Auðveldum ungu fólki að verða fullorðin

Nýlega fagnaði ríkisstjórnin eins árs afmæli 9,25% stýrivaxta. Ísland er með fimmtu hæstu stýrivexti í Evrópu og er aðeins með lægri vexti en einræðisríki og stríðshrjáð svæði. Fyrstu kaupendur þurfa nú að hafa yfir milljón kr. í mánaðarlaun til eiga fyrir afborgunum af húsnæðislánum. Til viðbótar við vonlausan húsnæðismarkað þurfa ungir foreldrar að þola  fæðingarorlofsgreiðslur sem hafa ekki fylgt launaþróun í landinu. Yfirvöld skortir kjark til aðgerða og Ungt jafnaðarfólk gerir kröfu um árangur. 

Fyrsta skrefið í því að geta lifað sjálfstæðu lífi og stofna fjölskyldu er að búa við húsnæðisöryggi. Húsnæðisöryggi eru mannréttindi, ekki forréttindi. Ungt jafnaðarfólk krefst eftirfarandi aðgerða í húsnæðismálum:

  • Stóraukning þarf að vera á uppbyggingu á íbúðum hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum og þurfa ríkið og sveitarfélög að liðka fyrir þá uppbyggingu með lóðaúthlutunum og skattaívilnunum. 
  • Við viljum að settar verði verulegar skattahækkanir á stórtæka íbúðaeigendur sem reka þær í atvinnurekstri.
  • Að stjórnvöld beiti sér af alvöru fyrir  lækkaðri vaxtabyrði íslensku krónunnar og komi ekki fram með erfðafræðikenningar í efnahagsmálum.

Að taka sér fæðingarorlof á Íslandi er forarpyttur skulda og óöryggis fyrir allt of mörg foreldri. 

Hámarksgreiðslur standa nú í 700 þúsund krónum, sem er of lágt og setur foreldri í erfiða stöðu. Vegna kjarasamninga munu hámarksgreiðslur hækka í áföngum upp í 900 þúsund krónur fyrir börn fædd árið 2026. Vandamálið er þó ekki einungis að hámarksgreiðslur séu of lágar í núverandi kerfi, heldur eru lágmarksgreiðslur skammarlegar og eru engan vegin nægar til þess að framfæra fólki. Sé litið til leikskólakerfisins þarf að tryggja því viðunandi fjármagn. Mikill viðvarandi mönnunarvandi er til staðar og tryggja þarf að leikskólar séu aðlaðandi vinnustaðir. Birtingarmynd vandans liggur hjá sveitarfélögunum – lausnin liggur hjá ríkinu. Ungt jafnaðarfólk leggur til eftirfarandi aðgerðir: 

  • Hækkun lágmarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði.
  • Fólk fái 100% launa sinna greiddar í fæðingarorlofi, með tilliti til þaks á hámarksgreiðslur.
  • Leikskólastiginu verði tryggt viðunandi fjármagn og að gripið verði til aðgerða sem tryggja viðunandi starfsaðstæður fyrir kennara, annað starfsfólk og börn. Þá verði rétturinn til leikskólavistar eftir fæðingarorlof lögfestur. 

Á landsþingi Ungs jafnaðarfólks í ár eru saman komnir fulltrúar fyrstu kynslóðinnar frá lokum seinni heimsstyrjaldar sem lifa við verri kjör en kynslóðirnar sem á undan komu. Við upplifum áhuga- og sinnuleysi frá stjórnvöldum til að leiðrétta þennan kjarahalla yngri kynslóða. 

Unga fólkið er framtíðin en hefur ekki tólin og tækifærin til að byggja upp sína eigin framtíð. 

Að geta eignast þak fyrir höfuð og alið upp börn á að vera í boði fyrir öll þau sem vilja, ekki bara lítinn, heppinn minnihluta. Fyrir velferð ungs fólks og velferð þjóðar krefjum við stjórnvöld um þessar aðgerðir. 

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið