Baráttan um Ísland – verða Íslendingar undir í baráttunni?

Ef einhverjar útgerðir ráða ekki við hóflega gjaldtöku á kvóta, vegna of mikillar skuldsetningar og lélegs reksturs, þá eiga slíkar útgerðir einfaldlega að skipta um eigendur!

LÍÚ og þeirra áróðurspésar halda áfram að hamast gegn fyrningaráformum stjórnarflokkanna. Ólína Þorvarðardóttir er sem fyrr í eldlínunni hvað þessi mál varðar og bloggaði um málið á mánudaginn (sjá hér)

Í blogginu bendir Ólína á þá stefnubreytingu sem hefur orðið á síðum Morgunblaðsins, sem hefur nú mánuðum saman starfað alfarið í þágu hagsmunasamtakanna LÍÚ, í þeirra áróðursstríði gegn áformuðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Eins og Ólína bendir réttilega á var tíðin sú að mogginn var í fararbroddi þeirra sem vöruðu við afleiðingum sjálftökukerfisins, en nú eru augljóslega aðrir tímar þar á bæ með nýium húsbóndum og ritstjórum, sem svo sannarlega eiga hagsmuna að gæta. Á hverri síðunni af annarri úthrópa talsmenn LÍÚ ríkisstjórnina fyrir að valda „hruni“ sjávarútvegsins, verði farið í þá innköllun og endurúthlutun aflaheimilda sem boðuð er í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Vinstri Grænna. Þessir flokkar voru hins vegar kosnir með þá stefnuskrá að breytingar í réttlætisátt skyldu eiga sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Þessu virðist gamli „forsætisráðherrann“ í Hádegismóum gleyma, eða engu skeyta, sem og talsmenn LÍÚ.

En veltum nú fyrir okkur rökum útgerðamanna: Það hefur enginn sagt að vel reknar og stöndugar útgerðir missi kvótann frá sér, enda væri það fáránlegt að slík fyrirtæki, sem byggja afkomu sína á fiskveiðum og hafa eytt til þess fjármagni og eljusemi, verði sett af. Einungis er átt við að ríkið verði eigandi kvótans, eins og lög kveða á um, og að útgerðarmönnum verði gert að greiða fyrir afnotin; leigi hann semsagt af ríkinu.

Hér á Íslandi hefur verið við lýði leigumarkaður með kvóta í mörg ár. Finnst LÍÚ semsagt í lagi að Samherjakóngurinn Þorsteinn Már hirði tekjur af því að leigja frá sér kvóta, en ef íslenska ríkið gerir slíkt hið sama þá þýði það hrun?

5% fyrning þýðir semsagt ekki að útgerðir missi 5% af aflaheimildum í hendur annara, heldur að 5% af kvótaeign verði fært aftur til þjóðarinnar, sömu aðilar hafi síðan forgang þegar kemur að því að leigja hann aftur og að þær veiðiheimildir verði gjaldskyldar á hóflegan og sanngjarnan hátt. Þeir sem segja að fyrningin grafi „undan rekstri útgerða og leiðir til gjaldþrots þeirra á fáum árum,“ halda slíku fram án þess að hafa nokkra hugmynd um hversu hátt gjaldið á að vera. Þess vegna er þetta bara bull og það vita talsmenn LÍÚ vel, þó svo að þeir láti nú ekki smámál einsog staðreyndir hindra sig.

Íslenskur sjávarútvegur greiðir um 5 milljarða árlega inn í ríkiskassann á meðan veltan er um 190 milljarðar. Af því er 1,5 milljarður í formi auðlindagjalds, sem myndi þá falla niður á móti. Eftir stendur 3,5 milljarður. Það verður nú varla talinn mikill arður til réttmætra eigenda aflans, eða hvað?

Ef einhverjar útgerðir ráða ekki við hóflega gjaldtöku á kvóta, vegna of mikillar skuldsetningar og lélegs reksturs, þá eiga slíkar útgerðir einfaldlega að skipta um eigendur! Núverandi útgerðarmenn eru engar heilagar kýr – þó svo að margir þeirra séu ansi miklar gullkýr fyrir ónefnda flokksjóði – og fiskurinn verður áfram veiddur, það er alveg eins ljóst og að sólin mun koma upp á morgun!

Eins og Ólína segir: „Fiskveiðar munu að sjálfsögðu ekki leggjast af þó að ríkið breyti leikreglunum,stofni auðlindasjóð, innkalli veiðiheimildirnar og úthluti þeim að nýju til framtíðarnota fyrir útgerðirnar í landinu, á grundvelli gagnsærra og sanngjarnra reglna.“ Þessi orð sem og lokaorðin í grein Ólínar ættu að hljóma vel í eyrum okkar jafnaðarmanna og vert að halda þessum boðskap á lofti, enda megininntak okkar stefnu í sjávarútvegsmálum:

„Fyrirhugaðar breytingar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu eru réttlætismál. Þær eru liður í uppbyggingunni (og kannski líka uppgjörinu) eftir hrun. Við viljum ekki endurreisa gamla Ísland – við viljum byggja upp nýtt samfélag. Betra og réttlátara samfélag.“

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand