Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu

Þriðjudaginn 2. nóvember ganga Bandaríkjamenn að kjörborðinu. Þar munu þeir kjósa sér 538 kjörmenn sem síðan velja forseta landsins fyrir kjörtímabilið 2005-2009.Að auki velur bandaríska þjóðin 435 fulltrúadeildarþingmenn, 34 öldungadeildarþingmenn og 11 ríkisstjóra þennan dag. Þriðjudaginn 2. nóvember ganga Bandaríkjamenn að kjörborðinu. Þar munu þeir kjósa sér 538 kjörmenn sem síðan velja forseta landsins fyrir kjörtímabilið 2005-2009.

Að auki velur bandaríska þjóðin 435 fulltrúadeildarþingmenn, 34 öldungadeildarþingmenn og 11 ríkisstjóra þennan dag.

Forsetakosningarnar
Að undanförnu hefur hver skoðanakönnunin á fætur annarri um fylgi þeirra Bush og Kerrys birst í fjölmiðlum. Flestar þessar kannanir tilgreina fylgi frambjóðendanna á landsvísu og má ráða af þeim að Bush sé með naumt forskot. Landskannanir geta vissulega gefið vísbendingu um stöðu frambjóðenda í kosningabaráttunni – en þær segja samt ekki alla söguna.

Ástæðan til þess er sú að barátta Bush og Kerrys snýst ekki nema öðrum þræði um að fá flest atkvæði í landinu öllu. Áhersla kappanna er miklu fremur á að tryggja sér sem flesta kjörmenn. Síðast fékk Albert Arnold Gore til dæmis meira en 540 þúsund atkvæðum fleira en Bush í Bandaríkjunum öllum en samt færri kjörmenn – 271 á móti 267 (einn kjörmanna Gores sat reyndar hjá þegar á hólminn var komið).

Hvert fylki, auk höfuðborgarinnar, kýs sína sérstöku kjörmenn. Kjörmannafjöldi fylkis fæst með því að leggja saman fjölda öldungadeildarþingmanna þess (alltaf tveir) og fjölda fulltrúardeildarþingmanna (frá einum og upp í 53 og ræðst af mannfjölda).

Í 48 ríkjum Bandaríkjanna, auk höfuðborgarinnar, gildir sú regla að sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í fylkinu hlýtur alla kjörmenn þess. Í tveimur fylkjum, Maine og Nebraska, er stuðst við aðrar reglur sem leiða þó að jafnaði til sömu niðurstöðu.

Í Colorado verða samhliða forsetakosningunum greidd atkvæði um tillögu þess efnis að kjörmenn fylkisins verði kosnir hlutfallskosningu, líkt og sveitarstjórnarmenn á Íslandi. Hljóti hugmyndin brautargengi getur hún haft áhrif á úrslit kosninganna 2. nóvember, þar sem hún tekur gildi strax. Gore hefði til dæmis náð kjöri árið 2000, hefði þessi útfærsla verið við lýði í fylkinu þá.

Flestir spekingar skipta fylkjunum í þrennt fyrir þessar kosningar: Fyrst eru það fylki þar sem Bush er öruggur um sigur, síðan fylki þar sem Kerry er næsta vís með að fá mest fylgi og svo að lokum fylki þar sem allt getur gerst.

Bush er þannig til dæmis talinn alveg öruggur um sigur í Texas, Kansas og Alabama á meðan Kerry getur svo gott sem fært kjörmennina frá Kaliforníu, New York og Rhode Island til bókar hjá sér strax.

Óvænt úrslit gætu vissulega orðið í allmörgum fylkjum en spennan er samt langsamlega mest í Colorado, Florida, Pennsylvania, Ohio, Michigan, Minnesota, Hawaii, Iowa, Wisconsin, New Mexico og New Hampshire.

Ef sú ólíklega staða kæmi upp að báðir frambjóðendurnir fengju 269 kjörmenn myndi fulltrúadeild kjósa forseta þar sem hvert fylki hefði eitt atkvæði, en öldungadeildin kysi varaforsetann í hefðbundinni kosningu. Bush væri nokkuð öruggur um að vinna fulltrúardeildarkosninguna þar sem repúblikanar eiga meirihluta fulltrúadeildarþingmanna í mun fleiri fylkjum en demókratar. Demókratar ættu samt smávon um að hreppa varaforsetaembættið við þessar aðstæður, þ.e. ef þeir komast í meirihluta í öldungadeildinni.

Öldungadeildin
Hvert ríki Bandaríkjanna á tvö sæti í öldungadeild. Nú situr þar 51 repúblikani, 48 demókratar og einn óháður en sá hallast að demókrötum. Demókratar sitja aftur á móti í 19 af þeim 34 sætum sem kosið verður um í næstu viku en repúblikanar í 15.

Demókratar vonast til þess að geta styrkt stöðu sína í deildinni í kosningunum og jafnvel komist í hreinan meirihluta. Repúblikanar eygja á hinn bóginn von um að auka við meirihluta sinn í deildinni.

Spenningurinn um hver nær kjöri í efri deild Bandaríkjaþings er mestur í Alaska, Colorado, Kentucky, Lousiana, Oklahoma, North Carolina, South Dakota og Florida. Í öllum þessum fylkjum getur brugðið til beggja vona.

Því má svo bæta við að ef atkvæði í öldungadeild falla á jöfnu, þá hefur varaforseti Bandaríkjanna oddaatkvæði. Ef valdahlutföllin yrðu 50-50 eftir kosningarnar 2. nóvember myndu því annaðhvort Dick Cheney eða John Edwards ráða þar úrslitum.

Fulltrúadeildin
Nú eiga 229 repúblikanar sæti í fulltrúadeild, 205 demókratar og einn óháður. Þó svo að kjörtímabil fulltrúardeildarþingmanna sé aðeins tvö ár, þá ná flestir þeirra sem þar sitja kosningu á ný – hin síðari ár hefur endurkjörshlutfall verið yfir 90%. Það er samt hugsanlegt að nokkrar breytingar verði á styrkleikahlutföllum flokkanna í deildinni í þessum kosningum.

Annars vegar hafa verið gerðar breytingar á kjördæmamörkum í Texas sem sagðar eru repúblikönum í hag. Fylgisaukning demókrata á landsvísu gæti hins vegar vegið þar á móti. Samkvæmt vefnum electionworld.org fengu repúblikanar 51% atkvæða á landsvísu í síðustu kosningum til fulltrúadeildar en demókratar 46,2%. Nýjar kannanir benda til þess að munurinn þarna á milli verði minni núna.

Ríkisstjórarnir 11
Þau ríki þar sem kosið verður um embætti ríkisstjóra eru: Delawere, Indiana, Missouri, Montana, New Hampshire, North Carolina, North Dakota, Utah, Vermont, Washington og West Virginía. Demókratar sitja í 6 af þessum stólum en repúblikanar í 5.

Nú tilheyra 28 af 50 ríkisstjórum Bandaríkjanna flokki repúblikana, en 22 Demókrataflokknum. Hvort þetta hlutfall breytist eitthvað 2. nóvember verður bara að koma í ljós.

Ítarefni
Að lokum vil ég benda á nokkra fróðlega vefi þar sem nálgast má gagnlegar upplýsingar um kosningarnar:

realclearpolitics.com
pollingreport.com
uselectionatlas.org
cnn.com
latimes.com

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand