Einn glæsilegasti stjórnmálaforingi eftirstríðsáranna

Gylfi Þ. Gíslason fyrrverandi ráðherra og formaður Alþýðuflokkssins lést um miðja seinustu viku á áttugasta og áttunda aldursári. Með honum er genginn einn áhrifamesti stjórnmálaleiðtogi íslenskra stjórnmála seinustu aldar. Gylfi Þ. Gíslason fyrrverandi ráðherra og formaður Alþýðuflokkssins lést um miðja seinustu viku á áttugasta og áttunda aldursári. Með honum er genginn einn áhrifamesti stjórnmálaleiðtogi íslenskra stjórnmála seinustu aldar.

Vel menntaður og virtur fræðimaður
Gylfi lauk stúdentsprófi frá MR árið 1936, kandídatspróf í hagfræði frá háskólanum í Frankfurt am Main 1939 og doktorspróf við sama háskóla 15 árum síðar. Meðal starfa sem Gylfi gegndi fyrir utan þátttöku hans í stjórnmálum var kennsla og kenndi hann m.a. við Viðskiptaháskóla Íslands, Menntaskólann í Reykjavík. Við Háskóla Íslands var hann dósent og síðar prófessor í laga- og viðskiptadeild skólans. Gylfi varð síðar prófessor við viðskiptadeild Háskóla Íslands á 15 ára tímbili eftir að farsælu Viðreisnarsamstarfi Alþýðu- og Sjálfstæðisflokksins lauk árið 1971.

Gylfi átti sæti í hinum ýmsu nefndum og ráðum en meðal þeirra var stjórnarskrárnefnd, kosningalaganefnd, Norðurlandaráð og þá var hann fulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og í stjórn Alþjóðabankans.

Ungur þingmaður og ráðherra
Gylfi var kjörinn á þing árið 1946 þá 29 ára að aldri. Hann varð ráðherra 39 ára þegar hann varð mennt- og iðnaðarráðherra 1956-1958 í fimmta ráðuneyti Hermanns Jónssonar í ríkisstjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Áður höfðu Alþýðu- og Framsóknarflokkur myndað Hræðslubandalagið sem Gylfi og Ólafur Jóhannesson eru sagðir hafa verið arkitektar af. Í minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1958-1959 var Gylfi iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Á Viðreisnarárunum frá 1959-1971 gegndi hann embætti mennta- og viðskiptamálaráðherra. Enginn annar hefur veitt embætti menntamála og viðskipta forystu jafn lengi og hann. Gylfi gegndi fjölmörgum trúnarðarstörfum fyrir flokk sinn og árið 1968 tók hann við formennsku í Alþýðuflokknum af Emil Jónssyni. Gylfi var formaður í sex ár þangað til Benedikt Gröndal tók við af honum eftir slæma útreið Alþýðuflokksins í þingkosningunum 1971 og 1974. Gylfi sat á þingi til ársins 1978 þegar hann gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Í kosningunum þetta sama ár náði Vilmundur, einn sona hans, kjöri á Alþingi.

Hugsaði með höfðinu og fann til með hjartanu
Í ræðu sem Jón Baldvin Hannibalsson hélt á landþingi Ungra jafnaðarmanna um helgina í Hveragerði minntist hann Gylfa. Jón sagði Gylfa hafa verið sannfærðan jafnaðarmann allt frá menntaskólaárum sínum. Reynsla Gylfa af heimskreppunni og síðar hafta- og skömmtunarkerfi eftirstríðsáranna kenndu Gylfa smám saman að þetta kerfi væri komið í þrot og leita yrði nýrra leiða. Sem mikill menntamaður fylgist hann með þróun mála í grannríkjum okkar sem og því breytta hugarfari sem smám saman setti mark sitt á hugsun jafnaðarflokka víða í Evrópu og fært hefur þá í átt til viðurkenningar á yfirburðum markaðkerfisins. Jón sagði Gylfa hafa hugsað með höfðinu og fundið til með hjartanu – sem lýsi jafnaðarstefnunni í hnotskurn. Gylfi var framsýnn og hann þorði að taka ákvarðanir sem á sínum tíma nutu ekki vinsælda, en hafa síðar meira reynst mikið heillaspor fyrir þjóðina.

Afkastamikill menntamálaráðherra
Í tíð Gylfa sem ráðherra menntamála var lyft grettistaki í tónlistarnámi um land allt og sitt sýndist hverjum á sínum tíma. En margir vilja meina að þessi framsýni gerningur hans hafi átt mikinn þátt í því blómaskeiði tónlistar sem sett hefur svip sinn á íslenskt menningarlíf á seinustu árum.

Gylfi hefur oft verið kallaður guðfaðir Þjóðarbókhlöðunnar, en í ráðaherratíð hans fæddust þær viðamiklu hugmyndir sem nú hafa tekið á sig endanlega mynd við Birkimel. Gylfi taldi að Þjóðarbókhlaðan ætti að vera hvoru tveggja – ,,dyr að síbreytilegum umheimi og varða þeirrar þjóðmenningar sem tilvera Íslendinga byggist á”.

Margir minnast Gylfa einnig vegna samnings Íslands og Danmerkur um afhendingu handritanna sem var undirritaður í Kaupmannahöfn af fulltrúum landanna 1. júlí árið 1965. Eftir að Gylfi hafði veitt handritunum viðtöku í apríl árið 1971 flutti hann ávarp og ræddi þar m.a. um mikilvægi íslensku handritanna fyrir íslensku þjóðina, sögu hennar og framtíðarvissu, en í lok ræðu sinnar beindi hann orðum sínum til Dana. ,,Þið hafið drýgt dáð. Við litla frændþjóð hafið þið komið fram með þeim hætti, að hún mun aldrei gleyma því. Þið hafið sýnt þjóðum heims fordæmi, sem veraldarsagan mun varðveita. Ég vona að hér muni sannast, að hið besta sem maður gerir sjálfum sér, sé að gera öðrum gott.”

Framsýnn í Evrópumálum
Gylfi átti stóran þátt í að gefa utanríkisviðskiptin frjáls. Ennfremur átti Gylfi hvað stærstan þátt í að Íslendingar gengu í EFTA, Fríverslunarsamtök Evrópu, í mars árið 1970 en aðild að þeim samtökum var forsenda þess að við gátum gerst aðilar að EES. Ef við hefðum ekki gengið í EFTA hefðum við ekki getað orðið aðilar að EES. Stjórnarandstaðan sem tók við völdum í kjölfar þess að Viðreisnarsamtarfinu lauk 1971 treysti sér ekki til að beita sér fyrir úrsögn úr EFTA, þrátt fyrir að hafa verið á móti inngöngu stuttu áður.

Einn áhrifamesti forystumaður íslenskra jafnaðarmanna
Fullljóst er að Gylfi Þ. Gíslason var einn glæsilegasti stjórnmálaleiðtogi seinustu aldar og um leið einn fremsti og áhrifamesti forystumaður okkar jafnaðarmanna hér á landi. Gylfa verður minnst fyrir mikla framsýni og áræðni þjóðinni til heilla.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand