Allegoría um snjómokstur

,,Jafnaðarstefna nútímans, jafnaðarstefna Samfylkingarinnar, snýst um það að göturnar séu ruddar fyrir samfélagið allt. Strætisvagnagöturnar eru ruddar fyrst því að það eru hvort sem er fjölförnustu göturnar. Ef veður leyfir ryðjum við aðrar mikilvægar götur næst á eftir.“ segir Sverrir Bollason í grein dagsins

Þegar það snjóar alla nóttina og skefur í götunum þá er það jafnaðarstefnan sem ræsir út snjómoksturstækin til að ryðja göturnar fyrir hvern og einn. Sérhver einstaklingur getur treyst á að samfélagssáttmálinn sé í gildi og að hann geti ekið aðalbrautir borgarinnar til sinna starfa án þess að spurt sé um mikilvægi vinnunnar eða efnahag þess sem ekur.
Frjálshyggjan snýst um að koma því svo fyrir að auðveldara sé að kaupa fjórhjóladrifsbíla, jeppa og torfærutæki svo að hver geti séð til þess að hann komist áreiðanlega á leiðarenda einn og óstuddur. Frjálshyggjujepparnir eru ekki sneyddir hjartagæsku allir sem einn. Einhverjir munu nýta tækin sín til draga nágranna sinn eða bara heppinn vegafaranda upp úr snjósköflunum. Flestir munu spæna fram hjá og kvarta yfir að hjálpsamt fólk tefji fyrir hinum á vegunum og að þeir sem ekki hafa efni á jeppum ættu að halda sig heima.
Í kommúnismanum var þetta þannig að bara strætisvagnaleiðir voru ruddar og ætlast var til að allir tækju strætisvagninn enda ekki ætlunin að moka aðrar götur en þær sem strætisvagnar ækju á. Þeir sem gengu voru litnir hornauga, þeir sveigðu reglurnar  og létu þjóðskipulagið líta illa út með skeytingaleysi sínu um strætisvagna.
Sósíalistarnir höfðu sína stöðluðu einkabíla fyrir utan strætisvagna og fólk mátti aka þeim og ganga svo lengi sem það hélt sig á mokuðu götunum sem voru að vísu bara sömu götur og strætisvagnar óku. Að einhver færi af leið var í raun ekki möguleiki sem hugsað hafði verið fyrir svo þeir sem festu sig utan alfaraleiðar urðu að hjálpa sér sjálfir. Ekki var unnt að leita á náð annarra vegfarenda því þeir ætluðust hvort sem er til að einhver borgarstarfsmaður hjálpaði fólki í vanda.
Jafnaðarstefna nútímans, jafnaðarstefna Samfylkingarinnar, snýst um það að göturnar séu ruddar fyrir samfélagið allt. Strætisvagnagöturnar eru ruddar fyrst því að það eru hvort sem er fjölförnustu göturnar. Ef veður leyfir ryðjum við aðrar mikilvægar götur næst á eftir. Innkeyrsluna þína heima við og bílastæðið við vinnuna erður fólk að ryðja sjálft. Þeir sem eiga erfitt með að gera það sjálfir vegna hárrar ellri eða þjakandi krankleika eiga að geta fengið hjálp við að ryðja sér braut út úr húsi, best væri þó ef fólk nýtti sér tæknina og setti upp snjóbræðslutæki til að byrja með. Það er undir hverjum og einum komið hvort hann gengur eða ekur og þá hverju hann ekur. Við öfgafullar aðstæður í veðri er gott að vita af nokkrum jeppum á ferli því við ætlumst til að fólk hjálpist að þótt borgin ryðji helstu götur. Ef þú ratar af leið í glannaskap eða fávisku kemur einhver að draga þig á endanum en ekki láta það koma þér á óvart þótt þú þurfir að bíða eða leita á náðir náungans því við þurfum öll að hjálpast að þegar illa stendur á. Jafnaðarstefnan er búin að ræsa út snjómoksturstækin í landsstjórninni. Þegar jeppakallarnir eru búnir að hypja sig af veginum, sitja ekki bara fastir í förunum sem þeir spóla svo af svo miklum krafti í  getum við farið að ryðja brautina fyrir almenning.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand