Fréttamolar

Eva Bjarnadóttir framkvæmdarstjóri ungra jafnaðarmanna rifjar upp fréttir síðastliðinnar viku.

Það hefur ekki verið nein lognmolla í pólitíkinni undanfarið þrátt fyrir að alþingismenn hafi ekki komið úr jólafríi fyrr en í dag. Ráðherrar stóðu í ströngu ýmist við að kynna nýjar fyrirætlanir eða að verja umdeildar stöðuveitingar. Alþýðusamband Íslands leitaði til ríkisstjórnarinnar um útfærslur á mögulegum aðgerðum stjórnvalda til að liðka fyrir gerð nýrra kjarasamninga. Þær viðræður fóru út um þúfur og samþykktu stjórnvöld ekki að færa lægst launuðum sérstakan persónuafslátt.   Aðildarfélög ASÍ munu því semja um kaup og kjör hvert um sig við Samtök atvinnulífsins.

Þá mótmælti ASÍ harðlega óhóflegum hækkunum fasteignaskatta í nokkrum sveitafélögum landsins, þar á meðal í Reykjavík. Það sé slæmt innlegg í kjaraviðræðurnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði á flokkstjórnarfundi að ekki engin fordæmi væru fyrir því að stjórnvöld komi að gerð kjarasamninga á þessu stigi málsins. Eðlilegra sé ríkið komi að því að ná sáttum um þau atriði sem standi út af borðinu eftir að samningaviðræður hafi farið fram.  Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, telur skynsamlegra að taka upp tveggja þrepa skattkerfi og hvetur hann til þess að tveggja þrepa tekjuskattur verði heldur skoðaður.

Aðgerðir í þágu neytenda

Viðskiptaráðherra kynnti niðurstöður starfshóps ráðneytis síns þess efnis að bankar og sparisjóðir heimil ekki fyrirtækjum eða öðrum kröfumhöfum að bæta fylgikröfum við aðalkröfu gagnvart neytendum. Þetta er liður í því loforði samfylkingarráðherrans, Björgvins G. Sigurðssonar, að bæta hag íslenskra neytenda. Þá verður innheimta FIT kostnaðar jafnframt takmörkuð og settar skýrar reglur um uppgreiðslu lána.

Miklar umræður um ráðningar ráðherra

Árni Mathiesen hefur staðið í ströngu við að verja nýlega ráðningu héraðsdómara. Flestir virðast sammála um að ráðning Þorsteins Davíðssonar í embætti dómara Héraðsdóms norðurlands eystra sé í meira lagi grunsamleg og mótmæltu Ungir jafnaðarmenn í ályktun pólitískri spillingu við ráðninguna.

Betur gekk hjá Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra, að færa rök fyrir ráðningu orkumálastjóra og ferðamálastjóra. Í viðtali við dagblaðið 24 stundir segist ráðherra hafa vitað að ráðningarnar yrðu umdeildar. Hann hafi þó ekki með góðri samvisku getað hafnað Guðna A. Jóhannessyni á forsendu kyns hans þar sem hann telji Guðna vera hæfastan umsækjenda. Ólöfu Ýr hafi hann ráðið í stöðu ferðamálastjóra   á grundvelli þess að hún væri hæfust umsækjenda til þess að halda utan um þær breytingar sem hann vilji gera í ferðamálageiranum.

Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir aðstoðarorkumálastjóri og einn umsækjenda um starf orkumálastjóra hyggst skjóta ákvörðun Össurar til umboðsmanns Alþingis.

Víða pottur brotinn í heilbrigðis- og félagsmálum

Tilkynningum til barnaverndaryfirvalda á Akureyri hefur fjölgað á síðastliðnu ári. Helmingur málanna fjallar um áhættuhegðun barna, neyslu áfengis, fíkniefna eða einhverskonar afbrota. Fjórðungur tilkynninga lýsi meintri vanrækslu á börnum og fjórðungur segir frá ofbeldi. Mest fjölgar tilkynningum   um ofbeldi á börnum, eða um 140 prósent og vega þar kynferðisafbrotamál þungt. Tæplega helmingur tilkyninga kemur frá lögreglu en grunnskólar, heilbrigðisstofnanir og foreldrar tilkynna um tíu prósent hver.   Ein skýring á fjölguninni er að lögregla og slysadeild framfylgi í auknum mæli tilkynningarskyldu sinni.

Rannsókn á líðan ungmenna af erlendum uppruna leiddi   á dögunum í ljós að líðan þeirra er verri heldur en íslenskra ungmenna. Þetta kom fram á ráðstefnu félags- og tryggingamálaráðuneytisins um málefni innflytjenda. Unglingar af erlendum uppruna reyndust þunglyndari og hafa verri sjálfsmynd, þau verða frekar fyrir einelti og eru ólíklegri til þess að stefna að stúdentsprófi.

Þá komst lektor í íþróttafræðum við Íþróttaskólann á Laugum að því að þrek íslenskra karla sé lítið og segist hann hafa áhyggjur af ástandi þeirra. Margir ungir karlar hreyfi sig minna heldur en aldraðir og hreyfihamlaðir. Alvarlegast er ástandi í aldurshópnum 18 – 24 ára, þeir karlar séu of þungir og þreklausir en eina ráðið sé að þeir borði hollari mat og hreyfi sig meira.

 

Evrópusambandið

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kannar nú grundvöll fyrir því að setja mengunartoll á innfluttar vörur frá ríkjum sem minnka ekki útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þá hefur ákvörðun um að auka framleiðslu og sölu á lífrænu eldsneyti verið frestað vegna háværra gagnrýnisradda um að slíkt myndi meðal annars hækka matvælaverð.

ESB hefur sett á   laggirnar nefnd sem gert er að kanna stöðu ríkisstyrktra fjölmiðla. Í austri er Króatía í vandræðum með að mæta inntökuskilyrðum ESB og hætta er á að innganga ríkisins frestist. Tyrklandsforseti hitti Angelu Merkel og Nicolas Sarkozy til þess að ræða aðild ríkisins að ESB. Nýkjörinn forseti Póllands frestaði ákvörðun um hvort Bandaríkjastjórn megi setja upp eldflaugakerfi í landinu. Pólverjar munu taka sér lengri umhugsunarfresta að sögn forsetans, Donalds Tusks.

Fleiri Evrópufréttir á euobserver.com

Norðurlönd

Mikil umræða hefur verið um öryggis- og varnarmál á Norðurlöndum. Jan-Erik Enestan framkvæmdastjóri   Norðurlandaráðs mælir með aðild Finna að Atlandshafsbandalaginu í blaðagrein og segir Finna eiga að taka mið af reynslu Danmerkur og Íslands af bandalaginu.

Utanríkisráðherra Svíþjóðar lagði nýlega til að norrænu ríkin tækju upp öryggis- og varnarsamstarf og tóku forseti og utanríkisráðberra Finnlands vel í slíkt samstarf.

Í Kristelig Dagblad skrifar Henrik Hoffmann-Hansen um það hversu ósamstíga Norðurlandaþjóðirnar séu innan ESB, þrátt fyrir að eiga margt sameiginlega. Þegkar til kastanna kemur fylgja norrænu ríkin eigin markmiðum og keppi oft innbyrðis. Lýsandi fyrir stöðuna sé að meginathugasemd dönsku ríkisstjórnarinnar við samnorrænt herlið með 2.800 hermönnum, sem eiga að sinna friðargæslu í Evrópu og Afríku ,sé að stjórnunarstöður muni að mestu verða á höndum annarra ríkja.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand