Þessa dagana heyri ég marga tala um hið nýja Ísland, um að þörf sé á breytingum og að nauðsynlegt sé að byggja upp samfélagið á ný sem og umhverfi stjórnmálanna á Íslandi. Þessar raddir get ég ómögulega tekið undir því að mínu mati er allt í fínasta lagi. Það var kallað eftir endurnýjun innan stjórnmálaflokkanna fyrir Alþingiskosningarnar í apríl 2009 og var því kalli svarað að einhverju leyti hjá einhverjum flokkum. Þá hefur einnig mikil endurnýjun átt sér stað hjá flokkunum fyrir sveitastjórnarkosningarnar núna í maí. Svo ég spyr: Er það ekki meira en nóg að andlitin á listunum breytist? Hefur ekki sú hugmyndafræði og sú stjórn sem hefur verið við lýði reynst okkur öllum vel?
Við búum í lýðræðisríki sem kennir sig við jafnrétti og frelsi. Við búum í lýðræðisríki þar sem allir hafa jafnan rétt til þátttöku í stjórnmálum, jafnan rétt til þess að kjósa og vera kosinn. Það hallar ekki á konur í stjórnmálum eða á öðrum opinberum vettvangi. Konum er alls ekki mismunað þegar kemur að atvinnu eða launum. Það má segja að konur og karlar standi jafnfætis.
Allir hafa jafnan rétt til náms og öll börn hafa aðgang að frístundaprógrammi eftir skóla og fá alla þá aðstoð sem þau þurfa jafnt í kennslustofunni sem og utan hennar. Leikskólar eru vel mannaðir af starfsmönnum og börn fá sínar máltíðir í skólum og leikskólum en skipta ekki á milli sín ávöxtum.
Atvinnuleysi er í raun lítið um land allt. Ungt fólk sem kemur úr námi á auðvelt með að finna sér atvinnu og á auðvelt með að byrja að búa og stofna fjölskyldu. Menningin blómstrar og þeir sem ekki fara „grænu leiðina“ eru í miklum minnihluta.
Velferðin stendur sterkum fótum og góð þjónusta fyrir alla er tryggð. Innflytjendur eiga sterkan málsvara á pólitískum vettvangi og aðlagst vel íslensku samfélagi. Þeir hafa aðgang að íslenskukennslu sem kostar þá lítið sem ekkert, upplýsingagjöfin til þeirra er mikil og þeim skortir í raun lítið. Þeir hafa meira að segja allir aðgang að þeim bænahúsum sem fylgja þeirra trúarbrögðum.
Um er að ræða samfélag jafnréttis og réttlætis þar sem nærvera allra hagsmunahópa er til staðar, þar sem allir fá að njóta sín óháð kyni, litarhafti, aldri eða trú og ástin er frjáls. Einstaklingshyggjan, græðgin, valdafíknin og misréttið er fyrir löngu horfið.
En svo vakna ég og geri mér grein fyrir því að mig dreymdi draum, draum þar sem ég var stödd í Undralandi.
Raunveruleikinn blasir nú við mér og ég átta mig á því að ég bý ekki í Undralandi, landi þar sem allir hafa jöfn tækifæri og sveitafélögin tryggja bestu mögulegu þjónustu fyrir alla sína þegna. Ég átta mig á að þörf sé fyrir breytingar en breytingar gerast hægt. Einhvers staðar verður þó að byrja og ég ætla að byrja á því að tryggja félagshyggjustjórn í mínu sveitarfélagi, svo hagur alla verði fyrir brjósti næstu árin en ekki einungis hagur ákveðinna aðila. Það er góð byrjun á leiðinni til Undralands.
Með kveðju frá Reykjavík.