Það hefur ekki farið framhjá neinum upp á síðkastið sú umfjöllun sem deilur verkalýðshreyfingarinnar og ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo hefur fengið í fjölmiðlum og í þingsal Alþingis. Við höfum verið fljót að dæma risann ítalska fyrir vonda framkomu gagnvart verkafólki og ekki farið að kjarasamningum um kjör og aðstæður sem skylt er að bjóða upp á nú í upphafi 21. aldar.
Það hefur ekki farið framhjá neinum upp á síðkastið sú umfjöllun sem deilur verkalýðshreyfingarinnar og ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo hefur fengið í fjölmiðlum og í þingsal Alþingis. Við höfum verið fljót að dæma risann ítalska fyrir vonda framkomu gagnvart verkafólki og ekki farið að kjarasamningum um kjör og aðstæður sem skylt er að bjóða upp á nú í upphafi 21. aldar.
Ég er sjálfur einn af þeim sem hef látið hjá líða að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að virkja Jöklu og Jökulsá. Ég telst til brott fluttra af Héraði en tel mig líka eiga hagsmuna að gæta, faðir minn á vatnsréttindi í einni af þverám Jökulsár í Fljótsdal. Ég er stuðningsmaður atvinnuuppbyggingar í fjórðungnum en ég efast um skynsemina í því að fara í svona stórar framkvæmdir í jafn litlu hagkerfi sem Mið-Austurland er.
Við höfum verið að fárast yfir því hvernig komið er fram við verkafólk við Kárahnjúka og erum einhver meira en viljug að skella skuldinni á ítalska fyrirtækið sem hefur m.a. verið sakað um mafíutengsl. Ég hef ekkert fyrir mér í því hvort svo sé eður ei og vill heldur ekki að það sé kjarninn í umræðunni. Það sem er kjarninn er nefnilega aðkoma Framsóknar og Landsvirkjunar í þessu máli.
Kanína dregin upp úr hatti rétt fyrir kosningar
Þegar komið var undir lok síðasta kjörtímabils var það orðið ljóst að aðal númer Framsóknar í atvinnu uppbyggingu í þáverandi heimakjördæmi tveggja ráðherra flokksins og verðandi heimakjördæmi iðnaðarráðherra væri í uppnámi. Upphaflegir fjárfestar að álbræðslunni í Reyðarfirði voru að bakka út og á einhvern undraverðan hátt fengust nýir amerískir fjárfestar til verksins án nokkurs fyrirvara. Öll aðkoma Framsóknar hefur miðast að því að tryggja þessa ofurfjárfestingu í Norðausturkjördæmi og er engu líkara en að Framsókn sé með þessu að breiða yfir það aðgerðar- og dugleysi sem flokkurinn hefur sýnt síðustu áratugi bæði í málefnum landbúnaðar og sjávarútvegs. Staðan var orðin svo slæm fyrir Framsókn að hún varð að finna stærstu kanínuna sem hægt væri að draga úr skyndilausnahatti tækifærisstjórnmála. Við sjáum í dag að ráðherra landbúnaðar fer enn undan í flæmingi og með útúrsnúningum í formi gamansemi þegar talið berst að sauðfjárbúskap. En það umkomuleysi í öðrum mikilvægasta málaflokkinum atvinnulega séð í Norðausturkjördæmi var fyrirgefið í kosningunum því kanínan sú sem dregin var upp fyrir kosningar varpaði skugga á allan annan vanda í fjórðungnum.
Þáttur Landsvirkjunar og ráðherra
Landsvirkjun hefur ekki komið fram á heiðarlegan máta í málefnum Kárahnjúkavirkjunar. Markaðshugsjónin sem rekur fyrirtækið áfram hefur blindað réttsýni stjórnenda þess. Svo mjög að þar eru menn svo fégráðugir að þeir taka þannig verktilboði í framkvæmdirnar að ekki verður með nokkru móti séð að upphæðir geti staðist. Strax í upphafi voru mönnum á Háaleitisbraut ljóst að launaliður kostnaðaráætlunar verktakans gat ekki staðist að óbreyttu og það kom á daginn að leiðrétta þyrfti samninginn strax til þess að Ítalirnir þyrftu ekki að fremja lögbrot til að uppfylla hann. Þá spyr ég af hverju var samið við aðila sem ekki bauð í verkið samkvæmt íslenskum lögum og hver eru réttindi þeirra verktaka sem buðu í verkið og fengu ekki?
Svo mjög hefur Landsvirkjun legið á í þessu máli að hún hefur þrýst verktakafyrirtækinu út í þá ómögulegu stöðu að vera með of margt starfsfólk í þeirri aðstöðu sem tilbúinn er á Fljótsdalsheiði. Við höfum verið að gagnrýna Ítalina í þessu efni en það er kominn tími til að við beinum sjónum okkar að ábyrgðarþætti iðnaðarráðherra og stjórnenda Landsvirkjunar, ég efast um að þau hafi hreina samvisku.