Aðsend grein – Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu

Aðsend grein frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur Það er ljóst að erfitt er að bera ábyrgð á efnahagsmálum þjóðarinnar ef lausn Icesave dregst lengi enn. Það þýðir dýpri kreppu, aukið atvinnuleysi og erfiðari ríkisfjármál. Mig fýsir ekki að bera ábyrgð á slíkri þróun.

Aðsend grein frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar

Þjóðin hefur talað. Niðurstaðan kemur ekki á óvart, enda ljóst um nokkurt skeið að nýr Icesave samningur væri í spilunum. Kosningaþátttakan var þokkaleg og raunar með ágætum miðað við að raunverulegir valkostir voru ekki til staðar. Þetta sannar enn eina ferðina sterkar skoðarnir þjóðarinnar á Icesave og ekki síður áhuga kjósenda á þjóðaratkvæðagreiðslum.

Við þessi tímamót vil ég rifja upp af hverju ég greiddi atkvæði með samningnum á sínum tíma. Mín skoðun var sú að Icesave samningurinn væri nauðarsamningur. Ekkert erlent ríki hefur stutt sjónarmið Íslands í Icesave nema Færeyjar og erlend aðstoð við uppbyggingu efnahagslífsins eftir hrunið hefur strandað á lausn þessa máls. Við þær aðstæður taldi ég ábyrgðarhluta að draga málið lengur.

Staða málsins er ennþá þessi, því miður. Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur dregið Breta og Hollendinga aftur að samningaborðinu og nú ljá þeir máls á tilslökunum sem komu ekki til greina fyrir nokkrum mánðum. Þetta gefur vonir um að hægt sé að ná betri samningum en áður. Ég tel því nauðsynlegt að ljúka málinu hratt og örugglega svo hægt sé að snúa sér af krafti að uppbyggingu atvinnulífs í landinu.

Hér eru ekki allir sammála og einhverjir telja að Icesave geti beðið mánuðum saman, jafnvel fram á næsta ár. Þeir sem eru á þessari skoðun eru oftast nær einnig andsnúnir samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Norðurlöndin. Þetta var staðfest í vikunni sem leið þegar Hreyfingin og Framsóknarflokkurinn lögðu fram tillögu á Alþingi um að hætta þessu samstarfi og semja nýja efnahagsáætlun á öðrum grundvelli. Ríkissjórnin hefur verið á annari skoðun, þó að það sé ljóst að helstu andstæðingar Icesave innan VG hafi einnig verið andsnúnir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Líkurnar á þverpólitískri samstöðu um Icesave eru því ekki miklar þó að samráð um meðferð málsins sé áfram mikilvægt. Það er einnig ljóst að erfitt er fyrir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að bera ábyrgð á efnahagsmálum þjóðarinnar ef lausn Icesave dregst lengi enn. Það þýðir dýpri kreppu, aukið atvinnuleysi og erfiðari ríkisfjármál. Mig fýsir ekki að bera ábyrgð á slíkri þróun.

Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur vissulega styrkt samningsstöðu landsins. Þá samningsstöðu ber að nýta hratt og örugglega til að ná nýjum samningum og klára Icesave.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona Samfylkingarinnar

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand