,,Síðan sér hann borgarstjórastólinn í hyllingum og klýfur þennan annars farsæla meirhluta á engu nema ómerkilegu málefnaplaggi sem segir lítið um stjórn borgarinnar næstu árin“. Segir Ásgeir Runólfsson sem situr í framkvæmdarstjórn UJ
Í dag er fólki búið að vera tíðrætt um þá miklu óánægju Reykvíkinga með ólýðræðisleg vinnubrögð núverandi meirihluta í borgarstjórn.
Ungliðahreyfingar Tjarnarkvartettsins skipulögðu mótmæli til að búa til farveg fyrir óánægjuna og greinilegt var að full ástæða var til þess – enda aðeins um 25% borgarbúa sem styðja núverandi meirihluta. Talið er að hátt í þúsund manns hafi mætt í ráðhúsið í hádeginu í dag til að reyna að stöðva það óheilla skref sem var stigið í borgarstjórn í dag. Greinilegt var að mótmælendum stóð ekki á sama og láu þeir ekki á skoðunum sínum.
En því miður sigraði lýðræðið ekki í dag og ljóst að Ólafur F. er nýr borgarstjóri, með 9,8% atkvæða bak við sig, og Vilhjálmur Þ. tekur við eftir rúmt ár eða svo. Rétt er að rifja upp hvað við eigum von á frá Villta Tryllta Villa og það má gera með því að skoða eina af vinsælustu fréttum síðasta árs á Vísi.is.
Samhliða er rétt að rifja upp afhverju var þörf á nýjum meirihluta í sl. október. Þá var borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í molum fólk var: „til í allt án Villa“. Já, það er rétt munað þetta voru skilaboð frá félögum hans í sjálfum Sjálfstæðisflokknum. Hann var klagaður til Geirs, forsætisráðherra, af hans eigin flokksfélögum og 81% borgarbúa vildu hann burt úr borgarstjórastólnum
Í kjölfarið steig þáverandi minnihluti í borgarstjórn upp og myndaði starfhæfan meirihluta í höfuðborginni sem Ólafur var einn að höfundunum af – að hans eigin sögn. Síðan sér hann borgarstjórastólinn í hyllingum og klýfur þennan annars farsæla meirhluta á engu nema ómerkilegu málefnaplaggi sem segir lítið um stjórn borgarinnar næstu árin. Nema einna að helst að það verða tveir umboðslitlir kallar borgarstjórar næstu tvö árin!