Ábyrgð Samfylkingarinnar

Samfylkingin þarf að axla ábyrgð. Það er ekki fyrr en að flokkurinn hefur gert það, sem hann endurheimtir aftur trúverðugleika sinn sem jafnaðarmannaflokkur.

Eins og allir vita sat Samfylkingin í ríkisstjórn þegar hrunið skall á. Þó að sú ríkisstjórn hefði ekki getað komið í veg fyrir hrunið, sem skrifast alfarið á sinnuleysi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, hefði hún getað dempað fallið og komið í veg fyrir að hrunið legðist svona þungt á almenning í landinu.

Ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, stóðu sig ekki. Þó að Björgvin G. sé eini ráðherra Samfylkingarinnar úr þeirri ríkisstjórn sem rannsóknarnefnd Alþingis sakar um vanrækslu í starfi, er það ekki bara hann sem ber ábyrgð fyrir Samfylkinguna. Allir ráðherrar í þeirri ríkisstjórn bera ábyrgð. Stærstu ábyrgð Samfylkingarinnar tel ég þó vera hjá Ingibjörgu Sólrúnu, sem rannsóknarnefndin telur ekki hafa vanrækt starf sitt vegna formsatriða. Einbeittur vilji hennar til að fela stöðuna fyrir Björgvini G. bankamálaráðherra, og ganga algerlega framhjá þáverandi varaformanni flokksins, Ágústi Ólafi, rímar ekki við stefnu flokksins um opin, öguð og skipulögð vinnubrögð.

Mér leikur hreinlega forvitni á að vita hvernig Björgvin G. leit á starf sitt sem viðskiptaráðherra. Hvað var maðurinn að gera í vinnunni? Það liggur ljóst fyrir að hann á ætti engin samskipti við stjórnendur Seðlabankans í heilt ár og hann átti fáa sem enga fundi með þeim sem voru í forsvari fyrir bankana. Viðskiptaráðherra (og bankamálaráðherra) sem vinnur vinnuna sína hlýtur að eiga að hafa hugmynd um hvernig bankarnir í landinu standa.

Aðrir ráðherrar Samfylkingarinnar í þessari umræddu ríkisstjórn falla í meginatriðum á sama atriði og Ingibjörg Sólrún. Að vinna saman að málefnum sem falin eru framkvæmdavaldinu, er lykill að farsælli stjórnun landsins. Það er ekki hægt að horfa framhjá því að allir þessir ráðherrar bera ábyrgð á því sem ríkisstjórnin gerði, þó að augljóslega beri forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra, auk oddvita hvors ríkisstjórnar flokksins fyrir sig, mestu ábyrgðina.

Samfylkingin verður að axla sína ábyrgð í hruninu, sem fólst í því að forystusveit flokksins brást stefnu flokksins. Samfylkingin getur ekki endurheimtað trúverðugleika sinn sem jafnaðarmannaflokkur Íslands, nema að þeir ráðherrar sem brugðust stefnum flokksins sýni ábyrgð og víki til hliðar.

Höfundur er ritstjóri Pólitik.is og varaformaður Hallveigar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand