Árangur, ekki keppni um fjárframlög

Á Íslandi eru 7 háskólar sem allir hafa sín sérkenni, áherslur og sérstöku menningu. Katrín telur að fremur en að sameina háskólana sé hægt að samræma háskólastarfið, samvinna meðal skóla gerð auðveldari og nemendum gert kleift að skipta um skóla án vandræða.

Á opnum fundi Uj um sameiningu háskólanna og stefnu ríkisstjórnar í menntamálum ræddu Katrín Jakobsdóttir, menningar- og menntamálaráðherra og Skúli Helgason, formaður menntamálanefndar, framtíð menntunar á Íslandi.

Samvinna ekki sameining

Á Íslandi eru 7 háskólar sem allir hafa sín sérkenni, áherslur og sérstöku menningu. Katrín telur að fremur en að sameina háskólana sé hægt að samræma háskólastarfið, samvinna meðal skóla gerð auðveldari og nemendum gert kleift að skipta um skóla án vandræða. Mikilvægt sé að setja skýrari löggjöf um einkaskóla og opinbera háskóla og skilgreina samfélagslegt hlutverk þeirra í samráði við nemendur og kennara.

Samskipti háskólanna hafa litast af átökum á milli einkaskóla og opinberra háskóla, sérstaklega HÍ og HR. Skúli telur reiði stjórnenda HÍ að mörgu leiti skiljanlega þar sem mikið fjármagn hefur verið sett í HR á sama tíma og HÍ býr við fjárskort. Ekki er þó endilega best að líta til framtíðar út frá rekstrarlegum forsendum og að hér eigi að vera einn einkaskóli og einn opinber háskóli. Betra sé að líta til framtíðar út frá þörfum nemenda. Spyrja þarf hvernig háskóla við viljum hafa sem geri nemendum kleift að fá sem mest út úr náminu. Við þurfum að tryggja meira samstarf á milli HR og Hí, skapa sátt um skólagjöld og raunverulegt jafnrétti til náms. Ein leið gæti verið sú að afnema öll skólagjöld í grunnnámi en að allir háskólar geti innheimt skólagjöld á framhaldsstigi.

Katrín telur að einnig þurfi að fara fram umræða um hvað felist í hinu akademíska frelsi. Hversu mikið sjálfræði stofnana á að vera, hvernig skólarnir verji sínum fjármunum, akademískt sjálfræði, val á nemendum og kennurum, hvert rannsóknarefni er og kennsluaðferðir. Um þetta er meðal annars fjallað í sameiginlegri yfirlýsingu háskólanna. Ráðuneytið hefur að einhverju leyti leitað ráðgjafar til Finnlands í þessum efnum þar sem kveðið er á í lögum um akademískt frelsi. Katrín segir það mjög pólitíska ákvörðun þegar skorið er niður í einni námsleið fremur en annarri. Að hennar mati eiga stjórnvöld að geta sett áherslur á tiltekin svið þar sem þörf er á, en að megninu til ættu háskólar að ráða námsframboðinu sjálfir.

Framtíðarsýn í brotakenndu kerfi

Katrín segir menntakerfið mjög brotakennt sem bjóði upp á margar sérleiðir fyrir fáa íbúa. Í hennar ráðherratíð hefur farið fram greining á menntakerfinu og samanburður við norðurlönd. Kannaðir hafa verið möguleikar á gjaldtöku í námi, breytingum á námslánum til að auðvelda nemendum að sækja nám í sérskólum og að efla ýmsar námsleiðir. Best væri ef hægt væri að búa til eitt einfalt heildsteypt kerfi þar sem skólar keppast við að ná sem bestum árangri í kennslu en ekki um fjölda nemenda til að fá hærri fjárframlög.

Skúli segir vart betri tíma en nú að leiða fram breytingar í menntakerfinu og mynda okkur nýja framtíðarsýn. Á Íslandi hrundi ekki eingöngu fjármálakerfið heldur traust almennings á grunnstofnunum samfélagsins. Eftirlitskerfi sem almenningur treysti reyndust ekki í lagi. Í menntamálum er gott dæmi um það Menntaskólinn Hraðbraut. Skólinn fékk fjárframlög sem ráðstafa átti á vissan hátt, en svo fylgdist enginn með því hvernig fjármununum var raunverulega varið. Það eru sorglega mörg dæmi um það að peningar hafa verið settir í menntamál án þess að neinn afrakstur verði.

Ennfremur erum við að mörgu leyti að takast á við afleiðingar þess hvernig menntakerfið þróaðist undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Hér hafa sprottið upp skólar vegna þess að þáverandi stjórnmálaforysta horfði á það með velþóknun að einkageirinn tæki til hendinni. Í dag verðum við að lagfæra það sem aflaga hefur farið, bæði með auknu samráði, aukinni verkaskiptingu og draga úr tvíverknaði.

Menntun og atvinna óaðskiljanlegir þættir

Skúli segir okkur nú lifa á þeim þjóðfélagstímum þar sem atvinnuleysi ungs fólks er í sögulegu hámarki og sum glíma við langtímaatvinnuleysi. Stærsti hluti ungs atvinnulauss fólks er eingöngu með grunnskólapróf. Á sama tíma eru greinar eins og hugverkaiðnaður sem sárvantar starfsfólk. Þetta er ört vaxandi grein en of fáir útskrifast í iðn- og tæknimenntun til þess að fullnægja þörfinni. Hér er tækifæri til þess að kynna fyrir ungu fólki og upplýsa um tækifærin sem felast í því að velja þessar greinar, sem og önnur tækifæri sem felast í ýmiss konar menntun.

Katrín sagði eitt af okkar stærstu vandamálum vera mikið brottfall úr skóla. Til að koma í veg fyrir brottfall vill Katrín auka námsframboð með sérstakri áherslu á framhaldsskólastigið. Mikil áhersla hefur verið á almennt bóknám og ungt fólk er hrætt við að velja aðrar leiðir til að loka engum dyrum. Mörg fresta því að fara í nám og snúa svo aldrei aftur í skóla. Menntastig þjóðarinnar er undir markmiði OECD og eftirbátur þeirra landa sem við miðum okkur við.

Skúli benti á að stærsti hluti atvinnulauss ungs fólks er eingöngu með grunnskólapróf. Lausn við þeirra vanda ætti að vera skýr, og það er að sækja sér menntun. Menntamál og atvinnumál þarf að skoða í samhengi hvert við annað. Þær atvinnugreinar sem keyrðu samfélagið í þrot eru enn að bjóða sömu lausnir og komu þjóðinni í vandræði. Við þurfum nýja hugsun og nýjar leiðir.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand