Synjunarvald forseta Íslands

Þessi klausa kann að virðast sannfærandi við fyrstu sýn. En þegar nánar er að gáð kemur í ljós að Vefþjóðviljinn tekur ekki afstöðu til mjög veigamikils atriðis í umfjöllun sinni, þ.e. að í athugasemdum við 26. gr. í greinargerð með því frumvarpi, sem varð að stjórnarskránni 1944, er beinlínis tekið fram að ákvörðun um synjun taki forseti „án þess að atbeini ráðherra þurfi að koma til“ (leturbreyting mín). Í þessum orðum kemur vilji stjórnarskrárgjafans skýrt fram. Ljóst er að ef túlka á 26. gr. stjórnarskrárinnar á annan veg en gert er í sjálfu stjórnarskrárfrumvarpinu þarf mjög sterk rök. Ég hef aldrei, fyrr eða síðar, séð slík rök. Nú er forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, nýkominn til Íslands úr opinberri heimsókn sinni til Mexíkó. Þetta er hins vegar ekki í samræmi við fyrri áætlanir þar sem honum hafði verið boðið að vera viðstaddur konunglegt brúðkaup í Danmörku, þ.e. þeirra Friðriks krónprins og hinnar áströlsku Mary Donaldson. Ekki hafa verið gefnar skýringar á því hvers vegna ekki á að þiggja boðið – en þetta brúðkaup telst að sjálfsögðu til stórviðburða í Danmörku sem eðlilegt þykir að þjóðhöfðingar vinaþjóða séu viðstaddir. Dani nokkur sagði mér meira að segja að launþegum væri jafnvel gefið frí í vinnunni af þessu tilefni hluta úr degi svo að þeir gætu staðið úti á götu og veifað danska fánanum. Þannig að við hljótum að spyrja okkur: Hvers vegna ætlar forseti Íslands að láta þennan stórviðburð – a.m.k. í augum dönsku þjóðarinnar – fram hjá sér fara?

Mér dettur aðeins eitt í hug, þ.e. fjölmiðlafrumvarpið. Þær raddir hafa heyrst að forseti Íslands eigi að synja um staðfestingu frumvarpsins og vísa því þannig til íslensku þjóðarinnar hvort það eigi að verða að lögum. Þetta væri einsdæmi í sögu íslenska lýðveldisins og eitthvað sem yrði skráð í sögubækurnar. Ýmsir hafa sagt að forseta Íslands væri óheimilt að synja um staðfestingu lagafrumvarps þrátt fyrir ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar sem veitir slíka heimild sé hún skýrð eftir orðanna hljóðan. Aðrir, þ. á m. málsmetandi menn eins og Sigurður Líndal, eru þessu ósammála og telja ekkert því til fyrirstöðu að forsetinn synji um staðfestingu lagafrumvarps. Ég er á því að þeir síðarnefndu hafi rétt fyrir sér og rökstuddi þá skoðun á þessu vefriti hinn 8. mars sl. Í ljósi þeirra sögulegu atburða, sem nú kunna að vera í vændum, hef ég ákveðið að birta þessa grein hér á vefritinu aftur:

Á Vefþjóðviljanum (www.andriki.is) birtist í dag grein þar sem gagnrýnd er skoðun Sigurðar Líndals, prófessors emerítus, á synjunarvaldi forseta Íslands. Sigurður er einn þeirra sem telja forseta geta synjað um staðfestingu laga án atbeina ráðherra með þeim afleiðingum að leggja ber lög undir þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 26. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Vefþjóðviljinn sér sig greinilega knúinn til að mótmæla þessu og bendir á 13. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt.

Um þetta segir hann orðrétt: „Dettur nú einhverjum í hug að forseti Íslands ákveði persónulega að skipta ráðuneytum, skipa menn í embætti, flytja embættismenn til, gera samninga við erlend ríki, leggja fram lagafrumvörp, rjúfa þing og falla frá saksókn? Æ nei, er það nú? En af hverju þurfa menn þá að vera með það á heilanum að inn á milli allra þessara „forseti lýðveldisins getur“- ákvæða, sé eitt ákvæðið þannig að þar sé forsetanum persónulega fært vald. Af hverju ekki að lesa 26. greinina með sama hætti og hinar, í samhengi við 1. málsgrein 13. greinar: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt“?“

Þessi klausa kann að virðast sannfærandi við fyrstu sýn. En þegar nánar er að gáð kemur í ljós að Vefþjóðviljinn tekur ekki afstöðu til mjög veigamikils atriðis í umfjöllun sinni, þ.e. að í athugasemdum við 26. gr. í greinargerð með því frumvarpi, sem varð að stjórnarskránni 1944, er beinlínis tekið fram að ákvörðun um synjun taki forseti „án þess að atbeini ráðherra þurfi að koma til“ (leturbreyting mín). Í þessum orðum kemur vilji stjórnarskrárgjafans skýrt fram. Ljóst er að ef túlka á 26. gr. stjórnarskrárinnar á annan veg en gert er í sjálfu stjórnarskrárfrumvarpinu þarf mjög sterk rök. Ég hef aldrei, fyrr eða síðar, séð slík rök.

Í þessu sambandi vil ég benda á að ef það ætti að vera undir ráðherra komið hvort forseti beitti synjunarvaldi sínu og legði þar með mál undir dóm kjósenda væri þetta synjunarvald allt að því marklaust. Það er svo, eins og flestir vita, að lagafrumvörpin koma mikið til úr ráðuneytunum og eru því á ábyrgð ráðherra. Að ráðherra taki sjálfur upp á því að láta forseta synja staðfestingar á frumvarpi, sem kemur úr hans eigin ráðuneyti, hljóta allir að geta verið sammála um að er fjarlægur möguleiki. Að hann taki upp á því að reyna að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnar að frumvörpum úr öðrum ráðuneytum verði synjað staðfestingar er líka mjög ósennilegt og gæti vart gerst nema uppi væri mikið ósætti innan ríkisstjórnar. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einmitt verið haft í huga þegar stjórnarskrárfrumvarpið var samið. Til að koma í veg fyrir misskilning hafi því verið talið rétt að taka það sérstaklega fram í frumvarpinu að forseti þyrfti ekki atbeina ráðherra til að beita synjunarvaldinu.

Að lokum vil ég minna á að forseti Íslands er þjóðkjörinn. Í því ljósi er undarlegt að til séu menn sem geta alls ekki hugsað sér að hann hafi nokkurt formlegt vald. Í löndum, þar sem konungar, drottningar eða keisarar eru höfuð þjóðarinnar, er slíkt viðhorf skiljanlegt enda samrýmist það ekki nútímalegum skoðunum í lýðræðisríkjum að menn fæðist til valda. En hér á landi á þetta viðhorf alls ekki við.

Þórður Sveinsson, lögfræðingur og ritstjóri Mír.is
– greinin birtist á vefriti Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, Mír.is, miðvikudaginn 12. maí.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand