Beitum okkur betur innan Evrópu

,,Það má segja með réttu að við höfum þó nokkur tækifæri á að beita okkur innan ESB gegnum EES-samninginn þannig að á okkur sé hlustað“. Segir Anna Pála Sverrisdóttir formaður Ungra jafnaðarmanna. Nei, við Íslendingar erum ekki formlegir aðilar að Evrópusambandinu. Hins vegar tökum við mjög verulegan þátt í evrópska samstarfinu af því við erum hluti af innri markaði Evrópu. Innri markaðurinn er veigamesti hlutinn af samstarfi ríkja innan ESB og gegnum EES-samninginn höfum við verið hluti af honum frá því 1994. Samningurinn er okkar stærsta viðskiptahagsmunamál og hefur meðal annars gert íslenskum fyrirtækjum kleift að hefja stórfellda útrás sem skilar okkur svo miklu. Þar að auki eigum við víðtækt samstarf á ýmsum öðrum sviðum í gegnum EES, svo sem á sviði mennta-, umhverfis- og neytendamála.

Alvöru Evrópuumræða

Utanríkisráðherra hefur nú kynnt fyrir Alþingi fyrstu reglulegu Evrópuskýrsluna, sem eftirleiðis verður gert árlega. Með skýrslunni er tekið frumkvæði að löngu tímabærri umræðu sem gengur út frá þeirri staðreynd að við erum að miklu leyti hluti af ESB nú þegar, frekar en yfirborðslegum skotgrafarhernaði um hvort við eigum að ganga alla leið eða ekki. Megintilgangurinn er að gefa yfirlit yfir þau svið sem líklegt er að muni hafa áhrif á löggjöfina okkar hérna heima á næstunni. Lokamarkmiðið er svo í raun það að opna fyrir lýðræðislegri umræðu um hvert stefnir í Evrópusamvinnunni og hvernig við eigum að beita okkur í henni. Meðal athyglisverðra og mikilvægra mála í skýrslunni má nefna umhverfismál á borð við losunarkvóta fyrir gróðurhúsalofttegundir, neytendamál og lyfjamál. Persónulega fannst mér líka athyglisvert það mál sem fjallað er stuttlega um og snertir reglugerð sem tók hér gildi um áramót, en hún setur skorður óhóflegri gjaldtöku símafyrirtækja vegna símtala á ferðum erlendis. Þetta er síðan talið til marks um að EES samningurinn hafi sannað gildi sitt fyrir neytendur.

Fullnýtum tækifærin

Reynslan sýnir að við höfum beitt okkur með góðum árangri innan Evrópu. Þannig er rakið í Evrópuskýrslunni að virk þátttaka Íslands í stefnumótun um málefni siglinga og sjávar heppnaðist vel og var tekið með þökkum. Það má segja með réttu að við höfum þó nokkur tækifæri á að beita okkur innan ESB gegnum EES-samninginn, þannig að á okkur er hlustað. Það á sérstaklega við um þau svið þar sem  hagsmunir okkar eru miklir, enda helst góð þekking í hendur við hagsmunina. Eftir þeirri þekkingu er af rökréttum ástæðum sóst innan Evrópusambandsins. Það er hins vegar nær óumdeilt að við höfum ekki nýtt okkur nægilega vel þau tækifæri sem við höfum í gegnum EES til að hafa áhrif á stefnumótun og löggjöf á vegum Evrópusambandsins. Án þess að hér verði farið nákvæmlega út í það í hverju okkar tækifæri felast blasir við að við ættum að nýta þau betur, vegna þess hve mikill hluti okkar í löggjafar á uppruna sinn í Evrópusamrunanum.
Annað mál er svo það að með nýjasta endurskoðunarsáttmála ESB minnka möguleikarnir sem EES gefur okkur að nokkru leyti. Okkar tækifæri til áhrifa eru einkum á fyrstu stigum stefnumótunarinnar, sem hefur getað fleytt okkur nokkuð langt sé vel og tímanlega að verki staðið. Þróunin er hins vegar sú að færa völdin meira til þjóðþinga aðildarríkjanna, Evrópuþingsins og ráðherraráðsins en þar er hlutur Íslands enginn. Þetta þýðir að lýðræðishallinn eykst varðandi löggjöfina sem við tökum upp samkvæmt EES. Samningurinn hefur ekki verið endurskoðaður með tilliti til breytinga á ESB og óvíst hvernig til tækist ef farið yrði út í flókna endurskoðun.
Eins og fyrr segir liggur fyrir að við getum beitt okkur betur í gegnum EES samninginn og höfum náð ágætis árangri þegar það hefur verið gert. Með það í huga er gott að spyrja sig hvort einfaldlegasta leiðin til að fullnýta okkar tækifæri sé ekki bara sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og ganga í Evrópusambandið.

                                      Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 5. febrúar, 2008

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand