,,Frá því að þessu embætti var gefið núverandi heiti hefur þjóðin gengið í gegnum menningarlega byltingu sem kollvarpað hefur viðhorfum okkar og hugmyndum um jafnrétti og stöðu kynjanna, því er ekkert annað en eðlilegt að tungumálið þróist með tíðarandanum og að fundið sé nýtt heiti í takt við hann“. Segir Guðrún Birna le Sage de Fontenay varaformaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík.
Ég settist fyrir framan tölvuna til að skrifa grein um málefni innflytjenda en eftir að hafa vafrað stutta stund á netinu, fann ég mig knúna til að mæla með frumvarpi Steinunnar Valdísar um að finna nýtt heiti á embætti ráðherra. Þetta er mál sem ég hefði fyrirfram talið frekar einfalt og grunaði ekki að myndi vekja upp slíkan ágreining og raun bar vitni. Bloggheimur logar í umræðum um þetta frumvarp, margir sem eru á móti telja þetta léttvægt mál en það er ekki að sjá á skrifum þeirra þar sem þeir eyða miklu púðri í að gagnrýna það. Raddir heyrast um að rangt sé að sóa skattpeningum almennings í “smámál” af þessu tagi en eru það ekki frekar þeir sem tefja þetta og þrástagast á móti þessu sem eru að sóa tíma og almanna fé? Ég hvet þá sem telja þetta vera “smámál” að velja sína sigra, hleypa þessu athugasemdalaust í gegn og spara krafta sína fyrir “mikilvægari” mál. Það er auðvitað afstætt hvaða mál við teljum léttvæg, en staðreyndin er sú að fyrir Alþingi fara mál sem eru eins ólík að umfangi og efni og þau eru mörg en þau eiga það sameiginlegt að þeim þarf að breyta með lögum. Ráðherra er bæði getið í almennum lögum og stjórnarskránni, á þessu kjörtímabili á að fara í heildar endurskoðun á stjórnarskránni og er því tilvalið að leggja þetta fram núna og láta þetta mál fljóta með í þeirri vinnu.
Herrar mínir og frúr
Hér er um táknrænt mál að ræða sem snertir grunn kvennabaráttunnar, rætur karlaveldisins liggja djúpt í menningu okkar og stundum er nauðsynlegt að snerta heilög vé til að vekja almenning til umhugsunar og hrófla við stöðnuðu kerfi. Samkvæmt orðabók Menningarsjóðs merkir orðið herra tvennt, annars vegar titil karlmanns og hins vegar húsbónda eða yfirmann. Ljóst er að síðarnefnda merkingin er mörkuð af þeim tíma þegar aðeins karlar gengdu yfirmannsstöðum. Bent hefur verið á að ekki hafi Vigdís Finnbogadóttir reynt að breyta titli sínum þegar hún var forseti og að Steinun Valdís hafi ekki gert athugasemdir við það á sínum tíma að vera kölluð borgarstjóri, þó það væri karlkynsorð og að hún tali því í mótsögn við sjálfan sig. Þetta finnst mér ekki hægt að leggja að jöfnu við þessa umræðu þar sem það er tvennt ólíkt að ræða um breytingar til að koma í veg fyrir kvenkyns ráðamenn þurfi að titla sig sem herra og því að breyta þurfi karlkyns samheitum eins og forseti, feministi eða heitum sem enda á –maður og -fræðingur. Við erum jú öll menn, kvenmenn og karlmenn, mannkynið sjálft svo karlkyns orð geta átt við um allar manneskjur þó auðvitað sé æskilegt að hafa kyn orða í huga við nýmælagerð heita sem bæði kyn munu bera.
Íslenskan er lifandi tungumál
Ég átta mig ekki alveg á rót þessarar öflugu andspyrnu gegn þessu, ekki hefur borið á slíku þegar aðrar stéttir hafa tekið sig til og breytt starfsheitum í takt við breyttar forsendur eins og þegar karlkyns flugfreyjur urðu flugþjónar og skúringakona varð ræsititæknir svo fátt eitt sé nefnt. Tungumálið er ekki meitlað í stein og íslenskan er sem betur fer lifandi tungumál. Við hljótum öll að viðurkenna að áhrifa feðraveldis hefur í gegnum aldirnar haft áhrif á þróun tungumálsins og heitið ráðherra er skýrt merki þess frá þeim tíma sem nútímastjórnkerfi okkar byggðist upp. Ég leyfi mér að fullyrða að ef við stæðum frammi fyrir því í dag að leita að nýyrði yfir æðsta ráðamann þjóðarinnar þá yrði heitið ráðherra ekki fyrir valinu. Frá því að þessu embætti var gefið núverandi heiti hefur þjóðin gengið í gegnum menningarlega byltingu sem kollvarpað hefur viðhorfum okkar og hugmyndum um jafnrétti og stöðu kynjanna, því er ekkert annað en eðlilegt að tungumálið þróist með tíðarandanum og að fundið sé nýtt heiti í takt við hann. Það eru ekki aðeins viðhorfin sem hafa breyst heldur stöndum við hreinlega frammi fyrir nýrri samfélagsmynd þar sem jafnrétti kynjanna er lögbundið og það kallar á þessar breytingar sem frumvarpið mælir fyrir.
En hvað á að koma í staðinn?
Íslenskan er fallegt og gegnsætt mál og auðvelt hefur reynst að smíða nýyrði, það ætti því að vera leikur einn og skemmtilegt verkefni fyrir þjóðina að finna nýtt heiti sem allir geta sammælst um. Ég hef verið að leita að orði með svipaða merkingu og orðið ráðþjónn (sem mér finnst ekki alveg nógu gott) því hlutverk ráðamanna í lýðræðisþjóðfélagi er jú að vinna í þjónustu við land og þjóð. Orðið ráðherra er óþarflega valdbjóðandi og endurspeglar gamaldags hugmyndir um vald og á illa við um valdhafa í lýðræðislegu þjóðfélagi þar sem hinir eiginlegu valdhafar eru þjóðin sjálf. Margar góðar tillögur hafa komið fram í umræðu síðustu daga eins og heitin ráður, ráðandi, ráðgjafi og ráðseti, allt eru þetta einföld, gegnsæ og þjál orð en ég er einna hrifnust að heitinu ráðseti.