Kapítalískur fótboltaleikur

Síðastliðinn föstudag var haldið málþing í Háskóla Íslands og var umræðuefnið Menning heyrnarlausra. Málþingið var haldið af nýstofnuðu Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, með Rannveigu Traustadóttur, forstöðumann setursins í fararbroddi, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnardaufra sem og Félagi heyrnarlausra.

Þann 11.apríl síðastliðinn skrifaði íhaldsmaðurinn Hjörtur Guðmundsson grein á hugsjónir.is sem ber heitið Sósíalískur fótboltaleikur. Upplýsti hann þar lesendur með einföldum hætti um sósíalismann og eðli hans, eða að minnsta kosti hvernig hann kemur honum fyrir sjónir. Þótt ég telji mig þekkja sósíalisma og jafnaðarstefnu ágætlega verð ég að viðurkenna að þessi grein Hjartar var mér fræðandi. Hún breytti ekki minni afstöðu til félagshyggjunnar en varpaði þó ljósi á hugsunarhátt hægrimanna og þeirra sýn á mína stefnu.

Hjörtur tók tvö dæmi úr hversdagslífinu til þess að lýsa hugmyndafræði sósíalisma, annað um fótboltaleik og hitt úr skólakerfinu. Varðandi fótboltaleikinn sagði hann: „Samkvæmt sósíalismanum er ekki nóg að sömu reglur gildi um bæði liðin sem taka þátt í leiknum, og að allir leikmennirnir hafi sömu réttindi, heldur er það svo að ef annað liðið hefur sigur t.d. 5-2 þá þarf að breyta stöðunni í 4-4 svo jöfnuður sé tryggður“ og dæminu úr skólakerfinu lýsti hann á þá leið: „Nemendur þreyta próf í skóla og hafa eins og gengur og gerist undirbúið sig misvel fyrir það. Einn nemandi fær átta fyrir sína frammistöðu á meðan annar fær tvo. Þetta er auðvitað engan veginn í anda sósíalismans og því fá báðir nemendurnir fimm svo allir séu nú örugglega jafnir.“ Bæði þessi dæmi eru að mínu mati afar langt frá því að vera lýsandi fyrir hugmyndafræði félagshyggjufólks.

Byrjum á fótboltanum. Knattspyrna er, eins og flestir vita, liðaíþrótt þar sem leikurinn hefst í stöðunni 0-0, og síðan eiga liðin að keppast um að skora mörk og verjast skotum andstæðinganna á eigin mörk. Til þess að vera góður í fótbolta þarf maður að vera líkamlega hraustur, útsjónarsamur, snöggur og vel æfður. Þannig er viðbúið að lið sem æfir stíft sé að öllu jöfnu betra en lið sem aldrei æfir. Dæmið verður þó að teljast afar fjarstæðukennt ef því er ætlað að vera táknmynd fyrir samfélagið.

Fótboltaleikur hefst ætíð í stöðunni 0-0 og það veltur alla jafna á þjálfun, hæfni og samhæfingu leikmanna hvort liðið sigrar. Þannig er hins vegar ekki samfélagið. Því miður hafa ekki allir sömu tækifæri í samfélaginu, en jöfn tækifæri allra er nokkuð sem við jafnaðarmenn teljum nauðsynlegt til þess að einstaklingur geti talist frjáls. Sumir eru ríkir og hafa samfara því mikil völd, á meðan aðrir eru fátækir og valdalausir. Það sér það hins vegar hver maður að slík misskipting er að minnsta kosti á lítinn hátt sambærileg fótboltaleik þar sem annað liðið hefur náð að skora mun fleiri mörk.

Sumt fólk fæðist inn í fátækar fjölskyldur og fær af þeim sökum færri tækifæri til þess að njóta velgengni í lífinu en aðrir, á meðan annað fólk fæðist með silfurskeið í munninum og lifir í vellystingum jafnvel án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því. Það þætti væntanlega fæstum sanngjarnt að etja saman fótboltaliði blindra leikmanna annars vegar og fótboltaliði sjáandi leikmanna hins vegar, og telja úrslit slíks leiks gefa sanngjarna mynd eða vera lýsandi fyrir mismikinn dugnað. Eða að láta fólk með reyrða fætur keppa við aðra í spretthlaupi og halda því fram að ef það getur ekki hlaupið eins hratt sé það einfaldlega af því að það hafi ekki lagt eins mikið á sig. Þetta er í raun ósköp svipað því og að byrja knattspyrnuleik í stöðunni 10-0 eða spretthlaup þar sem sumir þurfa að hlaupa 80 metra en aðrir 150 metra og láta tímatöku eina án tilliti til lengdar hlaupsins skera úr um sigurvegarann.

Á svipaðan hátt er hægt að hrekja dæmi Hjartar úr skólakerfinu. Fólk verður jú að sinna sínu námi af dugnaði ef það ætlar að fá góðar einkunnir, en ef taílenskur unglingur, sem hefur búið á Íslandi í hálft ár, fellur í samræmdu prófi í íslensku er varla hægt að skrifa það algerlega á leti hans eða fávísi eingöngu, er það? Mælikvarðinn er einfaldlega ekki einhlítur og það verður að taka tillit til þess hvaðan fólk kemur og í hvaða stöðu það er ef skera á úr um hvað er merki um dugnað og hvað ekki.

Þannig er líka samfélagið. Það er mikil einföldun að halda því fram að þeir sem eigi miklar eignir og hafi mikil völd hafi áskotnast það eingöngu vegna þess að þeir hafa lagt meira á sig en hinir og eigi það því betur skilið. Samfélagið er ekki keppni eða leikur sem hefst á stöðunni 0-0 þar sem allir eru í álíka góðu ástandi og hafa haft sömu tækifæri til þess að þjálfa sig. Við jafnaðarmenn viljum gefa öllum jöfn tækifæri og sanngjarna mælikvarða. Þegar slíkt hefur verið tryggt getur hver leikið eftir eigin höfði, en leikurinn er þá fyrst sanngjarn.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand