Ég er sko ekki hnakki! -Hvers vegna sögðu svona margir nei í kosningunum um síðustu helgi?

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að um síðustu helgi fóru fram kosningar um tillögur til sameininga sveitarfélaga. Niðurstaðan úr þeim kosningum eru ótvíræðar. Íbúar sveitarfélaga eru almennt á móti þeim sameiningartillögum sem kosið var um. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að um síðustu helgi fóru fram kosningar um tillögur til sameininga sveitarfélaga. Niðurstaðan úr þeim kosningum eru ótvíræðar. Íbúar sveitarfélaga eru almennt á móti þeim sameiningartillögum sem kosið var um.

Sameining sveitarfélaga er að margra mati grundvöllur fyrir því að ríkið flytji fleiri verkefni yfir á sveitarfélögin. Flutningur grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga tókst almennt vel sem leiddi til hærra þjónustustigs. Nú telja menn að kominn sé tími til þess að færa enn fleiri verkefni yfir til sveitarfélaga með svipuðum hætti, hefur heilsugæslan og nú upp á síðkastið framhaldsskólarnir verið nefnd sem dæmi um slíkt.

Líta menn til þess að hægt sé að bæta þjónustuna við íbúa með fjölmennari sveitarfélögum, og hagræðing er lykilorðið í þessu öllu sem kemur að rekstri þeirra.

Þessi grein verður ekki pólitísk í sjálfu sér, enda bara hugleiðing um það hvers vegna úrslitin voru svo afgerandi. Fer ég um víðan völl og ætla ég að velta upp 3 meginþáttum sem geta komið til greina sem skiptast niður í undirþætti og krossast í raun allir þættirnir.

1. Of stórtækar tillögur
Það hefur sýnt sig í skoðanakönnunum að fólk er almennt sammála hugmyndinni um sameiningu sveitarfélaga. Samt voru þær tillögur sem kosið var um almennt kolfelldar, þ.e.a.s. 1 samþykkt og 15 felldar, margar með hreint ótrúlegum mun. Þeim sem ég hef talað við um þessi mál dettur í hug að tillögurnar hafi einfaldlega verið of stórtækar. Tillögurnar sem kosið var um komu að „ofan“ þ.e.a.s. ekki frá sveitarfélögunum sjálfum. Telja ýmsir að sveitarfélögin hefðu átt að finna sjálf hvar snertifletirnir væru, sem er grundvöllur sameiningar.

Einnig fengu þessar stóru tillögur einfaldlega ekki nægan tíma til umræðu að margra mati.
Ekki eru allir sammála um það en ég tel að betra hefði verið að gefa tækifærið fyrir umræðu um „konkret“ tillögur fyrr og tillögunar hefðu ekki átt að vera svona gríðarlega stórtækar. Tala ég þá bara fyrir sjálfan mig.

2. Tilfinningamál/Hrepparígur/eðli fjölmiðla
Sveitarfélögin hafa verið grunneining í íslensku samfélagi allt frá landnámsöld. Sveitarfélögin eru grunnur í vitund manna, ég er Hvergerðingur eins og ég er Íslendingur. Umræðan nær alltaf að snúast upp í þessi mál, heyrði maður margar sögur um það hvernig „vondu Selfyssingarnir“ tróðu á okkur „smælingjunum í Hveragerði“ hér áður fyrr. „Það verður engin breyting á því“. Þetta er einskonar sjálfstæðisbarátta. Formleg sjálfstæðisbarátta. Ég skil hana að vísu mjög vel, þó svo að birtingarmyndir hennar verði oft fáránlegar. Heyrði ég annars fyndið slagorð ungra Hvergerðina sem voru á móti því að sameinast Selfossi: „Ég er sko ekki hnakki!“.

Hin hliðin á hrepparígunum var sú að mönnum sárnaði við að heyra að þeir ætluðu að gleypa litlu sveitarfélögin og kusu því á móti, sbr. orð bæjarstjóra Akureyrar, Kristjáns Þórs Júlíussonar. Nefnt hefur verið að það hafi gerst á fleiri stöðum en Akureyri, t.d. Selfossi.

Til að bæta gráu ofan á svart voru stofnuð samtök gegn sameiningu. Fjölmiðlar gripu þetta auðvitað á lofti og fjölluðu mikið um eitt tiltekið dæmi þar sem troðið var gróflega á „litla“ sveitarfélaginu. Fjölmiðlar mála oftast upp svörtu myndina af málunum, það er einfaldlega eðli þeirra og lítið við því að gera. Ljóst er að þessi samtök unnu sigur, stórsigur.

Þetta er auðvitað mikið tilfinningamál og sem betur fer er fólk almennt ánægt með þjónustu sveitarfélaga. Þegar menn sjá að aðrir hafa tapað á sameiningu líta menn auðvitað á málið þeim augum. Niðurstaðan er því mjög eðlileg hjá minni sveitarfélögum.

3. Peningamálin
Peningamál eru auðvitað grundvallarmál allra sveitarfélaga. Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar benti réttilega á það í fréttum að ekki væri ljóst hvernig færi með skiptingu tekna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Óvissa er alltaf vondur þáttur í svona málum, og skipting tekjustofna er mjög stór þáttur.

Bent hefur verið á ekki hafi nægir peningar komið inn í sveitarfélögin eftir að grunnskólarnir voru færðir frá ríkinu yfir á sveitarfélögin. Hversvegna ætti þá að fara út í sameiningu sem myndi verða til þess að fleiri verkefni færðust yfir á sveitarfélögin, og ekki fengjust nægir peningar til þess? Slíkri spurningu er auðveldlega svarað, og leyfi ég ykkar að svara henni sjálf.

Andstæðingar sameiningar hafa nefnt að sameining hafi ekki leitt til sparnaðar. Það er í sjálfu sér rétt, en það hefur aldrei verið markmið með sameiningu að spara. Rannsóknir hafa einfaldlega sýnt fram á að hagræðing hefur fengist úr sameiningu sveitarfélaga þar sem snertifletir eru á rekstri þeirra, en þeir peningar sem sparast hafa í þeim liðum hafa leitt til þess að þjónustustig hefur verið bætt í öðrum liðum. Sameining hefur borgað sig að þessu leyti, en auðvitað er hægt að snúa þessu á haus eins og öllu í pólitíkinni.

Aðrir þættir
Nefndir hafa verið aðrir þættir, eins og t.d. að þeir kynningarbæklingar sem sendir hafa verið á hvert heimili í þeim sveitarfélögum sem tóku þátt hafi verið einhliða. Er misjafnt við hvern maður talar, sameiningarsinna eða andstæðing sameiningar, þeir segja að hin skoðunin hafi fengið of mikið vægi.

Kosningabarátta var lítil sem engin og segja sameiningarsinnar nú að þeir hefðu átt að láta betur í sér heyra, enda voru andstæðingarnir mun háværari. Sameiningarsinnar skíttöpuðu. Slagurinn verður kannski harðari næst ef þetta er ein af ástæðunum.

Hvað hefði ég gert?
Ég er almennt sammála hugmyndinni um sameiningu og lít þá til þess hvernig verkefnaskiptingu er háttað milli ríkis og sveitarfélaga í Danmörku. Það hljómar kannski mótsagnakennt en samt hefði ég sagt nei á laugardaginn. Gef ég ykkur færi á að greina út hvaða rök ég hef fyrir mér í því.

Framtíðin og hvað kom út úr þessu?
Ljóst er að eftir kosingarnar 1993 fækkaði sveitarfélögunum mikið og vonast menn til þess að slík verði raunin nú. Verð ég að segja að ég efast stórlega að það gerist, í ljósi þess hve afgerandi úrslitin voru á laugardaginn.

En ljóst er að margir góðir hlutir komu út úr þessari kosningu. Umræðan um verkefna- og tekjuskiptingu milli sveitarfélaga og ríkis er umræða sem þarf að komast betur á kortið.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand