Að loknu haustþingi

Á haustþingi stóð þetta upp úrÞingmenn bræðraflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hafa verið kófsveittir við að svíkja öll þau loforð sem þeir gáfu kjósendum í liðinni kosningabaráttu. Á haustþingi stóð þetta upp úr
Þingmenn bræðraflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hafa verið kófsveittir við að svíkja öll þau loforð sem þeir gáfu kjósendum í liðinni kosningabaráttu.

Skattalækkanir hafa snúist upp í skattahækkanir
Bræðraflokkarnir lofuðu skatta- lækkunum og aftur skattalækkunum en hvernig er með efndir?
– Bensínskattur var hækkaður í haust um tæpar 4 kr. á líter sem þýðir um 20-25 þús. króna hækkun að meðaltali hjá hverjum einasta bifreiðaeiganda í landinu.
– Þungaskattur hækkaði um áramótin sem leiðir til þess að flutningsgjöld hækka enn meira.
– Bræðraflokkarnir lofuðu aðgerðum til að lækka flutningsgjöldin en standa nú að hækkun þeirra.

Þetta er kaldar kveðjur til landsbyggðarfólks og atvinnurekstrar á landsbyggðinni. Skattar af umferð í tíð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar hafa tvöfaldast á þessu tímabili og hækkað úr 16 milljörðum króna í 32 milljarða. Og fór þessi hækkun til vegamála? Nei, aldeilis ekki. Einungis um helmingi skatta af umferðinni er varið árlega til vegamála. Þetta er heimsmet í skattahækkunum og heimsmet í álögum á bifreiðaeigendur. Ýmislegt fleira mætti hér nefna í sviknum loforðum stjórnarflokkanna í sambandi við skattamál, sem verður þó að bíða betri tíma, en allt er þetta fólki ljóst, eftir fjölmiðlaumræðu um þessi mál.

Tekjustofnar sveitarfélaga
Í kjördæmavikunni þar sem þingmenn hittu m.a. sveitarstjórnarfulltrúa í kjördæminu og ræddu málefni hvers sveitarfélags stóð tvennt upp úr: Flestir fulltrúar kvörtuðu yfir minni framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þetta árið heldur en síðasta ár. Ljóst er að m.a. breyttar úthlutunarreglur svo og lægri upphæð úr ríkissjóði koma afar illa við flest öll sveitarfélög í landinu og háar upphæðir vantar.

Tekjustofnar sveitarfélaga eru ekki í takt við þau verkefni sem þeim er ætlað að sinna og ofan á þetta bætist svo samdráttur í tekjum fjölmargra starfsgreina eins og t.d. sjómanna á frystitogurum. Ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við þessa staðreynd og ætlar greinilega ekkert að gera til að leysa úr þessum vanda. Má í þessu sambandi benda á tekjutap sveitarfélaga vegna áhrifa breytinga á einkarekstri yfir í einkahlutafélög en við þá breytingu misstu sveitarfélögin spón úr aski sínum. Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga getur sú upphæð verið í kringum 1 milljarð króna.

Tekjustofna sveitarfélaga verður að taka upp og endurskoða til þess að sveitarfélögin geti veitt íbúum sínum eðlilega þjónustu. Enn og aftur skal það áréttað að sveitarfélög á landsbyggðinni koma sérstaklega illa út úr þessum málum.

Háhraða netsamband
Hitt atriðið sem fulltrúar minni sveitarfélaganna kvörtuðu mikið yfir var netsamband með miklum hraða, eins og t.d. ADSL samband. Landssíminn hefur neitað að veita þessa þjónustu í byggðalögum sem eru undir 500 íbúum og hefur reyndar sett kvaðir um ákveðinn lágmarkfjölda notenda strax í byrjun í þeim stærri. Ber þessi ákvörðun ekki vott um einokun? Eðlilegt og sambærilegt háhraða netsamband eins og gerist í stærri bæjum landsins er sjálfsögð krafa allra landsmanna. Er ekki Landssíminn enn fyrirtæki allra landsmanna og á ríkissjóður ekki um 99% hlutafjár? Svo virðist ekki vera miðað við það sem að framan er rakið. Landssíminn ætlar íbúum minni sveitarfélaga verra netsamband og hægvirkara heldur en þéttbýlingum. Er ekki nóg að ríkisstjórnin skattpíni landsbyggðarfólk og geri því sífellt erfiðara að búa í sínu sveitarfélagi þó svo Landssíminn leggist ekki á sveif með ríkisstjórninni? Háhraða netsamband er meðal annars spurning um „jafnrétti til náms“ og sjálfsögð krafa íbúa landsbyggðarinnar til að sitja við sama borð og aðrir landsmenn.

Sú leið sem Hríseyingar fóru er dæmi um sjálfsbjargarviðleitni og það að menn gefast ekki upp þótt skilning ráðamanna vanti gjörsamlega. Einn íbúi eyjarinnar tók málið í sínar hendur og hefur af eljusemi unnið að þessu máli og komið á háhraða gervihnattasambandi sem er til mikilla bóta fyrir eyjarskeggja og einnig ódýrara. Samgönguráðherra telur það hins vegar eðlilega ráðstöfun að íbúar Hríseyjar borgi allan stofnkostnað við þetta og að Landssíminn sleppi alveg frá því að veita Hríseyingum sömu þjónustu og t.d. íbúum Dalvíkurbyggðar svo tekið sé dæmi af næstu nágrönnum. Er þetta ekki líkt samgönguráðherranum? Ég tel þessa mismunun óþolandi. Þessi lausn Hríseyinga virðist henta mörgum öðrum og er málið í skoðun hjá fleiri litlum sveitarfélögum.

Þing saman að loknu jólaleyfi
Alþingi kom saman að nýju nú í lok janúar. Það er útbreiddur misskilningur að þingmenn liggi bara með tærnar upp í loft í þessu langa ,,jólafríi” sem svo er kallað. Við þingmenn landsbyggðarkjördæmanna notum tímann til heimsókna á ýmsa staði í kjördæminu, og var engin undantekning á því nú. Þetta er nauðsynlegt í starfi alþingismanns, og mjög mikilvægt að fara um og hlusta á fólk, kynnast starfi þeirra og ræða málefni viðkomandi byggðalaga.

Þingið byrjar vel
Þingstörfin fara vel af stað, og nokkuð ljóst að það verður engin lognmolla á þessu þingi, og er SPRON málið gott dæmi um það, Valgerður viðskiptaráðherra var látin fara fram með frumvarp til að lagfæra klúður sem varð við síðustu lagabreytingu um Sparisjóðina, en þetta gerði Valgerður ekki fyrr en frumvarp Lúðvíks og Einars Odds var búið að fá samþykki í þingflokkum Samfylkingar og Sjálfstæðismanna. Valgerði og framsóknarmönnum var einfaldlega stillt upp við vegg í þessu máli. SPRON málið opinberaði reyndar hinn mikla pirring sem er milli stjórnarflokkanna, og mikil þreyta er þeirra á milli. Sjálfstæðismenn hugsa til þess með hryllingi að senn kemur að því að Davíð standi upp fyrir formanni Framsóknarflokksins, og að þeir sitji í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar. Verði þeim að góðu, og góða skemmtun sjálfstæðismenn!!!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand