Ungir jafnaðarmenn 10 ára

Ungir jafnaðarmenn fagna í dag 10 ára afmæli sínu, en hreyfingin byggir á hugmyndum jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag og hafa þær hugmyndir verið rauður þráður í öllu starfi hreyfingarinnar.

Í dag fagna Ungir jafnaðarmenn 10 ára afmæli sínu en samtökin voru stofnuð þann 9. mars árið 2000. Félagið er því ögn eldra en Samfylkingin sjálf, en flokkurinn var stofnaður í maí árið 2000. Ungir jafnaðarmenn hafa frá upphafi verið öflugur málsvari ungs félagshyggjufólks. Ungir jafnaðarmenn byggja á grunnhugmyndum jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag og hafa þær hugmyndir verið rauður þráður í öllu starfi hreyfingarinnar. Uj hefur sem dæmi sett kvenfrelsi, mannréttindi, menntamál, umhverfismál, lýðræðismál, alþjóðasamvinnu og Evrópumál á oddinn auk þess að tala máli unga fólksins í samfélaginu almennt. Uj hefur verið drifkraftur innan Samfylkingarinnar og haft áhrif á stefnu flokksins allt frá stofnun hans.

Miklir umbrotatímar
Á þessu tíu ára tímabili hefur margt breyst á Íslandi. Þjóðin hefur á þessum skamma tíma gengið í gegnum gríðarlega sveiflu sem náði hámarki sínu hið alræmda ár 2007. Nú súpum við seyðið af græðgi síðustu ára og mörgum finnst eflaust erfitt að horfa björtum augum til framtíðar í þessu ástandi. Það er vel skiljanlegt, til að mynda hefur Icesave málið vofað yfir okkur í eitt og hálft ár, atvinnuleysi er meira en það hefur verið í langan tíma og margir eiga erfitt með að ná endum saman. Við verðum í sífellu að minna okkur á að í þessu ástandi felast einnig mörg tækifæri. Jafnaðarmenn vilja nýta þessi tækifæri. Sú gróðahyggja sem einkenndi kapítalismann og íslenskt samfélag síðustu ár og áratugi er orðin gjaldþrota og við þurfum nýjar leikreglur. Í góðærinu jókst misskipting auðs gríðarlega og þrátt fyrir að peningarnir „kæmu bara“ þá var aldrei neitt góðæri í velferðarkerfinu, í grunnskólunum eða á elliheimilinum.

Erindi jafnaðarmanna er brýnt
Erindi jafnaðarmanna er að breyta gildunum í samfélaginu. Unga fólkið í dag vill ekki lifa í því samfélagi sem fyrri kynslóðir byggðu upp. Við viljum jafnrétti kynjanna, ekki bara á blaði heldur í verki. Konur eiga að fá sömu laun og karlar og eiga öll sömu tækifæri og karlar. Aldraðir og öryrkjar eiga ekki að þurfa að fara í umfangsmikil málaferli til þess að krefjast grundvallarmannréttinda. Öll börn eiga að eiga sömu tækifæri til að njóta menntunnar. Við viljum sjá fjölbreytt og skapandi atvinnulíf en ekki frekari eyðingu náttúrunnar. Ísland á að vera þátttakandi í alþjóðasamstarfi en ekki loka sig af fyrir umheiminum því þannig fáum við ekki notið allra þeirra tækifæra sem nútíminn býður upp á. Við viljum opið og gagnsætt lýðræðissamfélag þar sem borgararnir vita hvað gerist í stjórnkerfinu og ráðamenn taka ábyrgð ef þeir gera mistök. Umfram allt viljum við samfélag sem byggist á jöfnuði og virðingu fyrir fólki, sama hvaðan það kemur.

Hvernig samfélag viljum við?
Það gleymist oft í umræðunni að þetta er það sem jafnaðarmenn vilja. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er ekki að ræða Icesave fram og til baka af því það er svo skemmtilegt. Niðurskurðurinn sem er hafinn og mun halda áfram næstu ár er ekki til kominn af því að þingmenn vilja klekkja á borgurunum og veita þeim minni þjónustu. Þetta eru einfaldlega verkefni sem verður að ráðast í ef hér á að vera hægt að búa með góðu móti og er allt liður í því að endurreisa samfélgið úr rústum kapítalismans. Ég er stolt af því að vera ung jafnaðarkona á þessum erfiðu tímum. Ég vona að þjóðinni beri gæfa til þess að horfa fram á veginn í stað þess að sitja föst í sama fari niðurdrepandi umræðu og svartsýni. Við þurfum virkilega að hugleiða hvernig samfélagi við viljum búa í og hverjum við treystum til þess að byggja það samfélag upp. Ungir jafnaðarmenn munu áfram að halda á lofti gildum félagshyggjunnar og taka þátt í að móta framtíðina eins og við höfum gert síðastliðin 10 ár.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand