Af hverju ekki á Íslandi?

Í grein Margrétar Rósar Sigurjónsdóttur segir hún frá muninum á að vera ábyrgur neytandi í Danmörku og á Íslandi. „Framleiðendur voru látnir axla ábyrgð og sjá til þess að hvorki náttúran né neytendur þyrftu að líða fyrir framleiðsluaðferðir þeirra.“

Það er ekki mjög langt síðan ég varð ábyrgur og siðferðilega spyrjandi neytandi. Nánar tiltekið var það í ágúst í fyrra þegar ég flutti tímabundið til Jótlands í Danmörku. Fram að því hafði ég talið mig neytanda í a-flokki. Ég reyndi að kaupa lífrænt, bæði þegar það stóð til boða og þegar buddan leyfði. Ég fór með dósir og flöskur í endurvinnsluna og flokkaði mjólkurfernurnar og dagblöðin frá öðru rusli. Ég reyndi að nota lítið þvottaefni, passaði mig að spreða ekki dýra, fína sjampóinu mínu og fleira í þessum dúr. Ég var sem sagt fyrirmyndarneytandi.

Við flutningana til Danmerkur komst ég hins vegar að því að það sem að ég taldi mjög dugmikið og rausnarlegt starf í þágu umhverfisins var það sem að meðal 10 ára gömlu barni í Danmörku þótti ekkert meira en sjálfsagt mál. Ég hugsaði því með mér að nú myndi ég nýta tækifærið, læra af öllum kláru Dönunum, og flytja þekkinguna með mér heim þegar að því kæmi.

Einfaldar lausnir í Danmörku
Á þessum tíma voru það einkum þrír hlutir sem að auðvelduðu mér til muna að læra af Dönunum og taka ábyrgð á minni neyslu:

Í fyrsta lagi voru það grenndargámarnir sem gerðu mér kleyft að losa mig við mína neyslu á rétta staði. Það stóð grenndargámur á bílaplaninu hjá mér og bauð hann nánast allan úrgang velkominn. Flöskur höfðu sinn samastað, líka ál, dósir, dagblöð, lífrænan úrgang, mjólkurfernur, plastumbúðir og annar pappi. Á hverju kvöldi fóru danskir nágrannar mínir út í gáminn með allan úrganginn sem safnast hafði saman eftir daginn. Þetta einfalda kerfi hjá Dönum gerir það að verkum að allir geta á auðveldan máta endurunnið sinn úrgang. Hér á Íslandi er málum öðruvísi háttað og þarf fólk helst að eiga 10 fermetra geymslu undir flöskurnar, mjólkurfernurnar og dagblöðin.

Í öðru lagi voru það matvöruverslanir og apótekin. Í flestum verslunum var vörum sem voru vistvænt framleiddar eins og til dæmis þvottaefni og annað þess háttar ávallt stillt upp við hliðina á sambærilegri meira mengandi vöru. Umhverfisvænni varan var svo merkt með tilheyrandi merkingum eins og til dæmis Svaninum og var þessum merkingum yfirleitt stillt upp á mjög áberandi staði. Í matvörubúðunum var líka hægt að endurvinna plast-, gler-, og áldósir og fá ávísun upp á krónurnar sem fengust fyrir endurvinnsluna. Ávísunina var svo hægt að nota upp í matarreikninginn með því að framvísa henni á kassanum.

Í þriðja lagi var öll umræða um neyslu á háu plani í Danmörku. Mikið var rætt um dýravernd í fjölmiðlum, áhrif skordýraeiturs og umhverfisspjöll tengd framleiðslu. Málin voru ekki bara rædd heldur lausnirnar fundnar. Reglulega bárust fréttir af því þegar matvælaframleiðendur voru hankaðir á því að merkja ekki matvæli rétt samkvæmt innihaldi eða upplýsa neytendur ekki um framleiðsluaðferðir. Framleiðendur voru látnir axla ábyrgð og sjá til þess að hvorki náttúran né neytendur þyrftu að líða fyrir framleiðsluaðferðir þeirra.

Hvað þarf að gera á Íslandi
Eftir dvöl mína í Danmörku er ég orðin mikil áhugamanneskja um neyslu og það sem henni við kemur. Þar áttaði ég mig á því að það má auðvelda neytendum að stunda siðræna neyslu. Ég komst að því að ég (og flestir Íslendingar) var svo sannarlega slappur neytandi miðað við Dani. Mér til mikils ama uppgötvaði ég þó líka að daglegir hættir sem ég hafði tamið mér meðan ég bjó úti gengu ekki upp á Íslandi. Hlutir eins og að endurvinna alla skapaða hluti daglega, fá fyllt á þvottaefnið eða biðja um bréfpoka úti í búð eru einfaldlega ekki til í dæminu.

Til þess að ástandið breytist þarf bæði hinn almenni Íslendingur að breyta sinni hugsun. Hið opinbera þarf að auðvelda fólki um allan helming að gera það sem þykir svo sjálfsagt annars staðar í heiminum. Fólkið í landinu þarf að átta sig á því að margt smátt gerir eitt risa stórt. Við losum okkur hvert og eitt við ótrúlegt magn af úrgangi á ári hverju og endurvinnum einungis brot af því sem hægt er að nýta. Á sama tíma þarf hið opinbera að átta sig á því að fólk virkilega hefur áhuga á að hugsa um umhverfi sitt ef hlutirnir eru einfaldaðir. Málið er að þetta er ekki neitt sérstaklega flókið. Ef allir myndu temja sér að hugsa fyrst og kaupa svo þá yrði þetta allt svo miklu, miklu minna mál.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand