Ályktun Ungra jafnaðarmanna um stöðu sóttvarna á landamærum

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að lausatökum stjórnarflokkanna í sóttvarnamálum linni og að Alþingi komi saman án tafar svo renna megi skýrum lagastoðum undir nauðsynlegar sóttvarnir á landamærunum.

Undanfarin misseri hafa vinnubrögð ríkisstjórnarinnar einkennst af hringli, flumbrugangi og samráðsleysi við sóttvarnayfirvöld. Þetta hefur sett sóttvarnir í uppnám og grafið undan sátt og samstöðu í samfélaginu.

Alvarlegasta dæmið er nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um ólögmæta skyldudvöl í sóttvarnahúsi. Dómurinn og afleiðingar hans skrifast alfarið á ríkisstjórnina, ráðherra heilbrigðismála og tregðu stjórnarmeirihlutans á Alþingi til að axla pólitíska ábyrgð á sóttvarnaráðstöfunum og binda nauðsynlegar valdheimildir í lög þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar stjórnarandstöðu.

Sóttvarnalæknir lýsti í gær áhyggjum sínum af því að smit kunni að berast til landsins og leiða til nýrrar bylgju faraldursins hér á landi vegna ófullnægjandi sóttvarna á landamærunum.

Nú er mál að linni. Ungir jafnaðarmenn taka undir kröfur sóttvarnalæknis og Læknafélags Íslands um að lagastoð fyrir ýtrustu sóttvörnum á landamærunum verði tryggð svo heilsu, frelsi og efnahagslegum hagsmunum landsmanna verði ekki stefnt í voða. Til þess þarf að kalla þingheim úr páskafríi tafarlaust.

Á meðan ríkt hefur víðtæk samstaða meðal landsmanna um nauðsynlegar sóttvarnir hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins hamast gegn sóttvarnareglum og ráðherrar flokksins brotið þær. Sundurlyndi og ábyrgðarleysi þingmanna Sjálfstæðisflokksins má ekki standa sóttvörnum í landinu fyrir þrifum. 

Ungir jafnaðarmenn ítreka ákall sitt frá því í desember um að mynduð verði starfsstjórn ábyrgari stjórnmálaflokka fram að næstu Alþingiskosningum um stærstu hagsmunamál þjóðarinnar á þessum örlagatímum: öflugar sóttvarnir, öflun bóluefna og markvissari stuðning við atvinnuleitendur og þær atvinnugreinar sem hafa orðið verst úti í heimsfaraldrinum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið