[Ávarp] Kæru félagar!

Ávarp Heiðu Bjargar Pálmadóttur, lögfræðings og meðstjórnanda í framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna, á 1. maí kaffi Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.Kæru félagar!Í hvernig samfélagi viljið þið lifa? Viljið þið lifa í samfélagi þar sem ríkisvaldið er mjög veikt, einkaaðilar stjórna og reka flesta þá þjónustu sem almenningur þarf á að halda og það er markaðurinn-peningarnir sem ráða för? Stjórnvöld í dag eru búin að gera upp hug sinn og hafa sýnt með athöfnum sínum að þau stefna í átt að kapítalísku samfélagi. Hægt er að nefna ýmis dæmi sem styðja það. Hvert og eitt þeirra segir kannski ekki mikið en þegar þau eru sett saman er búið að draga upp mynd sem mér finnst ekki falleg og sýnir að völd og peningar eru að færast á færri hendur. Ávarp Heiðu Bjargar Pálmadóttur, lögfræðings og meðstjórnanda í framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna, á 1. maí kaffi Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.

Kæru félagar!
Í hvernig samfélagi viljið þið lifa? Viljið þið lifa í samfélagi þar sem ríkisvaldið er mjög veikt, einkaaðilar stjórna og reka flesta þá þjónustu sem almenningur þarf á að halda og það er markaðurinn-peningarnir sem ráða för? Stjórnvöld í dag eru búin að gera upp hug sinn og hafa sýnt með athöfnum sínum að þau stefna í átt að kapítalísku samfélagi. Hægt er að nefna ýmis dæmi sem styðja það. Hvert og eitt þeirra segir kannski ekki mikið en þegar þau eru sett saman er búið að draga upp mynd sem mér finnst ekki falleg og sýnir að völd og peningar eru að færast á færri hendur.

Þegar Samkeppnisstofnun fór inn í olíufélögin í rannsókn sinni á starfsemi þeirra ruku frjálshyggjumenn upp og ýmis stór ummæli féllu um ofstopa stofnunarinnar. Svo þegar frumskýrsla Samkeppnisstofnunar var birt og þar dregin upp dökk mynd af því hvernig olíufélögin höfðu haft fé af almenningi í landinu var haft eftir þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, að hann teldi að það ætti ekki að sekta olíufélögin, því það myndi einungis koma niður á þjóðinni.

Þegar Samkeppnisyfirvöld hlýddu því ekki og lögðu sektir á olíufélögin er svo einfaldlega ráðist í það að kippa grundvellinum undan sjálfstæði Samkeppnisstofnunar. Fyrirhugað er að setja pólitískt skipaða nefnd yfir forstjórann sem mun geta skipað Samkeppnisstofnun að rannsaka tiltekin fyrirtæki og láta ógert að rannsaka önnur.

Hér má einnig nefna hvernig skipað hefur verið í embætti Hæstaréttardómara undanfarin ár. Ekki er tekið mark á áliti Hæstaréttar um hver er hæfastur heldur skipaðir einstaklingar sem hafa mjög sterk tengsl við tiltekinn stjórnmálaflokk. Það eru hins vegar ekki nema örfá ár síðan fræðimenn töldu óhugsandi að stjórnvöld myndu nokkurn tímann hunsa álit réttarins, það væri í raun bindandi.

Þegar Fréttablaðið var farið að hafa áhrif á afkomu dagblaðs Sjálfstæðismanna, Morgunblaðsins, var ráðist í það að setja lög til þess að kippa grundvellinum undan rekstri Fréttablaðsins. Og þegar forseti Íslands neitar að staðfesta lögin og vísar þeim til þjóðarinnar er ráðist í breytingu á stjórnarskránni til þess að tryggja að slíkt geti ekki átt sér stað aftur.

Það er líka vert að nefna að í kjölfar þess að Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gagnrýnt ýmis lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar og bent á að þau gætu falið í sér mannréttindabrot þá er fótunum kippt undan rekstri skrifstofunnar með því að neita að styrkja starfsemina með sama hætti og stjórnvöld hafa gert um árabil.

Dæmin eru auðvitað miklu fleiri og hér væri hægt að eyða löngum tíma í að tala um fréttastjóramálið, sölu bankanna og Landsímans og svo mætti lengi telja. Þau daga upp mynd af gífurlegum valdhroka ráðamanna og sýna að um leið og eitthvað ógnar völdum þeirra eða fylgismanna þeirra er hlaupið til og málunum reddað.

Ég get líka ekki komist hjá því að nefna menntamálin þar sem ég hef eytt undanförnum 22 árum eða svo innan veggja skóla. Við drögumst sífellt aftur úr grannþjóðum okkar, enda eyðum við miklu minna hlutfalli af þjóðarframleiðslunni í menntun en þær. Í margra vikna verkfalli grunnskólakennara í vetur var afstaða ríkisins einfaldlega sú að þetta kæmi því ekki við, þetta væri mál sveitarfélaganna.

Háskóli Íslands hefur verið fjársveltur árum saman og stjórnvöldum dettur ekkert annað í hug en að setja á skólagjöld. Menntun er besta leiðin til þess að auka jöfnuð í samfélaginu og það er fráleitt að fjárhagur stjórni því hvort fólk treystir sér í nám. Auðvitað skiptir það fólk máli hvort menntunin kostar eða ekki, það segir sig sjálft að ef fólk þyrfti að taka lán fyrir skólagjöldum þá myndu ýmsir sjá hag sínum betur borgið annars staðar.

Skuldir heimilanna eru nú þegar alltof miklar og erfitt fyrir ungt fólk að koma undir sig fótunum, meðal annars af því að fasteignaverð hækkar sífellt. Ekki er á bætandi ef þorri þeirra sem útskrifast úr háskóla verður að byrja lífið með skuldir vegna skólagjalda á bakinu að auki.

Kjör námsmanna eru líka ekkert til að hrópa húrra fyrir. Framfærslulán Lánasjóðs íslenskra námsmanna stendur ekki undir nafni og hefur ekki gert lengi. Að leigja einstaklingsíbúð á stúdentagörðum kostar til dæmis um tvisvar sinnum meira en lánasjóður gerir ráð fyrir að námsmenn þurfi að eyða í húsnæði. Þegar námsmenn benda á kjör sín er viðkvæðið iðulega að þeir eigi ekki að kvarta vegna þess að þeir eigi eftir að verða svo ríkir að námi loknu. Hins vegar er það fjarri að allir með háskólamenntun verði hálaunafólk.

Það eru líka ekki margir sem vilja treysta slíkum framtíðarauði. Ég er til dæmis efins um að nokkur matvöruverslun myndi samþykkja að lána námsmanni fyrir mat á meðan námi stæði, af því að viðkomandi ætti eftir að verða flugríkur seinna meir. Þess vegna drýgja háskólanemar tekjurnar með því að vinna með námi, sem svo á endanum kemur niður á náminu því vinnan tekur alltof mikinn tíma og orku.

Bilið milli þeirra fáu sem eiga allt og hinna breikkar líka ört og margir virðast sjá hag sínum best borgið í að fara á örorku, sem er vægast sagt sorgleg staðreynd.

Auðvitað erum við Íslendingar heppnari en flestar aðrar þjóðir og samfélagið er gott á margan hátt. Öll þau dæmi sem ég hef nefnt sýna hins vegar hve nauðsynlegt það er að taka í taumana og leiðrétta stefnuna sem stjórnvöld hafa tekið í átt að alræði auðsins. Það er verið að sveigja af leið og það er ljóst okkar bíður ærið verkefni að tryggja að við getum haldið áfram að búa í sátt í lýðræðislegu samfélagi sem við getum verið stolt af.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand