Beint lýðræði

Þórður Sveinsson, formaður Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði skrifar um innleiðingu beins lýðræðis í stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar í nýlegri grein sinni á mir.is.

Eitt af því sem Samfylkingin stendur fyrir er beint lýðræði – að íbúarnir fái sjálfir að kjósa um tiltekin mál. Stjórnmálamennirnir – hinir kjörnu fulltrúar – ráði þannig ekki öllu heldur fái fólkið líka að ráða þróun mála. Slíkt er mjög æskilegt, en með því aukast áhrif einstaklinganna á umhverfi sitt og að sama skapi ábyrgð þeirra á þjóðfélagsmálum. Um leið örvast lýðræðisleg umræða því að kosningar kalla alltaf á öfluga umræðu um málefnin.

Og þess vegna setti Samfylkingin í Hafnarfirði það inn í samþykktir bæjarins skömmu eftir kosningar til bæjarstjórnar 2002 að kosið skyldi um meiriháttar mál. Í samræmi við það hefur og nú þegar verið tilkynnt að það hvort álverið í Straumsvík muni stækka muni velta á lýðræðislegri kosningu. Það er vel við hæfi því að sé eitthvert mál stórt, þá er það einmitt þetta mál. Og þar mun fólkið fá að ráða.
 
En færum okkur úr bæjarmálunum yfir í landsmálin. Þar sjáum við að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn vilja taka út möguleika forseta Íslands til að vísa málum til þjóðarinnar. Nái vilji þessara flokka fram að ganga mun hann ekki lengur geta synjað lögum staðfestingar og þar með látið fara fram um þau lýðræðislega kosningu. Rökin fyrir þessu eru þau að þingræðið sé svo mikilvægt. En Samfylkingin blæs á þau rök því að hún veit að þó svo að þingræðið sé mikilvægt er lýðræðið enn mikilvægara. Og það er lýðræðislegra að viss mál séu borin undir þjóðina heldur enn að allt sé ákveðið af hinum kjörnu fulltrúum – eins mikilvægir og þeir nú annars eru.
 
Þeir sem styðja beint lýðræði hér í Hafnarfirði eiga því ekki að hugsa sig tvisvar um heldur setja X við S í kosningunum nú á laugardaginn – og umfram allt ekki gleyma að mæta á kjörstað. Það er jú svo að hvert atkvæði skiptir máli – líka þitt.
 
Höfundur er formaður Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði.
Greinin birtist upphaflega á mir.is.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand