Barátta Kúrda í Sýrlandi – viðtal

[cmsms_row][cmsms_column data_width=“1/1″][cmsms_text]

„Mér líður eins og það sé enginn annar að tjá sig opinberlega um þetta mál,“ segir Lenya Rún Taha Karim um innrás Tyrkja í Norður-Sýrland sem hófst í október. „Mér fannst það bara vera skylda mín sem Kúrda sem býr á Íslandi, á ótrúlega friðsamlegu svæði, að fylgjast með þessu, tala opinberlega og fá fólk til að hlusta á mig.“

Þann 9. október síðastliðinn hóf tyrkneski herinn innrás í norðurhluta Sýrlands, þar sem kúrdísku hernaðarsamtökin SDF og YPG hafa komið sér upp sjálfsstjórnarsvæðinu Rojava. Innrásin var gerð í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti fullvissaði Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseta um að bandaríski herinn á svæðinu myndi ekki standa í vegi hins tyrkneska þrátt fyrir náið samstarf Bandaríkjamanna við kúrdísku hersveitirnar í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS. Ungir jafnaðarmenn fordæmdu innrásina og fálæti Bandaríkjanna gagnvart henni í yfirlýsingu þann 15. október.

Lenya er Íslendingur af kúrdískum uppruna sem nemur lögfræði við Háskóla Íslands og gegnir stöðu ritara hjá stúdentasamtökunum Röskvu. Hún á enn fjölskyldu í íraska hluta Kúrdistan sem hún heimsækir reglulega og bjó meðal annars hjá henni á árunum 2013 til 2016.

Kúrdar engu nær sjálfstæði

„Þegar ég sá þessa frétt fyrst fann ég hjartað mitt hreinlega brotna,“ segir Lenya. „Ég var heima hjá mér, nývöknuð, og þá sá ég bara að árásin ætti að hefjast eftir tvo daga og að Bandaríkin ætluðu ekki að mótmæla þessum aðgerðum. Þegar ég sagði mömmu minni frá þessu heyrði ég hversu vonsvikin hún var. Þetta kom henni þó ekkert á óvart, né heldur frændum mínum eða bræðrum eða öðrum sem ég talaði við. Við vitum ekki alveg hvernig við eigum að fást við þetta því þetta hefur gerst svo oft að það er eiginlega engin leið út úr þessu lengur.“

Lenya vísar í illa meðferð stjórnvalda á Kúrdum, og þá sér í lagi í Anfal-þjóðarmorðið sem framið var á stjórnartíð Saddams Hussein árin 1986 til ’89. Staða Kúrda í Írak, Sýrlandi og Tyrklandi hefur verið erfið síðustu öldina og hefur það stuðlað að viðleitni þjóðarinnar til að stefna að stofnun sjálfstæðs Kúrdistan. „Ég verð samt að segja að ég held að við séum engu nær sjálfstæði,“ segir Lenya. „Fyrir tveimur árum kusu um 90 til 95 prósent þjóðarinnar í íraska Kúrdistan að stofna sjálfstætt ríki, en það var ekkert tekið mark á þessu. Ég held að forseti kúrdíska sjálfstjórnarsvæðisins í Írak hafi efnt til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu bara til að halda friðinn, en það eru rosalega litlar líkur á að það gerist eitthvað þarna bráðlega. Þá þyrftum við Bandaríkin algjörlega í lið með okkur, og eftir þetta held ég að við séum aldrei að fara að treysta þeim aftur. Svo þyrfti Tyrkland að hætta að ofsækja okkur, en það er heldur ekki að fara að gerast á meðan við eigum þessa olíu sem er á landamærum Tyrklands og Sýrlands. Írak þyrfti líka að gefa okkur hundrað prósent sjálfstæði, og við erum með mjög mikla olíu þar líka, í íraska partinum af Kúrdistan. Ég veit ekki hvernig ætti að vinna úr þessu.“

Lenya segir að Kúrdar líti ekki til stjórnmálamannanna í íraska Kúrdistan til að gæta hagsmuna þeirra og berjast fyrir sjálfstæði.  Það séu mun heldur hernaðarhreyfingar á borð við Varnarsveitir Kúrda (YPG) og Lýðræðissveitir Sýrlands (SDF) sem njóti trausts og stuðnings. „Við erum með okkar eigin ríkisstjórn, forseta og forsætisráðherra, í íraska Kúrdistan en þau eru þannig séð ekki viljug til að gera neitt. Það er fólkið í Kúrdistan en ekki ríkisstjórnin sem vill stofna ríki. Pólitíkin í Kúrdistan hefur alltaf verið ótrúlega spillt. Við erum ekki búin að vera með starfandi ríkisstjórn síðan september 2018. Ég held að bráðum verði stórmótmæli. Ég hef heyrt vini mína tala um það að þeir séu að fara að mótmæla og ég held að þetta muni fara mjög illa.“

„Þeir hafa alltaf litið á okkur sem villimenn“
Meðlimir Varnarsveita Kúrda (YPG) í Sýrlandi. Upphaflega birt á Flickr-síðu Kurdishstruggle og merkt til endurnotkunar.
Meðlimir Varnarsveita Kúrda (YPG) í Sýrlandi.

Aðspurð hvort hún telji að yfirstandandi mótmæli í Írak og Líbanon gætu smitast til Kúrdistan segir Lenya að mótmæli Kúrda gætu orðið enn meiri. „ Ástandið í Bagdad er hræðiegt. Það er verið að skjóta niður saklausa borgara fyrir að krefjast grundvallarréttinda eins og rafmagns, vatns og launa. Við erum að mótmæla fyrir sjálfstæðu ríki, þannig að ég held að þetta gæti jafnvel orðið verra. Í Kúrdistan og um allan heim eru vikuleg mótmæli fyrir sjálfstæðu Rojava og þau hafa farið friðsamlega fram hingað til. En ég held að eftir svona ár kannski, þá munu áherslurnar breytast og fólkið örugglega fara að mótmæla fyrir sjálfstæðu ríki af fullum krafti.“

Lenya segir að enginn fótur sé fyrir ásökunum tyrkneskra stjórnvalda um að Kúrdar í Rojava séu hryðjuverkamenn eða vilji Tyrklandi illt. „Það er kolrangt. Allir Kúrdar vita að þetta er rangt. En Erdoğan er búinn að heilaþvo mjög marga Tyrki til þess að trúa þessu. Þessi árátta margra Tyrkja gegn Kúrdum hefur verið til staðar síðan í fyrri heimsstyrjöldinni eða jafnvel síðan Ottómanveldið var enn ríkjandi. Þeir hafa alltaf litið á okkur sem villimenn og viðurkenna ekki einu sinni að Kúrdar séu til. Þeir segja að Kúrdar séu af tyrkneskum uppruna, sem er alls ekki satt – við erum öll af assýrískum eða írönskum uppruna. Ég veit að það er kennt í tyrkneskum skólum að þegar Kúrdar, sem voru fjallaþjóð, hafi gengið í snjónum að vetri til hafi heyrst í fótataki þeirra „kúrd, kúrd, kúrd“, og að þaðan komi orðið Kúrdi. Þetta er algjör vitleysa. En olían á þessu svæði er auðvitað líka stór ástæða fyrir því að Tyrkir vilja ekki að við fáum sjálfstæði.“

Lenya telur að ásakanir um hryðjuverkatengsl Rojava séu fyrst og fremst tylliástæða Tyrkja fyrir landvinningum á kostnað Kúrda sem búa á sýrlensku yfirráðasvæði. Hún bendir meðal annars á það að Facebook-síða tengd Hulusi Akar, varnarmálaráðherra Tyrklands, hafi í október birt kort þar sem landamæri Tyrklands voru þanin langt inn í Sýrland og Írak. „Kúrdistan er þekkt fyrir að eiga góðar olíuauðlindir. Ef við værum með venjulegar auðlindir eins og Ísland, náttúrulegt vatn eða eitthvað, þá væri þetta ekki svona mikið mál. Svo er ég bara rosalega hrædd um að þeir nái að teygja sig lengra inn, inn í íraska partinn. Öll fjölskylda mín á heima þar og eins og er eru þau í svolítilli hættu, en ef þeir ná að teygja sig lengra út veit ég ekki hvað verður um þau.“

Áður hefur Lenya sakað Trump Bandaríkjaforseta um að gefa grænt ljós á þjóðarmorð með fálæti sínu gagnvart innrásaráætlun Erdoğans og telur hún framvindu atburða síðan innrásin byrjaði renna stoðum undir þann grun.„Ég hef séð mörg myndbönd frá átakasvæðunum, en málið er að það eru líka margir öfgaíslamskir vígahópar byrjaðir að berjast við hlið Tyrkja. Það er varla hægt að sjá muninn, hvaða árásir tyrkneski herinn er að gera og hvaða árásir öfgaíslamistar eru að gera. ISIS er líka farið að spretta aftur upp á svæðinu út af innrásinni. Tyrkland sprengdi til dæmis óvart upp fangelsi þar sem um 800 íslamistar voru í haldi og margir þeirra eru farnir að berjast á ný. Allt er þetta samt sem áður á ábyrgð tyrkneska hersins. Hann byrjaði þessi átök.“

Aðspurð hvaða viðbrögð hún myndi vilja sjá af hálfu Íslendinga og sambærilegra ríkja segir Lenya að hún myndi vilja að Alþingi viðurkenndi Kúrdistan sem sjálfstætt ríki. „Það yrði erfitt, ég veit það, en Ísland var eitt fyrsta ríkið sem viðurkenndi Palestínu sem sjálfstætt ríki. Af hverju geta Íslendingar ekki gert það sama með Kúrdistan?“

[/cmsms_text][/cmsms_column][/cmsms_row][cmsms_row data_padding_bottom=“50″ data_padding_top=“0″ data_overlay_opacity=“50″ data_color_overlay=“#000000″ data_bg_parallax_ratio=“0.5″ data_bg_size=“cover“ data_bg_attachment=“scroll“ data_bg_repeat=“no-repeat“ data_bg_position=“top center“ data_bg_color=“#ffffff“ data_color=“default“ data_padding_right=“3″ data_padding_left=“3″ data_width=“boxed“][cmsms_column data_width=“1/1″][cmsms_image align=“center“ animation_delay=“0″]https://politik.is/wp-content/themes/social-activity/framework/admin/inc/img/image.png[/cmsms_image][/cmsms_column][/cmsms_row]

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand