Kapítalisminn og velferðarríkið

Ný og endurbætt Pólitík.is var opnuð í gær. Núna um helgina verður hægt að nálgast síðuna hér, en eftir helgi á vefslóðunum www.politik.is og www.uj.is..

Stærsta breytingin við fall kommúnismans var að í kjölfarið var aðeins eitt stjórnkerfi við lýði, hið kapítalíska lýðræði.

Eins og sagan sýnir fylgir því yfirleitt mikil hætta þegar eitt kerfi ríkir. Sama hvert það er.

Ástæðan er einföld, þegar ekki er mótstaða við kerfið þá missir það sterkustu ástæðuna til þess að sýna sitt besta andlit. Meðan að ennþá stóð val í heiminum á milli kapitalisma og kommúnisma þá var það í hag kapítalismans að sýna það og sanna að það stjórnkerfi væri skilvirkara, kæmi betur fram við borgarana og væri réttlátara. Í stuttu máli – betra kerfi.

En nú þegar engin er hugmyndafræðileg mótstaða þá er ekkert að sanna. Það er ekkert val. Kerfið bara er.

Ef maður lítur á þetta útfrá hugmyndafræði ný-frjálshyggjunnar þá er þetta markaðsleg einokun (eða kannski frekar hugmyndafræðileg einokun). Það er engin samkeppni. Og lögmál hins svokallaða frjálsa markaðar er sú að einokun leiði af sér verri þjónustu.

Vissulega er ekki hægt að setja ríkið sem stofnun undir sama hatt og fyrirtæki á markaði, en engu að síður þá hefur skortur á hugmyndafræðilegri mótstöðu alvarleg áhrif á framgöngu kapitalismans.

Verkefni jafnaðarmannaflokkanna

Jafnaðarmannaflokkar gegna því mikilvægara hlutverki en nokkru sinni fyrr. Þeir hafa möguleika á því að verða þessi hugmyndafræðilega mótstaða.

En til þess að svo verði, verða þeir að koma sér upp hugmyndafræði sem skilur og meðtekur þær breytingar sem orðið hafa í heiminum undanfarin 15 ár. Og ekki nóg með það að þeir þurfi að meðtaka, melta og mynda sér skoðun á kapítalismanum, þeir verða að skilgreina þær hættur sem af honum stafa og mynda skjaldborg um þá hagsmuni sem kapítalisminn ógnar.

Við erum að horfa upp á hið kapítalíska kerfi Vesturlanda þróast með þeim hætti að sá siðspilltasti kemst lengst. Sá sem rekur flesta, kastar umhverfissjónarmiðum fyrir róða, sá sem byggir sprengjur og framleiðir svo steinsteypu til þess að byggja húsin sem sprengjurnar eyðilögðu er sá sem mest græðir. Og á hlutabréfamarkaðnum er það eini mælikvarðinn sem ríkir. Regluramminn sem halda á aftur af fyrirtækjum er svo ákvarðaður af stjórnamálamönnum sem oftar en ekki eiga hagsmuna að gæta hjá fyrirtækjunum (hvort sem um framlög eru að ræða, eða eins og á Íslandi þar sem ríkisstjórnarflokkarnir eru nátengdir eigendatengslum við stórfyrirtæki). Reglurammi þessi er ekki móralskur mælikvarði, heldur mætti kalla hann ystu mörk. Sé farið yfir þau mörk þá er möguleiki á því að fyrirtækinu sé refsað eftir ár á ár ofan af málaferlum.

Einnig er hér um ábyrgðarsviptingu að ræða. Ef fyrirtæki gerast brotleg við lög þá er hægt að refsa þeim með peningasektum. En varla kemur það til að stjórnendur fái fangelsisdóma, að stjórn fyrirtækja sé látin taka ábyrgð og hvað þá eigendurnir. Þannig að fyrirtæki getur í raun mælt út hvað líklegar sektir eru og ákvarðað svo hvort það sé fjárhagslega hagkvæmt að gerast brotlegt við lög. Þetta er eitt af því sem gerir óðakapítalisma hættulegan – það er engin ábyrgð.

Því mætti leiða að því rök að nútímalýðræði standi á krossgötum. Spurning sem blasir við er ekki hvort að við viljum kapítalisma heldur hvernig kapítalisma viljum við?

Viljum við ganga út frá þeirri hugmyndafræði að ríkið stuðli að því að lífsskilyrði séu með þeim hætti, svo vitnað sé í fræga félagsfræðikenningu, að allir gætu sætt sig við þá stöðu sem þeir myndu lenda í ef það væri lotterí sem réði því í hvar í samfélaginu maður myndi lenda í við fæðingu. Að kerfið sem í grunninn er þannig samansett að öllum séu tryggð grundvallarréttindi og á þeim grundvelli hefjist allir kapphlaupið. Vissulega hafi sumir forskot til að byrja með en ekki sé svo langt á milli að duglegustu hlauparar geti ekki náð þeim sem fremstir eru. Þetta er í raun það kerfi sem er við lýði á Norðurlöndunum.

Hinn möguleikinn er hinn svokallaði óhefti frjálsi markaður. Þessi hugmynd, sem nýfrjálshyggjumenn halda ekki vatni yfir, gengur út á það að samfélag sé í raun ekki til og þess í stað séu bara einstaklingar sem berjast innbyrðis. Að eins og dýrin í dýraríki þá lifi sumir og aðrir deyi, og það sé náttúrulegt að þeir sem sterkastir séu vinni – hinir deyi.

Til þess að boða þennan boðskap hefur nýfrjálshyggjan rænt hugtakinu ,,hinn frjálsi einstaklingur” og beintengt það samfélagi þar sem fyrirtæki (sem eru í raun einræðisleg stjórnkerfi) ráða mestu.

Hin erfiða barátta

Það er ekki einfalt að standa af sér endalausan áróður stórfyrirtækja, fjölmiðla (sem eru að mestu í eigu stórfyrirtækja eða eru háðir þeim með auglýsingatekjum), hagfræðinganna sem eru búnir að skilgreina fyrir okkur heim sem aðeins gengur út á krónur og aura. En að standast þennan áróður er akkúrat það sem nútíma jafnaðarmannaflokkur verður að gera til þess að geta staðið undir nafni.

Stór skref í þessa átt var stigið í Samfylkingunni með Framtíðarhópunum. Þar fór fram umræða um stefnur framtíðarinnar fyrir jafnaðarmannaflokk framtíðarinnar. Og þrátt fyrir tilraunir fjölmiðla, pólitískra andstæðinga, sumra innanflokksmanna og annarra sem hagsmuna hafa að gæta að þessar umræður verði aldrei að stefnu Samfylkingarinnar, þá er þetta einhver merkilegasta gjörð íslensks stjórnmálaflokks fyrr og síðar.

Hugmyndin að baki framtíðarhópunum var að ástunda alvöru lýðræði. Þar sem ákvarðanaferlið væri ekki eins og valdapíramiti miðalda (frá kóngi niður til lýðsins) heldur að snúa ákvarðanaferlinu við. Að ákvarðanir yrðu teknar á neðri stigum og myndi svo vinna sig upp stigann.

Þetta er náttúrulega byltingakennd hugmyndafræði og ekki þarf mjög skeptískan huga til þess að skilja hvað í þessari hugmynd skelfir valdhafa. Hugmyndafræði sem gengur út frá því að þeir missi völdin og almenningur (sem þeir eru í óða önn við að bjarga með stóriðjustefnunni) fái eitthvað um það að segja hvað þeir eru að gera. Þetta er hugmynd sem er þeim hættuleg. Hvernig er hægt að bjarga fólki ef það fær á tilfinninguna að það geti bjargað sér sjálft?

En þetta var hugmyndin sem Samfylkingin kom fram með undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ein valdamesta manneskja á landinu kom fram með hugmynd sem í raun snérist um að minnka völd hennar!

Það var þessi sama gjörð sem dró mig að Samfylkingunni. Ég hef trú á því að þar sé fólk sem trúir á lýðræði, sem er ekki tilbúið að fórna samfélaginu á altari kapítalismans, sem skilur að hagfræði er verkfæri fyrir stjórnmálamenn til þess að nota – ekki trúarbrögð sem ber að fylgja í sífellu. Ég hef trú á því að í Samfylkingunni sé fólk sem er tilbúið að standa í hugmyndafræðilegri mótstöðu við óðakapítalismann.

Það verður mikil og erfið barátta að koma þessari hugmyndafræði að, enda munu þeir sem að völdum sitja, hvort sem það er við stjórnvöl ríkisins, fyrirtækjanna, fjölmiðlanna eða hagsmunahópa gera allt hvað þeir geta til þess að standa í vegi fyrir henni.

En þetta er hugmyndafræði sem leiðtogar Samfylkingarinnar verða að berjast fyrir, enda er þarna um að ræða framtíð lýðræðisins.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand