreiðarhóp“ eða hvort þeir hefðu á ferlinum unnið í einstaka ráðuneyti undir handleiðslu nafngreindra ráðherra, sem vakti sérstaka athygli um fram annað, fremur en að 8 karlmenn og ein kona skipa Hæstarétt nú eða að minnsta kosti þrír af níu dómurum hafa opinberlega gefið það út að þeir kjósi Sjálfstæðisflokkinn og telja má aðra líklega fylgjendur hans.  Þó að DV sé ekki alltaf málefnalegasti miðill landsins hafði hann margt til síns máls.

Ein af lykilforsendum réttarríkis er tilvist dómstóla sem eru sjálfstæðir og óvilhallir.  Hlutverk dómstóla er að stuðla að allsherjarfriði í samfélaginu, dæma eftir lögum og skera úr um réttindi og skyldur manna. Hæstiréttur fer með gífurlegt vald í þessu sambandi, en þess má geta að hann er aldrei nefndur í stjórnarskrá berum orðum, en hlutverk dómsins er nánar útfært í almennum lögum. Eitt af grunnskilyrðum réttarríkisins er ennfremur að dómstólar njóti trausts almennings.  Að mínu mati er um margt erfitt að treysta fagmennsku Hæstaréttar þegar skipan Hæstaréttardómara hefur tvívegis á síðasta áratug farið bersýnilega gegn þeim reglum og venjum sem giltu á þeim tíma um skipan dómara.

Ég leyfi mér að fullyrða að umræða um tilgang og hlutverk dómstóla hér á landi hefur ekki verið mikil sem og umræða um  endurskipulagningu dómstólakerfsins. Það virðist oft annað vera pólitískt heitara. Skaðræðislegar skipanir í embætti Hæstaréttardómara á undanförnum árum  er hollt að rifja upp, sér í lagi þar sem þær grafa undan trausti Hæstaréttar. Eitt af hlutverkum stjórnlagaþings  er/var samkvæmt 3. gr. laga um stjórnlagaþing nr. 90/2010 að taka til umfjöllunar: „ Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.“ Gefur sú grein tóninn um að löggjafanum þyki þörf á endurskoðun á skipulagningu dómskerfisins og má segja að umræða síðustu daga renni frekari stoðum undir þá þörf.

Í lögfræði er manni kennt að siðferði og persónulegar skoðanir eigi aldrei við þegar leyst er úr lagalegu álitaefni, eins og áður er fram komið. Siðferði og réttlæti er enda mismunandi í auga hvers og eins. Lögin ríkja en ekki mennirnir sem er m.a. inntak hins júridíska þankagangs og réttarríkisins. Túlkun laga er hins vegar ekki vélræn og óumdeilanleg aðgerð og þarf ekki alltaf að fela í sér sannleika. Túlkun er umdeilanleg, enda myndi stétt sú sem ég tilheyri deyja út ef menn væru alltaf sammála um inntak laga. Við túlkun laga er beitt almennum viðurkenndum aðferðum, en þær aðferðir eru formúlukenndar.  Ég get líka púslað saman þeirri aðferðarfræði sem ég tel réttasta í það skiptið og er það reyndar gert af lögmönnum dag hvern. Niðurstöður Hæstaréttar eru hins vegar staðreyndir samkvæmt þeirri stjórnskipan sem við búum við og viðurkennum, enda er það fyrirkomulag bundið í stjórnarskrá okkar en þær þurfa ekki alltaf að fela í sér lagalegan sannleik, hver sem hann er í það og það skiptið.

Þó svo að ég telji persónulega að í Hæstarétt sitji einir færustu lögspekingar dagsins í dag eru þeir samt alltaf menn af holdi og blóði eins og hver annar. Einn Hæstaréttardómari tók það sérstaklega fram í sjónvarpsþættinum Návígi nú á dögum. Sú staðreynd ásamt því sem að framan er rakið hlýtur að leiða til alvarlegrar umhugsunar um nauðsyn þess að æðsta dómstól landsins skipi fjölbreyttur hópur úr mismunandi áttum, með ólíkan bakgrunn en ekki samkunda manna sem nálgast lögin með sama hætti, enda væri vart tilgangur í að í honum sætu níu dómarar í því tilviki. Hæfni manna er þó ekki metið með hliðsjón af þessum atriðum en slíkt fyrirkomulag væri til þess fallið að tryggja traust til dómstólsins og útrýma umræðum eins og þessum. Í dag er  einsleitni Hæstaréttar áhyggjuefni að mínu mati og umræður undanfarinna daga renna styrkum stoðum undir það álit mitt að endurskoðun dómkerfisins sé tvímælalaust ein af nauðsynlegum aðgerðum til að styrkja hæfni valdhafa og traust almennings til þeirra hér á landi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið