Ungir frambjóðendur í Suðurkjördæmi

Inger Erla 4. sæti

Hver yrðu þín helstu áherslumál á Alþingi?

Ef ég fæ tækifæri til þess að beita mér inn á Alþingi þá er held ég það sem ég myndi vilja leggja mesta áherslu á fyrst eru réttindi fatlaðs fólks og barna. Loftslagsmálin eru mér líka alltaf ofarlega í huga ásamt byggðarmálum. En mér finnst virkilega mikilvægt að við getum búið hvar sem við viljum á þessu landi án þess að sjálfsögð þjónusta og réttindi skerðast. Tækifærin þurfa líka að vera jöfn algjörlega óháð því hvar þú býrð á landinu, það er erfiðara fyrir fólk utan af landi að mennta sig, sækja þá vinnu sem þau myndu vilja vinna eða stunda íþróttir eða aðrar tómstundir, ég vil að því sé breytt. Svo eru það auðvitað þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu og nýja stjórnarskráin en ég vil að þau mál verði kláruð því þetta eru virkilega mikilvæg mál fyrir heildarhagsmuni Íslands og allra Íslendinga. 

Hvers vegna gekkst þú til liðs við XS?

Ég byrjaði í Samfylkingunni vorið 2016 þegar ég var 19 ára en þá skráði ég mig í Unga jafnaðarmenn. Þetta gerðist eiginlega bara óvart, mér fannst bara Ungir jafnaðarmenn hljóma eins og eitthvað fyrir mig en ég vissi ekki einu sinni á þessum tíma hvað jafnaðarmennska var. Ég man að ég skráði mig í flokkinn og sat svo í marga klukkutíma að gúggla hvað jafnaðarmennska eiginlega væri því enginn mátti vita að ég væri ekki með þetta allt á hreinu. Mér fannst þetta með jöfnuðinn bara hljóma vel. Svo því meira sem ég las og kynnti mér málið þá vissi ég alveg að þetta væri minn staður til að vera á. Ég man samt að eitt af því sem heillaði mig við UJ sérstaklega frekar en aðrar ungliðahreyfingar eða flokka var Evrópustefnan. En svo er þetta smá fyndið því að þegar ég skráði mig í UJ þá var ég svona 90% viss um að þetta væri ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, var samt ekki alveg 100%. Hélt smá að þetta væri bara sjálfstæð baráttuhreyfing fyrir jöfnuði og frelsi. Ég er mjög þakklát fortíðar mér fyrir að skrá mig svona „óvart“í Samfylkinguna því hér hef ég kynnst svo mörgum, lært af þeim og þroskast.

Siggeir Fannar Ævarsson

Hver yrðu þín helstu áherslumál á Alþingi?

Fullur aðskilnaður ríkis og kirkju, þjóðin njóti arðsins af náttúruauðlindum okkar og vistvænni samgöngur

Hvers vegna gekkst þú til liðs við XS?

Ég kom fyrst inn í sveitarstjórnarmálin í Grindavík 2018 því ég vildi leggja flokknum lið og því góða fólki sem þá var í framvarðasveitinni. Ég er mikill jafnaðarmaður og gat því auðvitað ekki skorast undan ábyrgðinni þegar kallið kom núna fyrir Alþingiskosningarnar.

Fríða Stefánsdóttir

Hver yrðu þín helstu áherslumál á Alþingi?

Þar sem ég er nú í 15. sæti er ég nú alveg örugglega ekki á leiðinni á Alþingi að þessu sinni, en þegar ég fer fram og kemst á þing að þá verða mín helstu áherslumál velferðarmál. Fyrst og fremst vil ég að við förum norrænu leiðina þegar kemur að menntakerfinu og að háskólanám sé öllum aðgengilegt og að námslán heyri sögunni til! Hvort sem við færum dönsku leiðina sem greiða námsmönnum námsstyrki eða norsku leiðina sem greiða meirihluta námslána til baka. Menntun á ekki að stuðla að því að einstaklingar skuldsetji sig strax eftir framhaldsskóla á þeim árum sem þeir eru að fara huga að íbúakaupum og jafnvel stofna fjölskyldu. Það þarf að gera heildræna stefnu um málefni aldraða, þar sem kemur fram uppbygging hjúkrunarheimila og dagdvalarýma í takt við íbúaþróun sveitarfélaga, ekki að stefnan sé að ef ráðherra er úr sveitarfélaginu að þá er uppbygging.

Það þarf að styðja við heilbrigðiskerfið okkar og það þarf aukið fjármagn en líka að kortleggja betur hvernig við erum að nýta fjármagnið, hvernig er skipuritið og hvernig er fjármagninu skipt.  Svo myndi ég framfylgja lögum um að allir íbúar eiga að geta sótt heilsugæslu í heimabyggð, en Suðurnesjabær, sveitarfélagið mitt og reyndar líka hennar Oddnýjar hefur til dæmis enga heilsugæslu, engin hjúkrunarrými og enga ríkisrekna þjónustu þó þar búi um 4000 manns. Síðan myndi ég auðvitað leggja áherslu á nýja stjórnarskrá og Evrópusambandið!

Hvers vegna gekkst þú til liðs við XS?

Ég gekk inn í flokkinn þegar ég tók þátt í að stofna ungt framboð í sveitarstjórnarkosningunum í Sandgerði undir merki Samfylkingarinnar. Í kjölfarið gekk ég í UJ og hlustaði á eina mögnuðustu pepp ræðu allra tíma frá Möggu Frímans. Hún horfði á mig og sagði að ég gæti allt og það væri undir mér komið að taka formannsstólinn undan gömlu körlunum, því enginn myndi gera það fyrir mig. Ég tók hana á orðinu og hef nú verið næstum átta ár í bæjarstjórn og er auðvitað líka formaður bæjarráðs.

Eggert Árason

Hver yrðu þín helstu áherslumál á Alþingi?

Mín helstu áherslumál eru í fyrsta lagi loftlagsmál og náttúruvernd. Langar einnig að nefna málefni flóttafólks, þróunarsamstarf og hið risastóra verkefni að efla heilbrigðiskerfið okkar.

En hvar á maður að byrja? Stangast þessir málaflokkar á eða er hægt að sækja fram á öllum vígstöðvum? Ég fyllist bjartsýni þegar ég les stefnuskrá Samfylkingarinnar og hvet áhugasama til að glugga í hana.

Með minn bakgrunn í lýðheilsufræðum, landvörslu sé ég sóknarfæri á sviði landverndar, landgræðslu og menntun ungs fólks. Sækjum fram í loftlagsmálum því það er málaflokkur sem snertir okkur öll.

Hvers vegna gekkst þú til liðs við XS?

Ég gekk til liðs við xS út af hreinni stemningu! Hef lengi haft áhuga af stjórnmálum en alltaf verið áhorfandi. Það er bylting í gangi! Það er gaman að fylgjast með mínum jafnöldrum og fyrirmyndum stíga fram og berjast fyrir réttlátara samfélagi – og ennþá skemmtilegra að ganga til liðs við þau og skipuleggja byltinguna. Dont panic – organise

Gunnar Karl

Hver yrðu þín helstu áherslumál á Alþingi?

Hætta að fjársvelta heilbrigðiskerfið og byggja það upp að félagslegri mynd, Nýja stjórnarskrá strax, klára viðræður við ESB og setja það fyrir dóm þjóðarinnar. Greiða götu óhagnaðardrifna leigufélaga.

Hvers vegna gekkst þú til liðs við XS?

Jöfnuður er ávallt í forgrunni hjá Samfylkingunni. Þar sem að hugsað er til allra samfélagshópa þegar ákveðin er stefna flokksins.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið