Á feigðarflani um framandi lönd

Það dýrmætasta sem hver maður á hlýtur að vera lífið sjálft, hinsta hálmstráið til að öðlast það sem flestir vilja höndla: hamingjuna. Í stríði falla menn, óbreyttir borgarar jafnt sem hermenn. Sumir halda lífi en örkumlast. Aðrir hljóta sár á sálinni og verða seint heilir, það eru einkum ástvinir fallinna og særðra en líka þeir sem hafa deytt eða limlest aðrar mannverur með eigin hendi – nema tilfinninganæmið sé þeim mun sljórra. Þess utan eiga margir stríðsfangar auma vist í höndum óvinanna og bíða þess seint eða aldrei bætur.Mannskepnan er sjálfri sér lík og slóð hennar blóði drifin á tiltölulega stuttri vegferð um söguna. Þeir sem eiga upptökin að stríði virðast yfirleitt reknir áfram af valdaþorsta, græðgi, frægðarfýsn, öfund, hatri, ótta eða jafnvel stálvilja til að beina sjónum annarra frá eigin ráðleysi eða afglöpum. Með öðrum orðum: Sérdrægni ræður því oftast að friðurinn er rofinn. Á heljarþröm
Það dýrmætasta sem hver maður á hlýtur að vera lífið sjálft, hinsta hálmstráið til að öðlast það sem flestir vilja höndla: hamingjuna. Í stríði falla menn, óbreyttir borgarar jafnt sem hermenn. Sumir halda lífi en hljóta örkuml. Aðrir hljóta sár á sálinni og verða seint heilir, það eru einkum ástvinir fallinna og særðra en líka þeir sem hafa deytt eða limlest aðrar mannverur með eigin hendi – nema tilfinninganæmið sé þeim mun sljórra. Þess utan eiga margir stríðsfangar auma vist í óvinahöndum og bíða þess seint eða aldrei bætur.

Mannskepnan er söm við sig og slóð hennar blóði drifin á tiltölulega stuttri vegferð um söguna. Þeir sem eiga upptökin að stríði virðast yfirleitt reknir áfram af valdafíkn, græðgi, frægðarfýsn, öfund, hatri, ótta eða jafnvel stálvilja til að beina sjónum annarra frá eigin ráðleysi eða afglöpum. Með öðrum orðum: Sérdrægni ræður því oftast að friðurinn er rofinn.

Stríð verður varla hafið af góðum hvötum nema hugsanlega til að koma í veg fyrir þjóðarmorð en til þess er enginn aðili heppilegri en Sameinuðu þjóðirnar. Ef einstök ríki ætla sér að ganga í verk rótgróinna fjölþjóðasamtaka býður það heim hentistefnu, eiginhagsmunapoti og alltént tortryggni.

Sneypuför á heljarslóð
Þann 20. mars 2003 hófst innrás í Írak, sneypuför á heljarslóð undir fölsku flaggi. Þar var enginn Osama bin Laden og þar var enginn griðastaður fyrir hryðjuverkasamtökin al-Qaeda. Helsta yfirvarpið var ótti um að írösk stjórnvöld lumuðu á gereyðingarvopnum en þau hafa engin fundist. Eftir á var dregin fram ný átylla: Harðstjóranum Saddam Hussein hefur verið steypt af stóli! Frá því í mars 2003 hafa tugþúsundir manna látið lífið til að svo mætti verða.

En skyldi heimurinn vera öruggari eftir hernám Íraks? Varla, því nú er jarðvegurinn hálfu frjórri fyrir öfgamenn til að sá hatursfræjum í garð Bandaríkjamanna og meðreiðarsveina þeirra. Það er eins og við manninn mælt: Hryðjuverkamenn eru farnir að láta oftar og víðar að sér kveða en nokkru sinni fyrr, samanber ódæði þeirra á Spáni, í Indónesíu, Tyrklandi, Egyptalandi, Kenía, Sádi-Arabíu og fleiri löndum. Í öðrum ríkjum, þar á meðal Bretlandi og Jórdaníu, hefur naumlega tekist að afstýra fyrirhuguðum óhæfuverkum. Í Írak lifir enn í glæðum ófriðarbálsins og varla var Bush fyrr endurkjörinn en hann afréð að brenna borgina Fallujah á báli hégómans.

En til hvers var látið sverfa til stáls við Íraka? Sennilega hefur ýmislegt vakað fyrir bandarískum ráðamönnum, til dæmis

a) að beina athyglinni frá andvaraleysi Bandaríkjastjórnar í aðdragandanum að hinum voveiflegu hryðjuverkaárásum 11. september 2001, sem og frá efnahagslægð heima fyrir.

b) að svala metnaði eins manns til að ljúka því sem faðirinn lét ógert árið 1991, þegar hersveitir Íraka höfðu verið hraktar frá Kúvæt. Líklega hefur George Walker Bush ætlað sér að verða föðurbetrungur en virðist öllu heldur á góðri leið með að verða verrfeðrungur.

c) að ná yfirráðum yfir auðugum olíulindum. Þaðan kemur orka sem gengur fyrr eða síðar til þurrðar en Bandaríkjamenn þarfnast enn um sinn.

d) að koma „reglu“ á róstusamt svæði sem lengi hefur verið bandarískum stjórnvöldum til mikillar armæðu og enn meiri raunar fyrir helstu skjólstæðinga þeirra í Austurlöndum nær: Ísraela.

e) að þröngva vestrænni hugsun og gildismati upp á íslömsk ríki og það með vopnavaldi. Oft er penninn máttugri en sverðið en stílvopnið leikur nú ekki beinlínis í höndunum á George Bush. Kannski er heittrúarmanni eins og honum fyrirmunað að sjá að sumt í íslömskum siðum gæti verið Vesturlandabúum til eftirbreytni (gildir þó alls ekki um ofríki í garð kvenna og samkynhneigðra og harðneskju í refsingum).

f) að sporna við hugsanlegri útrás Kínverja þegar fram líða stundir. Upprennandi risaveldi eiga það jú til að seilast til áhrifa í öðrum ríkjum, sér í lagi ef þau eru í sama heimshluta. Á tveimur fyrstu öldunum eftir Krists burð þegar Rómaveldi stóð með hvað mestum blóma og skyggði á önnur ríki óraði fæsta fyrir því að sá mikli askur myndi riða til falls. En stofn hans var orðinn feyskinn og ormétinn, rétt eins og Bandaríkjanna nú. Allt er í heiminum hverfult; það hljóta bandarískir pótintátar að vita.

Það sem stefnt var að eftir 11. september 2001, að bægja frá aðsteðjandi hryðjuverkaógn, er ekki í sjónmáli. Þvert á móti: Eftir innrásina í Írak hangir hryðjuverkaváin yfir höfði manna eins og Damóklesarsverð.

Fáfengileg fylgispekt
Að Íslendingar skuli teljast „staðföst“ þjóð virðist til þess fallið að kalla yfir sig hættu á hermdarverkum og gert í óþökk þorra landsmanna. Um það ber öllum könnunum saman. Nú eru eftir fjörutíu og þrjár „staðfastar“ þjóðir og hefur kvarnast úr hópnum. Í mars 2004 ákváðu Spánverjar að draga hersveitir sínar frá Írak, eftir hryðjuverk í Madrid og stjórnarskipti heima fyrir. Í kjölfarið hafa Kostaríka, Hondúras og Dóminíska lýðveldið sagt skilið við hóp „hinna staðföstu“. Íslendingar ættu að sjá sóma sinn í að afturkalla stuðning við innrásina og viðurkenna um leið að forsendurnar hafi verið falskar. Eftir sem áður gætu þeir stutt við uppbygginguna í Írak eins og ýmsar „óstaðfastar“ þjóðir, svo sem Norðmenn.

Það er mótsagnakennt að íslensk stjórnvöld skuli kappkosta að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna en grafa um leið undan þeim þarflegu samtökum með því að styðja einstök ríki til hernaðaríhlutunar á erlendri grund. Sú var tíð að bandarísk yfirvöld héldu hlífiskildi yfir Augusto Pinochet meðan sá dáðadrengur lét pynta og myrða þúsundir landa sinna í Chile, að ógleymdum engum öðrum en sjálfum Saddam Hussein meðan það valmenni fór með eldi og járni gegn Írönum. Má á því sjá að Bandaríkin horfa fyrst og fremst til eigin hagsmuna hverju sinni.

Af „öxulveldum hins illa“, sem George Bush kallar svo, standa tvö enn keik: Íran og Norður-Kórea. Nú er Íran sakað um að hyggja á smíði kjarnavopna. Það skyldi þó aldrei vera að „öxulbrjótur hins góða“ ætli sér að senda dáta sína þangað?!

Íslendingar hafa ekki eigin her og er það vel. Slíkar þjóðir þurfa að vera til og fá að dafna í friði; á viðsjárverðum tímum geta þær orðið öðrum þjóðum góðar fyrirmyndir.

Um langan aldur norpuðu mörlandar í næðingi kalda stríðsins; þá nísti sú hugsun suma í gegnum merg og bein að Bandaríkjamönnum skyldi fylgja í einu og öllu. Nú, þegar kalda stríðinu er lokið, eru mörlandar orðnir taglhnýtingar í krossferðunum síðari. Hversu lengi enn á að fylgja bandarískri ofstækisstjórn á feigðarflani um framandi lönd?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand