Betra seint en aldrei – fyrsta skrefið stigið

Jón Skjöldur Níelsson fjallar um tillöguplagg ríkisstjórnarinnar um lækkun matarverðs sem hann telur hafa verið barið saman í flýti og að ýmsir aðilar hafa þurft að láta fyrri skoðanir sínar lönd og leið. Má þar nefna að Geir H. Haarde lagðist gegn því að sínum tíma að virðisaukaskattur á matvælum yrði lækkaður þar sem það myndi ekki skila sér í buddu neytenda. Það kom að því að ríkisstjórnin varð að láta undan samfélagslegum þrýstingi og gera eitthvað varðandi hið himinháa matvælaverð á Íslandi. Það var víst orðið vel tímabært eftir 11 ára valdasetu.

Samfylkingin hefur síðustu ár barist fyrir aðgerðum til lækkunar matarverðs enda er það til skammar að matarreikningur vístölufjölskyldunnar á Íslandi sé hátt í 50% hærri en á hinum Norðurlöndunum. Það ber vissulega að fagna því að þessi barátta Samfylkingarinnar sé nú loks að skila sér í formi nýtekinnar ákvörðunnar ríkisstjórnarinnar, þótt hún beri þess glöggt merki að kosningatitringur er kominn í stjórnarflokkanna. Breytingarnar eiga að taka gildi 1. mars 2007, rétt fyrir kosningar, og er tímasetningin ábyggilega valin af kostgæfni. Það hefði enda verið pólitískt harakiri fyrir ríkisstjórnina að halda inn í kosningaár með lokuð eyru fyrir þessum háværu kröfum neytenda.

Það er ljóst að tillöguplagg ríkisstjórnarinnar hefur verið barið saman í flýti og að ýmsir aðilar hafa þurft að láta fyrri skoðanir sínar lönd og leið. Má þar nefna að Geir H. Haarde lagðist gegn því að sínum tíma að virðisaukaskattur á matvælum yrði lækkaður þar sem það myndi ekki skila sér í buddu neytenda. Einnig má ætla að einhverjar raddir innan Framsóknarflokksins hafi hreyft mótmælum við breytingum á innflutningstollum. En gott og vel, góðum gjörðum ber að fagna og eru þessar tillögur vissulega stórt skref í rétta átt fyrir íslenska neytendur. En það má ekki láta hér við sitja. Engin ástæða er til þess að láta íslenskar fjölskyldur borga meira fyrir sína matarkörfu en fjölskyldur á hinum Norðurlöndunum. Ólíklegt er að skref til frekari lækkanna verði tekið nema að ný ríkisstjórn með Samfylkinguna í fararbroddi taki við næsta vor.

Tillögur Samfylkingarinnar um lækkun matarverðs hafa verið til umræðu síðustu vikur og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. Neytendur hafa fagnað tillögunum enda um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir þá. Viðbrögð stjórnarflokkanna komu ekki á óvart og dómsdagsspár um útrýmingu bændastéttarinnar voru helstu mótrökin á þeim bænum. Samband ungra framsóknarmanna gaf út yfirlýsingu í svipuðum dúr að hætti en Samband ungra sjálfstæðismanna hefur þagað þunnu hljóði enda hljóta aðgerðir í þessa átt að vera þeim að skapi.

Viðbrögð Bændasamtakanna voru kapítuli útaf fyrir sig enda um að ræða gríðarlega öflug hagsmunasamtök sem árlega fá rausnalegar upphæðir úr ríkiskassanum. Málflutningur forsvarsmanna samtakanna voru af sama meiði og hjá stjórnarflokkunum, ofstækisfull og ómálefnaleg. Gömul og rótgróin tengsl samtakanna við ákveðna stjórnmálaflokkar leyndu sér ekki frekar en andúð þeirra á öðrum. Það sýndi sig best í viðbrögðum samtakanna við tillögum ríkisstjórnarinnar núna. Þau voru vægast sagt mjög yfirveguð þrátt fyrir að þessar tillögur gangi langt í átt að þeim tillögum sem Samfylkingin lagði fram. Haraldur Benidiktsson, formaður Bændasamtakanna, sagði tillögurnar ganga mun lengra en bændur hefðu búist við en viðurkenndi jafnframt í viðtali í Íslandi í dag að breytingar væru óhjákvæmilegar á þessu kerfi. Greinilega ekki sama hvaðan hugmyndirnar koma á þeim bænum.

Ég leyfi mér að halda því fram að viðbrögð Bændasamtakanna við tillögum Samfylkingarinnar endurspegli ekki skoðanir allra þeirra bænda sem sitja fastir í höftum löngu úrelts landbúnaðarkerfis sem heldur þeim mörgum hverjum í viðjum fátæktar og stöðnunar. Breytinga er þörf á þessu úrelta kerfi og þarf það að gerast þannig að það sé bæði bændum og neytendum til hagsbóta. Samfylkingin lagði vissulega fram róttækar tillögur en með þeim fyrirvörum að þessar breytingar verði í samráði við bændur. Sem lýðræðislegt afl hefur flokkurinn verið sveigjanlegur og brugðist við viðbrögðum samfélagsins eins og við á. Meðal annars hafa farið fram fundir með forsvarsmönnum Bændasamtakanna. Það vita allir heilvita menn að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur það í hyggju að ganga milli bols og höfuðs á einni rótgrónustu atvinnugrein þjóðarinnar, né öðrum atvinnugreinum. Allra síst kæmi það til framkvæmda að hálfu jafnaðarmannaflokks sem kennir sig við frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Við Ungir jafnaðarmenn fögnum þessum tillögum heilshugar en bendum einnig á að vel upplýstrar og yfirvegaðrar umræðu er þörf um þessi mál. Engum gagnast upphrópanir og stóryrði sem fjúka í hita leiksins. Nú hefur fyrsta skrefið verið stigið og engin þörf er á að láta þar við sitja.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand