Er forsetinn valdalaus og óhæfur?

Í öllu þessu ferli hefur vilji almennings gleymst. Valdakjarni Sjálfstæðisflokksins er orðinn svo veruleikafirrtur að hann telur sig geta komið hverju sem er í framkvæmd. Jarðýtustjórnmál Sjálfstæðisflokksins eru orðin of einkennandi fyrir ríkisstjórnarsamstarfið. Það er kominn tími til að þessari valdníðslu verði hætt. Því hvet ég alla sem vettlingi geta valdið að sýna andúð sína á geðþóttaákvörðunum forsætisráðherra í verki. Við skulum ekki leyfa yfirvöldum að gleyma því hvaðan valdið kemur. Það eru ekki valdhafarnir sem kjósa okkur, það erum við sem kjósum þá! Stjórnmál síðustu tveggja vikna hafa verið hálf drusluleg á Íslandi. Dómsmálaráðherra okkar Íslendinga hefur náð nýjum hæðum í óskammfeilni sinni gagnvart þjóðinni og neitar að fara eftir tilmælum sér skynsamari manna, enda er hann einn þeirra allra staðföstustu í ríkisstjórn stríðsherranna á Íslandi. Á sama tíma var frumvarp samþykkt á alþingi til höfuðs útlendingum. Strax í kjölfarið setti forsætisráðherra vor enn eitt metið í geðvonsku sinni þegar hann setti fram svo óvandað fjölmiðlafrumvarp að önnur eins sóun á pappír hefur vart sést á hinu háa Alþingi.

Óásættanleg hegðun
Hegðun og framferði forsætisráðherrans í stóra fjölmiðlafrumvarpsmálinu hefur verið forsætisráðherraembættinu til háborinnar skammar, og ekki má gleyma formanni Framsóknarflokksins sem hefur vart undan að kvitta undir nýjar og nýjar útgáfur af frumvarpinu sem reynast svo sami óþverrinn í nýjum umbúðum. Davíð Oddson hefur ekki séð sér fært að hlýða á málflutning stjórnarandstöðunnar, þrátt fyrir að ítrekað hafi hann verið beðinn um að kíkja við og heyra hvað aðrir hafa um frumvarpið að segja. Þetta hefur hann þó nýtt sér í umræðunni því enn segist hann ekki hafa hitt einn einasta mann sem er mótfallinn frumvarpinu, en fréttir herma að hann sitji einn heima með slökkt á símanum og dregið fyrir gluggana.

Farsinn sem engan endi ætlar að taka
Í þessu máli hefur hver farsakenndi atburðurinn rekið annann og einn af hápunktunum var þegar Davíð lýsti því yfir að sjálfur forseti Íslands væri óhæfur til að neita að staðfest það að frumvarpið verði að lögum. Nú er það ekkert nýtt að forsætisráðherrann beri ekki hlýhug til forsetans, enda á hann víst harma að hefna síðan hann tapaði fyrir Ólafi Ragnari í badminton á unglingsaldri, en með þessum orðum sínum gerði hann atlögu að forsetaembættinu. Að ásaka forsetann um að láta annarlega hagsmuni ráða ákvörðunum sínum í embætti er það alvarlegt að slíkt skal fara fyrir dómsstóla, en ekki í reiðiskasti í fjölmiðlum, sé á annað borð einhver alvara á bak við slík gífuryrði af hálfu Davíðs.

Forsetinn hefur vald
Forseti lýðveldisins er kosinn lýðræðislegri kosningu af þjóðinni og hefur hlotið traust landsmanna til að sinna starfi sínu í þágu þjóðarinnar. Eitt það mikilvægasta vald sem forsetinn hefur er að geta skotið staðfestingu laga til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta getur hann og á að gera telji hann stjórnvöld vera að breyta í fullkomnu trássi við vilja þjóðarinnar. Þetta vald hefur hann algjörlega óháð því hversu háa einkunn forsætisráðherra fékk á lögfræðiprófi fyrir áratugum síðan. Ákveði forsetinn að sleppa því að skrifa undir það að fjölmiðlafrumvarpið verði að lögum, og það vona ég svo sannarlega að hann geri, á hann að fá að taka þá ákvörðun óáreittur.

Vér mótmælum allir!
Í öllu þessu ferli hefur vilji almennings gleymst. Valdakjarni Sjálfstæðisflokksins er orðinn svo veruleikafirrtur að hann telur sig geta komið hverju sem er í framkvæmd. Jarðýtustjórnmál Sjálfstæðisflokksins eru orðin of einkennandi fyrir ríkisstjórnarsamstarfið. Það er kominn tími til að þessari valdníðslu verði hætt. Því hvet ég alla sem vettlingi geta valdið að sýna andúð sína á geðþóttaákvörðunum forsætisráðherra í verki. Við skulum ekki leyfa yfirvöldum að gleyma því hvaðan valdið kemur. Það eru ekki valdhafarnir sem kjósa okkur, það erum við sem kjósum þá!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand