Betri strætó frekar en léttlestir

Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um góðar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og fylgist því spenntur með þeirri umræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu um hvaða leiðir koma til greina til að efla þær. Sumir hafa sagt: „Léttlestakerfi er lausnin“ en aðrir hafa talað fyrir því að styrkja strætisvagnakerfið. Það skal strax tekið fram að ég er fylgismaður þess síðara. Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um góðar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og fylgist því spenntur með þeirri umræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu um hvaða leiðir koma til greina til að efla þær. Sumir hafa sagt: „Léttlestakerfi er lausnin“ en aðrir hafa talað fyrir því að styrkja strætisvagnakerfið.

Skýr framtíðarsýn
Það skal strax tekið fram að ég er fylgismaður þess síðara: Að efla strætisvagnakerfið. Og ástæða þess er ekki sú að mig skorti framtíðarsýn eða að ég sé á móti betri almenningssamgöngum, heldur þvert á móti. Ég tel einfaldlega að efling strætisvagnakerfisins sé mun betri, hraðvirkari og hagkvæmari leið til að treysta almenningssamgöngur í sessi en uppbygging léttlestakerfis.

Takmarkaðir fjármunir fyrir hendi
Mörg rök má tína til fyrir því að taka uppbyggingu strætisvagnakerfisins fram yfir léttlestakerfið en þau helstu eru þessi:

– Stofn- og rekstrarkostnaður léttlestakerfisins yrði feikimikill. Sumir hafa nefnt að það eitt að byggja kerfið upp kosti 30-50 milljarða króna og tel ég það síst ofmetið. Þá á eftir að bæta rekstrarkostnaðinum við.
– Það er alveg ljóst að fjármunirnir sem við höfum úr að spila til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu eru takmarkaðir. Fjárfesting í léttlestakerfi myndi taka til sín langstærstan hluta þeirra og því koma bæði niður á umbótum í gatnakerfi og í strætisvagnakerfi.

Fáum meira fyrir peningana með því að efla strætó og byggja upp gatnakerfið
En þá vaknar spurningin: Hvað gætum við gert við peningana sem léttlestakerfið kostar, ef við settum þá í staðinn í strætisvagnakerfið og uppbyggingu stofnbrauta?

1. Fyrir einungis vextina af stofnkostnaðinum í léttlestakerfinu mætti að líkindum komast langt með eftirfarandi: Stórauka ferðatíðni strætisvagnanna frá því sem gert er ráð fyrir í nýju leiðarkerfi sem tekur gildi í ágúst, fjölga stofnleiðum og að auki stórlækka strætisvagnafargjöld. Jafnvel afnema þau ef vilji stæði til. Aftur á móti er alveg ljóst að ekki eru til peningar til að gera þetta allt ef léttlestakerfið verður ofan á.
2. Fyrir aðeins lítinn hluta af stofnkostnaðinum í léttlestakerfinu mætti stórbæta stofnbrautakerfið í Reykjavík. Svo tekið sé dæmi af tveimur stofnbrautum liggur fyrir samkvæmt >áfangaskýrslu Vegagerðarinnar, sem ég hvet alla til að kynna sér, að það kostar samtals um 9 milljarða króna að gera nær öll gatnamót á Miklubraut og Kringlumýrarbraut mislæg:

• Miklabraut/Langahlið
• Miklabraut/Kringlumýrarbraut
• Miklabraut/Háaleitisbraut
• Miklabraut/Grensásvegur
• Kringlumýrarbraut/Listabraut
• Kringlumýrarbraut/Háaleitisbraut
• Kringlumýrarbraut/Suðurlandsbraut
• Kringlumýrarbraut/Borgartún

Öll þessi gatnamót yrðu smekklega hönnuð og tiltölulega fyrirferðarlítil og gætu fallið vel að borgarlandslaginu.

Þessar framkvæmdir myndu leiða til þess að slysum fækkaði, mengun minnkaði, það drægi úr umferð um íbúðahverfi og ferðatími fólks styttist – umferðarhnútar á þessum slóðum heyrðu liklega sögunni til. Betrumbæturnar myndu ekki aðeins gagnast þeim sem ferðast um á einkabílum – heldur líka þeim sem ferðast með strætisvögnum, enda verða Miklabraut og Kringlumýrarbraut stofnleiðir strætisvagnanna eftir leiðakerfisbreytinguna í ágúst. Aftur á móti er alveg ljóst að ekki eru til peningar til að byggja bæði upp gott léttlestakerfi og gott stofnbrautakerfi í Reykjavík á sama tíma.

Uppbygging öflugs strætókerfis gæti tekið fáeina mánuði en léttlestakerfis áratugi
Lengi væri hægt að halda áfram að fjalla um þessi mál. Til dæmis væri hægt að geta þess að léttlestakerfið myndi aðeins liggja um helstu stofnbrautir – lestirnar gætu því aldrei komið í stað strætisvagnanna þrátt fyrir gríðarlegan stofnkostnað. Eins má tiltaka að líklega yrðu lestirnar aðeins nokkrum mínútum fljótari í förum en strætisvagnarnir – og þá er spurning hvort meiri ferðatíðni á greiðum stofnleiðum í strætisvagnakerfi gæti ekki gagnast nokkurn veginn eins vel fyrir farþegana; og miklu betur ef litið væri til fjárfestinganna að baki?

Þá mætti geta þess að gott léttlestakerfi yrði mörg ár, jafnvel áratugi í uppbyggingu, en hægt væri að koma öflugu strætisvagnakerfi á fót á nokkrum mánuðum ef vilji stæði til. Líka má nefna að auðvelt er að endurskipuleggja strætókerfið og færa leiðir í samræmi við þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu en það væri aftur á móti meiriháttar mál í léttlestakerfi. Svo má benda á að þótt fáeinar borgir af svipaðri stærð og höfuðborgarsvæðið kunni að hafa tekið upp léttlestir, þá er byggðin þar til muna þéttari en hér og því gerólíku saman að jafna.

Fjárfesting í greiðari götum og strætó gagnast öllum
Enn má nefna að hlutdeild almenningssamgangna í heildarumferð á höfuðborgarsvæðinu er aðeins 4-5%. Jafnvel þótt hlutur þeirra myndi vaxa upp í 6-10% með uppbyggingu léttlestakerfis myndu langflestir samt sem áður aka um á einkabílum og umferðarþunginn á götunum myndi samt sem áður halda áfram að vaxa enda er mikil fólksfjölgun á suðvesturhorninu. Fjárfestingin í léttlestakerfinu myndi því gagnast tiltölulega litlum hluta íbúa höfuðborgarsvæðisins en að sama skapi tefja fyrir uppbyggingu stofnbrautakerfisins. Með því að byggja samhliða upp öflugt strætisvagnakerfi og stofnbrautakerfi myndu sömu fjármunir, eða minni en færu í að gera léttlestakerfið, aftur á móti nýtast til að bæta samgöngur verulega fyrir alla – jafnt þá sem nota almenningssamgöngur og þá sem nota einkabílinn.

Leitum bestu og hagkvæmustu lausnarinnar
Aðalatriðið er þó að mínu mati það að menn leiti að hagkvæmri lausn sem tryggir sem bestar samgöngur fyrir alla borgarbúa næstu tvo til þrjá áratugina. Og það er mín bjargfasta trú að sú lausn felist tvímælalaust í samhliða eflingu strætós og uppbyggingu stofnbrauta. Hvað verður svo í fjarlægri framtíð – vandi er um slíkt að spá.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand