Barátta í 100 ár

,,Engu að síður er langt í að konur og menn sitji við sama borð hvað varðar fjölmarga hluti. Til að mynda er gríðarlegur launamunur kynjanna vandamál sem þarf að uppræta. Annað sem þarf ætíð að huga að er staða kvenna innan stjórnmálaflokkanna. Frá stofnun hefur Samfylkingin ætíð lagt mikla áherslu á réttindabaráttu kvenna og sýnt það, svo um munar, í verki.” Segir Magnús Már Guðmundsson formaður Ungra jafnaðarmanna í grein dagsins.

Í dag eru liðin 100 ár frá því að Kvenréttindafélag Íslands var stofnað á fundi á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Reykjavík og var hún kjörin fyrsti formaður félagsins. Í 2. gr. fyrstu laga félagsins segir að tilgangur þess sé ,,…að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir.” Frá stofnun félagins hefur margt breyst til batnaðar. Árið 1915 fengu konur kosningarétt og sjö árum síðar settist Ingibjörg H. Bjarnason fyrst kvenna á þing fyrir Kvennalista. Engu að síður er langt í að konur og menn sitji við sama borð hvað varðar fjölmarga hluti. Til að mynda er gríðarlegur launamunur kynjanna vandamál sem þarf að uppræta.

Annað sem þarf ætíð að huga að er staða kvenna innan stjórnmálaflokkanna. Frá stofnun hefur Samfylkingin ætíð lagt mikla áherslu á réttindabaráttu kvenna og sýnt það, svo um munar, í verki. Eftir Alþingiskosningarnar 1999 var þannig meirihluti þingmanna flokksins konur og í kosningunum fyrir fjórum árum voru níu Samfylkingarkonur kjörnar á þing og komu hlutfallslega langflestar konur inná þing það árið fyrir Samfylkinguna.

Þegar litið er til æðstu embætta flokksins sést vel hve mikil áhersla er lögð á jafnræði milli kynjanna. Talsmaður flokksins í kosningunum 1999 var kona. Af tveim einstaklingum sem hafa gegnt embætti formanns, hefur annar verið kona. Einungis einn af þremur varaformönnum flokksins hefur verið karlkyns og þrír af fjórum þingflokksformönnum hafa verið kvenkyns.

Á þessum tímamótum, sér í lagi þar sem Alþingiskosningar nálgast, er mjög svo viðeigandi að rifja upp þessar staðreyndir. Það virðist ætla að taka enn lengri tíma fyrir konur að njóti sjálfsagðra réttinda til jafns við karlmenn. Það er verkefni sem allir verða að taka þátt í hvar í flokki sem þeir standa.

Ég óska okkur öllum, og sér í lagi konum, til hamingju með daginn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand