Össur opnaði nýja Pólitík.is

Ný og endurbætt Pólitík.is fór í loftið í gær á Café Culture í Alþjóðahúsinu. Eftir að fráfarandi ritstjóri Pólitíkur, Arndís Anna Gunnarsdóttir, hafði haldið stutta tölu tók Össur Skarphéðinsson við. Össur kom víða við í ræðu sinni sem hann endaði með því að opna hinn nýja vef formlega. Myndir frá gærkvöldinu er hægt sjá hér.
Í kvöld opnaði ég endurbætta útgáfu af vefsíðunni politik.is. Þetta er vettvangur ungra jafnaðarmanna á eternum. Athöfnin fór fram í Alþjóðahúsinu þar sem fullt hús af ungum félögum gerðu sér glaðan dag og fögnuðu þessum áfanga.

Vefurinn verður sífellt mikilvægari í pólitískri umræðu. Sífellt fleiri lesa vel skrifaðar heimasíður þar sem viðhorf eru sett fram af þrótti og ástríðu. Menn leiðast aldrei á hugsjónum. Ef þær eru settar fram af krafti og á góðu máli hrífa þær menn eða vekja til andsvara. Hvoru tveggja er gott. Hugsjónir þróast aldrei nema þeim sé andmælt. Rök vegast á og til verður hugmynd sem er betri en sú sem vakti umræðuna.

Sumt fólk nennir að lesa heimasíðuna mína af því ég legg innvolsið úr mér í sérhvern pistil sem ég skrifa. Svona líta nýrun og hjartað í mér út. Ef fólki líkar ekki við það, er það alla vega nokkru nær um hvað býr innan í þessum stjórnmálamanni. Á meðan menn geta vakið skoðun og andsvar er til nokkurs skrifað.

Ungir jafnaðarmenn hafa oft verið töluvert frjálslyndari í skoðunum en Samfylkingin. Flokkum hættir til að falla í far rétthugsunar þar sem einn sannleikur er leiddur til öndvegis. Lífið er ekki þannig. Stórisannleikur hefur aldrei verið til og hugsunin þarf hvatningu og rými til að þróast. Oft er það annmarki á stjórnmálaflokkum að kreddan festir rætur. Tryggingin gegn henni er frjáls rökræða og djörf hugsun. Stjórnmálin þjást ekki beinlínis af offramboði á þessu.

Ég hvatti unga jafnaðarmenn í kvöld til að vera gagnrýnir á okkur, sem erum atvinnustjórnmálamenn. Alltof margir stjórnmálamenn eru haldnir af kredduhugsun. Þeir fylgja flokkslínu, og nenna ekki að endurskoða sjálfa sig. Hugsanlega af því ef stjórnmálamenn gera það er þeim gjarnan brugðið um skort á staðfestu.

Þeir sem aldrei skipta um skoðun eru oft farsælustu stjórnmálamennirnir en ekki þeir bestu.

Ég vona að ungir jafnaðarmenn noti politik.is til að viðra allar þær skoðanir sem þeir telja þess virði að rökræða. Þá gildir einu hvort það er í þökk eða óþökk flokksforystu. Allar skoðanir verða stöðugt að vera undirorpnar gagnrýni og endurmati.

Ekkert er eins skaðlegt stjórnmálum og hugmyndir og forystumenn sem eru heilagir. Allt á að gagnrýna sem ekki á að verða stöðnun að bráð. Málefnaleg rökræða og gagnrýni er blóðið í öllum hreyfingum og ef það rennur ekki berst aldrei nýtt súrefni.

– Össur

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand