Mikilvægt að boltinn haldi áfram að rúlla

Byltingin byrjar ekki alltaf í reykfylltum bakherbergjum eins og ljóst varð í mars á þessu ári þegar Free the nipple dagurinn, eða dagur frelsunar geirvörtunnar var haldinn hátíðlegur í Verslunarskóla Íslands. Hin 16 ára gamla Adda Þóreyjar Smáradóttir birti mynd af sér á brjóstunum á samfélagsmiðlinum Twitter til þess að benda á að geirvörtur hennar hefðu ekki sömu stöðu og geirvörtur skólabræðra hennar, og að líklegt væri að hún yrði tekin á teppið fyrir að ganga um ber á ofan á göngum skólans. Ljót ummæli féllu í kjölfarið þar sem hún var vænt um athyglissýki. Við það kveiknaði neistinn og eldurinn breiddist hratt út. Áður en leið á löngu höfðu konur á öllum aldri, frá menntaskólastelpum til þingkvenna, birt mynd af brjóstum sínum á samfélagsmiðlunum til að sýna Öddu samstöðu og sýna fram á óréttlætið.

Inga Björk Bjarnadóttir hitti Öddu Þóreyjardóttur Smáradóttur á dögunum.

Adda Þ. Smáradóttir, forsprakkskona #freethenipple
Adda Þ. Smáradóttir, forsprakkskona #freethenipple

„Ég upplifi að fólk sé meðvitaðara um þessi vandamál í samfélaginu og að stelpur séu öruggari með líkama sína. Jafnvel þó þær séu ekki berbrjósta í sundi vita þær að þær hafa valið.“ segir Adda þegar hún er spurð um áhrif brjóstabyltingarinnar. Þá hafi boltinn farið að rúlla og fleiri Twitter hreyfingar farið af stað í kjölfarið. Hafa þar farið hæst #6dagsleikinn, þar sem fólk benti á kynbundið misrétti og ofbeldi og #hinseginleikinn þar sem fjallað var um misrétti sem hinsegin fólk verður fyrir. Það var því ljóst að brjóstabyltinginn opnaði flóðgátt.

Margar stelpur nýttu tækifærið og skiluðu skömminni eftir að hafa orðið fórnarlömb hefndarkláms og var gengisfellingu þess fagnað mjög á samskiptamiðlunum. Adda segist eiga þrjú uppáhalds tíst úr brjóstabyltingunni og eitt þeirra hafi verið frá stelpu sem setti inn gamla mynd af sér sem hafði áður verið lekið. Hin tvö tístin hafi verið frá Björt Ólafsdóttur, þingkonu og frá vinkonu Öddu sem hafði verið ósátt við brjóst sín eftir mikið þyngdartap og aukið sjálfstraust hafi fylgt myndbirtingunni. Margar stelpur hafi upplifað þessa tilfinningu: „Þær eru búnar að komast að því að líkamar okkar eru eins mismunandi og þeir eru margir.“

Brjóstabyltingin vakti þó ekki bara jákvæð viðbrögð. Biggi lögga sagði að stelpur myndu sjá eftir þessu, Guðfinna J. Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina kallaði bytinguna „hámark plebbismans“ og margir töluðu um athyglissýki stelpnanna. Adda segir mikilvægi brjóstabyltingarinnar kristallast í þessum viðhorfum: „Það er verið að klæða stelpur í bikiní frá því að þær eru 4 ára og þannig heldur þetta áfram. Þær eru ekki einu sinni komnar á kynþroskaskeið. Það er verið að segja við okkur: „Þið þurfið að vera svona, þið þurfið að hylja þennan part af líkamanum.“ Þessar yngri stelpur eiga líkama sinn alveg jafn mikið og allir aðrir og jafnvel þó þær séu undir lögaldri.“

Aðspurð segist Adda ekki hafa búist við svo miklum viðbrögðum. „Nei, mér datt það ekki í hug. Það kom mér líka á óvart að á sama tíma og ég var að opna augu annarra voru aðrir að opna augu mín. Við erum svo mörg og við erum svo mismunandi og allir koma með sitt sjónarmið. Mismunandi reynsla tengist saman og úr verður þessi fróðleiksbolti sem gerir það að verkum að þú getur frekar sett þig í spor annarra.“

Adda vonast til þess að vitunarvakningin haldi áfram að stuðla að umræðu um jafnréttismál. „Mér finnst mikilvægt að boltinn haldi áfram að rúlla og að þetta haldi áfram. Það eru mismunandi málefni sem fólk er að taka upp og grípa til róttækra aðgerða.“ Sjálf mun Adda leggja baráttunni lið í sumar en hún vinnur í jafningjafræðslu Hins hússins, tekur þátt í skipulagningu Druslugöngunnar og starfar sem sjálfboðaliði fyrir ungliðahreyfingu Amnesty International. Í haust heldur Adda til Spánar í skiptinám þar sem hún ætlar að skoða jafnréttismál þar: „Mig langar vera í rannsóknarvinnu á sama tíma og ég er að njóta þess að vera þar, að upplifa hvar jafnréttismálin standa þar miðað við okkur. Ég fæ góða innsýn í þetta með því að búa hjá spænskri fjölskyldu og sjá hvernig fjölskyldulífið er, en ekki bara hvernig maður horfir á þetta sem ferðamaður.“

 Mynd af brjóstastúlkum: Hildur Hjörvar

Mynd af Öddu: Kjartan Valgarðsson

Viðtal: Inga Björk Bjarnadóttir

 

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand