Í fyrsta skiptið í langan tíma fór ég í kröfugöngu 1. maí. Ég mætti niður á Strandgötu litlu áður en gangan hófst. Í fyrstu var ég ekki viss hvort ég var mættur á réttan stað á réttum tíma fyrr en ég heyrði í lúðrasveitinni sem hafði staðsett sig á bílastæðinu við bókasafnið. Ég hugsaði með mér „í alvöruni er þetta allt fólkið sem mætir?”. Í fyrstu stóð ég einn og var eins og illa gerður hlutur en var fljótur að finna nokkrar manneskjur á milli bílanna sem ég þekkti. Þau höfðu mætt með skilti í gönguna og sá ég strax eftir því að hafa ekki mætt með mitt. En þau voru ekki lengi að bæta úr því og fékk ég að velja úr nokkrum tegundum úr sendiferðabílnum. Síðan hófst gangan, Súfistinn tæmdist og allt í einu hafði hópurinn tvöfaldast. Við hófum gönguna upp Reykjavíkurveginn og ég staðsetti mig í miðjum hópnum, en nógu nálægt lúðrasveitinni að ég heyrði í henni. Þá var mér ljóst að það skipti ekki máli hvar í göngunni ég var, ég myndi alltaf heyra í sveitinni. Enda vorum við ekki nema svona 130 til 150 í göngunni. „Vá” hugsaði ég með mér, eru þetta allir Hafnfirðingarnir sem hafa áhuga á kjörum eða réttindum vinnandi fólks. Hvar var fólkið sem eyðir hálfum deginum á fésbókinni og kommentakerfi DV þusandi yfir öllu því sem það telur rangt í samfélaginu? Hvar voru mömmurnar af barnalandi sem vilja meira öryggi fyrir börn sín? Eða sjómennirnir sem vilja meiri skattaafslátt? Hvar var unga fólkið sem á erfa landið? Hvar voru þeir sem eiga að erfa og greiða skuldir landsins?
Ég heyrði síðan eldri konu fyrir framan mig segja við vinkonu sína hvað það væri gaman hvað margir hefðu mætt í ár. Þá fékk ég í magann.
Ef fólk er ekki tilbúið að koma út og taka þátt í baráttunni á þessum eina degi ársins sem er tileinkaður því þá getur að ekki búist við betri kjörum.
Jón Grétar Þórsson
Útgáfustjóri UJ