Hæ, ég heiti Elín Lára og ég hef verið kölluð grenjuskjóða, vælukjói og ég get sko VÆLT yfir öllu! Ég er kona, unglingur, femínisti og aktivisti, þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég VÆLI mikið!
Jæja! Hér er ég, með meira væl. Ef þú ert karlrembusvín sem nennir ekki að hlusta á meira væl, skrollaðu bara framhjá þessum pósti, ég er nú að minnsta kosti búin að vara þig við.
Ég ákvað að skrifa þennan pistil af því að ég er að verða svolítið leið á þessum vælukjóastimpli sem ég er endalaust að fá á mig. Þannig að núna hef ég ákveðið að taka þennan stimpil til mín og kalla mig STOLTAN vælukjóa!
Ég hef vælt svo rosalega mikið síðustu daga útaf þessari blessuðu dekkjaverkstæða auglýsingu. „Ja ég meina þau póstuðu sko líka svona mynd af karlmannslíkama, afhverju varstu ekki að væla þá?“
Í fyrsta lagi þá sá ég því miður ekki auglýsinguna með karlmanninum og auðvitað hefði ég látið í mér heyra hefði ég séð hana, en þessar tvær auglýsingar eru jú fáranlegar, þær hafa báðar svo sannarlega gæðastimpil klámvæðingunnar á sér. En afhverju þá að væla meira yfir því þegar þetta er gert við kvenmannslíkama?
Ef þið hafið eitthvað lært um klámvæðinguna og skaðleg áhrif hennar þá skiljiði hvað ég meina að það er hægt að réttlæta það að væla meira yfir hlutgervingu kvenmannslíkamans.
Ef þið hafið ekkert lært, leyfið mér þá að upplýsa ykkur smá um þetta tiltekna málefni:
– Klámvæðing er hugtak sem notað er til að lýsa því þegar klám og vísanir í myndmál, táknmyndir og orðfæri kláms eru notaðar í okkar daglega umhverfi. Klámvæðingin birtist víða til dæmis í auglýsingum, tónlistarmyndböndum, kvikmyndum og tísku. Þetta hefur leitt til þess að klámfengið efni hefur orðið sýnilegt og smeygt sér inn í daglegt líf. Smátt og smátt hefur þetta aukið umburðarlyndi almennings gagnvart slíku efni sem er orðið samþykkt og jafnvel dáð menningarlegt fyrirbæri.
– Hlutgerving er þegar líkami manneskju er hlutgerður. Til þess að vitna í dekkjaauglýsinguna þá er gert líkama konunnar að dekkjum, það er að segja kynæsandi dekkjum, til þess að auka sölu. Það er gert líkama konunnar að söluvöru, sem var einnig gert við karlmannslíkamann.
Jæja nú vitið þið allavega eitthvað um málefnið. Það sem ég er að ræða um hér er afhverju það sé verra að hlutgera kvenmanns- en karlmannslíkama. Ég er alls ekki að segja að það sé í lagi að hlutgera karlmannslíkamann, að mínu mati ætti þetta að vera bæði alveg jafn útdautt en ég sé það ekki vera að gerast í komandi framtíð (SAMT vonandi, verum jávæð!).
Það að vera kona þýðir að þú mætir hinum ótrúlegustu útlitskröfum á hverjum degi, allan daginn. Í tímaritum, auglýsingum, kvikmyndum, í öllum fjölmiðlum getur maður oftar en ekki spottað smá klámvæðingu og oft rosa mikla. Þessar útlitskröfur sem eru settar fyrir okkur auka vanlíðan, sérstaklega hjá ungum stelpum, því það getur enginn mætt þessum útlitskröfum. Það er ástæðan fyrir því að ég vil ekki mæta klámvæðingunni í Fréttablaðinu. Ég vil ekki sjá líkama kvenna vera gerða að söluvöru. Það ýtir undir hlutgervingu kvenna en ýtir einnig undir kynbundið ofbeldi.
HA?? Nei nú er ég að gera úlfalda úr mýflugu!!
Ja ég tel mig ekki vera að gera það því að með því að gera manneskju að hlut, á hverjum degi, allstaðar í öllum fjölmiðlum þá ertu að gera manneskjuna að einhverju sem hefur ekki tilfinningar, einhverju sem þú getur gert hvað sem er við, ég meina af því hún er bara einhver hlutur gerður fyrir mig, eitthvað sem ég get keypt, fyrir mig og gert hvað sem er við. Ja svona einsog við gerum við raunverulega hluti, en ekki eitthvað sem við eigum að gera við manneskjur. Það er verið að smeygja klámi inní okkar daglega líf, kláminu sem er skilgreint sem „efni sem sýnir kynlíf/kynfæri í tengslum við misnotkun eða niðurlægingu á einhvern hátt.“ Ég get ekki sagst hafa séð mikið af niðurlægingu og misnotkun á karlmanninum í klámi, þessvegna segi ég að klámvæðingin beinist oftast en ekki að kvenmanninum.
Fjölmiðlarnir og auglýsingabransinn eru í flestum tilfellum stjórnað af karlmönnum, fyrir karlmenn. Sama á við um klám. Klámvæðingin hefur nú þegar verið normalíseruð, þessvegna eru svo rosa margar konur sem eru að setja sig upp á móti „vælukjóunum þessum femínistum“, en það sem margir gera sér ekki grein fyrir eru þau raunverulegu áhrif sem klámvæðingin hefur í för með sér. Kynbundið ofbeldi er stórt vandamál í menningu okkar og ég get ekki trúað því að allir þeir sem kalla okkur femínistana vælukjóa fyrir því að tala um þessa auglýsingu styðja kynbundið ofbeldi.
Það þarf að upplýsa alla þá sem eru í auglýsingabransanum um raunverulegu áhrif klámvæðingunnar og hlutgervingu líkama, því ég trúi því heldur ekki heldur að þeir sem starfa þar séu styðjendur kynbundis ofbeldis.
Bkv. Hágæðavælukjói sem mun aldrei hætta að væla.
Elín Lára Baldursdóttir, fulltrúi í miðstjórn Ungra jafnaðarmanna.
Facebook-færsla birt á politik.is með góðfúslegu leyfi höfundar.