Þórólfur Árnason, annar borgarstjóri Reykjavíkur á þessu kjörtímabili sagði af sér, og e.t.v. ekki við öðru að búast. Þrátt fyrir ýmsar mótbárur af hans hálfu og vafasamar stuðningsyfirlýsingar þurfti einn vinsælasti borgarstjóri allra tíma að víkja úr sæti. En hversvegna? Var það vilji þjóðarinnar, borgarbúa eða óttasleginna sjálfstæðismanna? Þeir sem áfellast hann fyrir mistök olíufélaganna hljóta flestir að hafa eitthvað meira á móti hans veru í borgarstjórastól því „almenningur “ virðist vera á öðru máli. Hann þótti nefnilega góður borgarstjóri. Hver sem staða R-listans er í dag, verður að viðurkenna að hún hefur oft verið betri. Þrátt fyrir að enginn raunverulegur málefnaágreiningur sé uppi á teningnum, verður að segja að framganga Vinstri Grænna hefur verið heldur vafasöm upp á síðkastið. Vissulega var málstaður þeirra ekki óskiljanlegur en skyndiákvarðanir þeirra voru heldur betur ómálefnalegar. Reykjavíkurfélag VG átti ekki að ráðast svo harkalega að Þórólfi á frumstigi málsins, en eflaust verður þeim fljótt fyrirgefið. Það má hinsvegar alveg leiða hugann að því að eitthvað annað og meira en réttlætiskennd VG hafi ráðið ríkjum á fundi þeirra. Við skulum hins vegar vona það, enda væru aðrar tilætlanir afar óskynsamlegar og hér má geta í eyðurnar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem samstarfsflokkur Samfylkingarinnar í R-listanum hefur einhverra hluta vegna hafnað sitjandi borgarstjóra. Í síðasta skipti réð hræðsla af hálfu samstarfsflokkanna úrslitum, en í dag vitum ekki hvort menn eru hræddir eða samkvæmir sjálfum sér.
Góður borgarstjóri
Þórólfur var aldrei umdeildur í embætti og flestir gátu unað vel við hans embættissetu, burtséð frá því hvað D-listi hafði að segja um ráðninguna og undanfara hennar. Aðild hans að olíumálinu er fyrir löngu komin upp á yfirborðið og jafnvel eftir þá uppljóstrun hefur hann notið almenningshylli. Það er því næstum fáránlegt (og þó ekki) að hann hafi verið málaður sem aðalsökudólgur olíuhneykslisins og neyddur úr embætti. Það er mjög skýrt hverjir eiga hér alla sökina, og ekki allir þekkja nöfn þeirra og hvað þá í sjón. Þórólfur er hér í hlutverki fyrirmannsins; bæði er auðvelt að skella skuldinni á hann og veikja stöðu R-listans í þokkabót. Ef einhver er hér í vafa um að fjölmiðlar landsins þjóni fæstir hagsmunum vinstrimanna á Íslandi, þá er þetta endanleg staðfesting hins gagnstæða.
Það var rétt að gera. En þurfti hann þess?
En það að segja af sér er ekki ósjálfsagður hlutur. Satt best að segja var afsögn Þórólfs það eina rétta í ljósi atburða síðustu viku, þótt deila megi um hvort hann eigi það raunverulega skilið en það er að sjálfsögðu matsatriði. Hinsvegar segir enginn af sér á Íslandi. Það hefur einfaldlega ekki skapast hefð fyrir því nema það tengist kannski brennivíni eða laxveiðum. Þórólfur hefur verið bendlaður við hvorugt (ennþá), og því markar afsögn hans tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. Erlendis mega ráðherrar varla óska kvenkyns riturum sínum til hamingju með afmælið; þá hafa þeir gerst sekir um kynferðislega áreitni og beðnir um láta í tösku, slíkt viðgengst bara ekki.
Hinir raunverulegu glæpamenn
Ég er nú ekki að mælast til þess að embættiseiður ráðamanna verði fyrst og fremst látinn byggjast á hreinlífi. Satt best að segja er einkalíf ráðherra okkur óviðkomandi, nema kannski þeir séu að kaupa sjeníver fyrir bensínpeninginn. Aftur á móti ríkir mikil eftirlátsemi í íslenskri pólitík og sjaldan kemur það til að menn þurfi að segja af sér vegna stórvægilegra hliðarspora í embætti. Hver er búinn að gleyma einhliða yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar til stuðnings Íraksstríðsins? Framganga dóms- og fjármálaráðherra í ráðningu Hæstaréttardómara er einnig til háborinnar skammar og svo mætti lengi telja. Þetta eru engin áfengiskaup eða fjársvik, og varla pólitísk brot! Þau einkennast af spillingu og valdgræðgi sem fyrirfinnst víða í okkar stóra heimi, en þar eru flestir látnir svara til saka þegar þeir brjóta lög og almennar siðgæðisreglur (hverjar sem þær nú eru).
Þórólfur Árnason gerðist sekur um aðild að hneykslismáli og þurfti réttilega að segja af sér, enda mun hann í kjölfar þess rísa aftur sem stærri maður. Með því sýndi hann prýðilegt fordæmi sem verður án efa skref í átt, enda eigum við fyrir löngu að vera hætt að gefa endalausa sénsa.
En hver skyldi eftirmaðurinn verða? Ég leyfi mér að veðja á Dag. Hví? Jú, hann er einfaldlega sniðinn í starfið.