Ungir jafnaðarmenn harma þá atburði sem áttu sér stað í dag á Miðjarhafinu þar sem ísraelski sjóherinn réðst á alþjóðlega skipalest sem var á leið til Gaza með mat, hjálpargögn og önnur nauðsyn fyrir íbúa Gazasvæðisins.
Meirihluti íbúa þessa hernumda svæðis reiða sig á aðstoð alþjóðlegra hjálparsamtaka til þess að halda lífi.
Um borð í skipinu, sem sigldi á alþjóðlegu hafsvæði, voru meðal annars sjálfboðaliðar, evrópskir þingmenn, Nóbelsverðlaunahafi og fleiri einstaklingar frá hinum ýmsu Evrópulöndum.
Talið er að 9 manns hafi látist í það minnsta og tugir særst.
Framferði Ísraela hefur víða verið fordæmt og mótmælt í dag og hafa sendiherrar Ísraels víða um heim þurft að svara fyrir árásina.
Ísraelar hafa hins vegar tekið slíkum fordæmingum og mótmælum af léttúð hingað til og ólíklegt þykir að það muni breytast.
Ungir jafnaðarmenn hvetja ríkisstjórn Íslands til þess að taka af skarið og slíta stjórnmálasamstarfi við Ísrael tafarlaust.
Nógu lengi hafa Ísraelar komist upp með brot á alþjóðalögum og mannréttindabrotum meðan stjórnvöld heimsins horfa aðgerðarlaus á.
Nú er kominn tími til að stoppa það!