Gleym mér ei!

Það hefur verið mikið rætt um fjölmiðlafrumvarpið og væri það að bera í bakkafullan lækinn ef ég færi að tíunda það frekar hér. Það sem mér er hugleikið er þessi ótrúlegi brussugangur og tilfinningaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þjóðinni og sínum kjósendum. Æ ofan í æ horfum við á ríkisstjórnina taka ákvarðanir byggðar á hentisemi. Ákvarðanir sem eru teknar og röksemdafærslan hafin eftir á. Það er eiginlega erfitt að ætla að ræða um síðustu daga í henni pólitíkinni. Ýmist hlær maður að ósköpunum og getur bara hreinlega ekki trúað að sú orrahríð sem á sér nú stað í samfélaginu sé ekki liður í skemmtilegum spuna á listahátíð. En þegar maður áttar sig á því að leikverk í stjórn Davíðs Oddsonar er ekki á dagskrá listahátíðar og þetta sé í raun veruleiki okkar fallast manni hendur. Hvað í ósköpunum er hlaupið í flokksmenn Sjálfstæðisflokksins og hinn fylgitama Framsóknarflokk?

Ákvarðanir byggðar á hentisemi
Það hefur verið mikið rætt um fjölmiðlafrumvarpið og væri það að bera í bakkafullan lækinn ef ég færi að tíunda það frekar hér. Það sem mér er hugleikið er þessi ótrúlegi brussugangur og tilfinningaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þjóðinni og sínum kjósendum. Æ ofan í æ horfum við á ríkisstjórnina taka ákvarðanir byggðar á hentisemi. Ákvarðanir sem eru teknar og röksemdafærslan hafin eftir á.

Það er ekki flokksformaðurinn sem úthlutar notalegu stólunum í gluggaröðinni
Ég hef áður rætt um doða Íslendinga gagnvart því að berjast fyrir rétti sínum og mótmæla. Nota kraft fjöldans og sína það að við erum kjósendurnir sem þingmenn vinna fyrir. Kosningin sem slík er okkar vettvangur til að koma okkar sýn á framfæri, tryggja þingsetu fólks sem stendur við orð sín og hefur sannfæringu sem samrýmist okkar og henda þeim út sem sýna okkur lítilvirðingu og ganga gegn hugmyndum okkar. Kjósendur eru þeir einu sem geta tryggt þingmönnum brautargengi og geta kippt þeim útaf sínum vinnustað standi þeir sig ekki í því hlutverki sem þeir sögðust gegna við kosningar. Það er ekki hæstráðandi í flokknum sem tryggir flokksbræðrum sínum og þingmönnum áframhald á þingi. Það skilar því ákaflega litlu að selja hugsjón sína í þeim tilgangi að sleikja upp flokksformann eða apa eftir honum í ræðu og æði vegna þess að hann geti helst úthlutað þeim notalegan stól í gluggaröðinni á þingi. Nei, þangað kemstu ekki nema með hjálp kjósenda. Þetta er ekki lítið vald sem kosningarbært fólk hefur.

Geymt en ekki gleymt
Það hvarlar þó að manni að stjórnarliðar gleymi þessu valdi og treysti á það að minni Íslendinga nái ekki lengra aftur í tímann en svona einn mánuð, svona korter í kosningar. Þeir virðast telja að þeirra hrikalegu vinnubrögð og valdhroki gleymist í áranna rás því það sé nú svo voðalega langt í næstu kosningar. Rétt fyrir kosningar brosa þeir svo bljúgir framan í kjósendur og biðja um styrk til að halda vitleysunni áfram. Það er ástæða til að hvetja fólk til að minnast Íraksmálsins þar sem þjóðin varð bandamaður stríðs og hörmunga, útlendingafrumvarps sem hefti mannréttindi innflytjenda til Íslands og nú síðast ótrúlega illa unnis frumvarps um eignahald á fjölmiðlum. Þetta eru mál sem hafa vakið gríðaleg viðbrögð almennings enda stríða þau gegn grundvallar siðvitund kjósenda. Það er langt í næstu kosningar en minni okkar er gott og þessi mál eru geymd en ekki gleymd.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið