Sjálfstæði Skotlands; Natan vs. Þórarinn

Lota 1

Með sjálfstæði – Natan Kolbeinsson

Í fyrra fóru fram kosningar í Skotlandi þar sem kosið var um það hvort lýsa ætti yfir sjálfstæði frá Bretlandi. Því miður var það ekki vilji þjóðarinar að segja skilið við Bretland og stofna nýtt ríki byggt á velferð og jafnrétti.
Skotar eru öðruvísi en restinn af Bretlandi í því að þeirra sýn á samfélaginu er önnur en þeirra sem búa sunnan Hadríanusarmúrsins. Skotar vilja vera í Evrópusambandinu en ný ríkisstjórn íhaldsmanna ætlar að boða til kosninga um veru Bretlands í sambandinu þvert á vilja Skoska þingsins og 58 af 59 þingmönnum skota á Breska þinginu.

Kjarnorkuvopn er annað mál sem skilur á milli Breta og Skota. Í Skotlandi eru bækistöðvar Trident sem er kjarnorkuvopnakerfi Bretlands. Skotar sem lengi hafa verið á móti því að eyða milljöðrum punda í það hafa samt ekki fengið sínu fram og Skotland því ennþá miðstöð þessara gereyðingarvopna. Skotar hafa lengi talað fyrir því að nota peningana sem fara í Trident í það að styrkja stoðir velferðarkerfins sem eru eftir fjármálakreppuna og 5 ár af niðurskurði íhaldsmanna orðnar mjög veikar.

Peningarnir sem fara í Trident koma úr sameiginlegum sjóðum Breska ríkisins en í þá sjóði fara miklir peningar sem Skotar einir ættu að hafa rétt á og það eru peningarnir sem koma frá olíunni og gasinu á Norðursjó. Skoski þjóðarflokkurinn sem leitt hefur baráttu Skota fyrir sjálfstæði hafa talað fyrir því að þessir peningar hætti að fara beint í ríkissjóð og fari þess í stað í olíusjóð líkt og Norðmenn eru með fyrir sína olíu. Þennan sjóð á svo að nota til að auðvelda þeirri kynslóð sem nú er við völd og þeim komandi að minnka höggið sem kemur með því að skipta yfir í græna orkugjafa.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það þannig að Skotar eru með allt aðra sýn en restin af Bretum á það hvernig samfélagi þeir vilja búa og þessvegna eiga þeir að sjálfsögðu að vera sjálfstæðir.

Á móti sjálfstæði – Þórarinn Snorri Sigurgeirsson

Íslendingar eru enn í dag aldir upp við þá söguskoðun að allra helsta böl Íslands hafi verið erlend yfirráð og fyrst hafi okkar bælda þjóð byrjað að dafna þegar við loks urðum sjálfstæð. Hægt væri að hafa um það langt mál hve gölluð þessi söguskoðun er, en því sem hún hefur skilað er að fyrstu viðbrögð Íslendinga við spurningunni „Á Skotland að lýsa yfir sjálfstæði“ virðast vera yfirgnæfandi jákvæð. Hugrenningartengslin eru við sjálfstæði Íslands frá Danmörku og því þykir fátt sjálfsagðara en að Skotar fái frelsi undan breskum yfirráðum. En nær væri að bera saman sjálfstæðisspurningu Skotlands við sjálfstæðisspurningu Eyjafjarðar. Akureyringar eru enda dálítið öðruvísi, tilheyrðu áður öðru amti, tala með pínu skrítnum hreim og eru þarna norðan nokkurra heiða.

Sönnunarbyrðin liggur hjá þeim sem vilja skilja á milli. Skotland hefur verið í nánum pólitískum tengslum við England frá því að James VI af Skotlandi komst yfir ensku krúnuna 1603 og gerðist James I af Stóra-Bretlandi. Þessi tvö lönd hafa verið eitt og sama ríkið síðan 1707 og þó að Skotland njóti ákveðinnar sjálfstjórnar, þá eru ekki meiri viðbrigði að fara yfir ensku/skosku landamærin en að fara milli norð-austur og norð-vestur kjördæmis á Íslandi. Lýsi Skotland yfir sjálfstæði, og gangi inn í Evrópusambandið eins og meirihluti Skota hafa lýst sig fylgjandi, mun Schengen aðild að öllum líkindum fylgja. Það verða því nokkur viðbrigði, fyrir Bretann sem vann í Skotlandi og bjó í Northumberlandskíri í Englandi, að þurfa allt í einu að fara í gegnum vegabréfsskylt landamæraeftirlit þar sem áður var í mesta lagi „Welcome to Scotland“ skilti.

Þjóðríkjafyrirkomulagið er þar að auki hið mesta böl, sem byggir á lóðréttri samstöðu mismunandi stétta innan tilbúinnar einingar sem kallað er þjóðríki, í stað láréttrar samstöðu alþýðu þvert á þjóðir. Kapitalisminn hefur fyrir löngu tileinkað sér herkænsku Rómverja til forna og deilir og drottnar í nafni þjóðlegrar samstöðu.

Að kljúfa sjálfstætt Skotland frá Bretlandi er eins og Daftpunk án punk. Daft.

Lota 2

Með sjálfstæði – Natan Kolbeinsson

Skotland og England eiga sér langa sögu saman frá því að James VI af Skotlandi komst yfir ensku krúnuna 1603. Það er rétt að síðan James varð konungur Englands hefur saga þessa landa verið samofin. Það mun ekki breytast þó svo Skotland verði sjálfstætt heldur verður framtíð landanna náin, líkt og fortíð þeirra. Íbúarnir deila sömu eyju og þurfa þess vegna að eiga gott samstarf ef báðum ætlar að vegna vel.

Síðan James I komst til valda á Englandi og sameinaði krúnurnar hefur einn og sami maðurinn verið þjóðarleiðtogi Bretlands og það breytist ekki, því þó James I hafi orðið konungur Stóra Bretlands árið 1603 þá var það ekki fyrr en árið 1706 sem þessi tvö ríki urðu eitt undir sambandslögunum. Upp að þeim tíma höfðu þessi ríki sama kóng en sitt eigið þing sem setti sín eigin lög.

Hvað England vill gera við sín landamæri verða þau að eiga við sig en Schengen-aðildin sem kemur með veru Skota í ESB þýðir að auðveldara verður fyrir fólk hvaðan sem er úr Evrópu að flytja til Skotlands.

Samstaða alþýðu um allan heim nær þvert yfir landamæri og alþýða Skotlands styrkist við það eitt að fá sjálfstæði. Þar með styrkist alþýðan um allan heim því sjálfstætt Skotland yrði sigur alþýðunnar gegn kapítalisma.

Á móti sjálfstæði – Þórarinn Snorri Sigurgeirsson

Réttilega má finna nokkurn blæbrigðamun á almennri tilhneigingu skoðana Skota og Englendinga í ýmsum málum. Eðlilegt og sjálfsagt er að skiptar skoðanir séu innan þjóðríkis, og að þær fari að einhverju leyti eftir búsetu fólks. Þegar kemur að skoðanamismun á Englendingum og Skotum, er munurinn á milli þessara hópa þó mun minni en skoðanamismunurinn innan hvers hóps fyrir sig, enda má vel finna kjarnorkuvopnasinnaða Skota og Evrópusinnaða Englendinga.

Um áherslumun er að ræða í flestum málum en ekki grundvallarágreining. En jafnvel ef svo væri, þá hlýtur stofnun nýs þjóðríkis að vera æði drastísk lausn á því að leysa málefnaágreining (svona eins og að stinga upp á að Reykjavík ætti að lýsa yfir sjálfstæði til að leysa málefnaágreining milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar um Reykjavíkurflugvöll og vægi atkvæða). Slíkar lausnir virðast yfirdrifnar í öllum öðrum tilfellum en þar sem ágreiningur innan þjóðar á í hættu að sjóða upp úr og verða til skaða, eins og má eflaust segja að hafi verið tilfellið við stofnun Kosovo og Suður-Súdan. Skotar eru sem betur fer ekki komnir í vígahug gegn Englendingum ala Braveheart, heldur þvert á móti lifa í mesta friði og góðu samlífi við samborgara sína sunnan hinna ímynduðu landamæra. Ég veit ekki betur en að beggja megin sé fólk í mestu ró og spekt að fá sér te og skonsur og hylla drottninguna – og megi hún lengi lifa.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið