1. maí ræða Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur

Á baráttudegi verkalýðsins er vel við hæfi að við jafnaðarmenn komum saman, fögnum unnum sigrum og lítum til verkefna framtíðarinnar. Ísland er eitt af ríkustu löndum heims, með frábært heilbrigðiskerfi, góð mennta- og velferðarkerfi, mikið landrými og gnótt auðlinda. Við eigum bjarta framtíð en til að treysta og byggja upp hið góða samfélag þarf skýra stefnu, vinnusemi og bjartsýni.

Kæru félagar – til hamingju með daginn.

Á baráttudegi verkalýðsins er vel við hæfi að við jafnaðarmenn komum saman, fögnum unnum sigrum og lítum til verkefna framtíðarinnar. Ísland er eitt af ríkustu löndum heims, með frábært heilbrigðiskerfi, góð mennta- og velferðarkerfi, mikið landrými og gnótt auðlinda. Við eigum bjarta framtíð en til að treysta og byggja upp hið góða samfélag þarf skýra stefnu, vinnusemi og bjartsýni.

Samfylkingin er í forystu í íslenskum stjórnmálum. Það kom í okkar hlut að setja samfélaginu ný markmið eftir hrun, moka flórinn og leggja á ráðin um mikilvægar umbætur í íslensku samfélagi.

Núverandi ríkisstjórn er kennd við norræna velferð. Það er ekki tilviljun eða innantómur orðaleppur. Á tímum hins dæmalausa efnahagsundurs, þegar Viðskiparáð Íslands skrifaði stefnu ríkisstjórna, voru norræn velferðarsamfélög ekki hátt skrifuð á Íslandi. Íslenska efnahagsundrið var yfir norrænan samanburð hafið. Ísland var best í heimi var okkur sagt. Árið 2007 myndi vara um alla framtíð! Þessi hrokafulla afstaða ýtti undir græðgi, taumleysi og agaleysi.

Dramb er falli næst. Íslenska efnahagsundrið var mesta bóluhagkerfi sem um getur í sögu nútíma hagkerfa. Fallið var því hátt og byrðar á íslenskan almenning gríðarlegar. Lífskjaraskerðing var óumflýjanleg.

Við þessar aðstæður þurfti nýjan vegvísi, nýtt markmið til að stefna að. Þetta markmið er norræn velferð. Hin norrænu samfélög byggja á jöfnuði, samábyrgð og lýðræði. Á Norðurlöndum fer saman öflugt atvinnulíf og sterkt og umfangsmikið ríkisvald. Verkalýðsfélög og flokkar jafnaðarmanna hafa mótað norræn samfélög með afgerandi hætti. Réttindi launafólks og öryggi þess við atvinnumissi, sjúkdóma og starfslok eru verkefni sem eru tekin alvarlega.

Ísland villtist af leið með alvarlegum afleiðingum. Markmið Samfylkingarinnar eru að lífskjör, menntun, velferðarþjónusta og atvinnutækifæri á Íslandi verði sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndum. Við viljum að fólk geti ræktað fjölskylduna, vináttuna og beri umhyggju fyrir hvert öðru. Það er ekki sjálfsagt mál að svo verði. Til þess að ná þessum markmiðum þurfa sjónarmið norrænu jafnaðarhugsjónarinnar að móta íslensk stjórnmál. Samfylkingunni hefur verið treyst fyrir þessu hlutverki og við bregðumst ekki því trausti. Bestu dæmi þess má finna í nýrri rannsókn sem sýnir að tekjulægri hópunum á Íslandi hefur verið hlíft en þeir tekjuhærri kallaðir til ábyrgðar. Hagvöxtur er með þeim hæsta í Evrópu sem dregið hefur úr atvinnuleysi ásamt auknum menntunarmöguleikum og vinnumarkaðsaðgerðum.

Að byggja upp norrænt velferðarsamfélag er ekki spretthlaup, það tekur lengri tíma en ein fjárlög eða eitt kjörtímabil. Norrænt velferðarsamfélag verður heldur ekki byggt með líðskrumi og skyndilausnum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við efnahagslegu þrotabúi. Með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nágrannaþjóða okkar tókst að forða þjóðinni frá greiðsluþroti. Þetta eru torfærur sem bragð er af skal ég segja ykkur. Tiltektin lýtur að ríkisfjármálum og innviðum sem eru feyskir eftir klíkustjórnun helmingaskiptaflokkanna. Það er nánast sama hvert litið er, kerfisbreytinga er þörf.

Það má líkja verkefnum dagsins við það að gera upp gamalt hús. Ef húsið er að hruni komið þá þarf mun róttækari aðgerðir en það að setja mottu við útidyrnar og dúka eldhúsborðið til að forða því frá glötun.  Það þarf að skipta um hluta af burðarvirkinu, einangra upp á nýtt, skipta út lögnum, smíða, spatsla, mála og tryggja að endurbæturnar séu gerðar í réttri röð. Ísland er eins og gamalt fallegt timburhús sem hefur verið illa við haldið. Við erum enn að finna leka sem við áttum ekki von á og burðarbita sem þarf treysta en framkvæmdir ganga þó vel. Og þrátt fyrir allt þá getur fjölskyldan komið sér fyrir og sér fram á náðuga daga þegar framkvæmdum lýkur. Hún þarf líka að sýna ráðdeildarsemi og neita sér um ýmislegt því hún situr uppi með skuldir fyrri eigenda. Það fé var ekki nýtt til að viðhalda húsinu og byggja upp sparnað, nei því miður, það tapaðist í spilavíti.

Ég er stolt af því að vera í Samfylkingunni og vinna í anda stefnu okkar um frelsi, jafnrétti og samábyrgð. Við finnum mörg fyrir þreytu og erum móð eftir undangengin ár. Verkefnin eru erfið, stjórnarandstaðan ósvífin og samstarf okkar í ríkisstjórn flókið. Við skulum því leyfa okkur að kasta mæðinni og finna að þrátt fyrir allt þá getum við vel haldið áfram og erindi okkar er mikilvægt. Við erum í langhlaupi og það er ekkert óeðlilegt að þreyta sæki á. Ég vil því minna á nokkur atrið sem hvetja okkur til dáða í framhaldinu og efla okkur þrótt.

Fyrst vil ég nefna húsnæðismál. Það krefst tíma og þolinmæði að breyta húsnæðiskerfinu, koma á auknu valfrelsi um leiguíbúðir og jafna stöðu kaupenda og leigjenda. Verðtrygging hefur hingað til verið ráðandi í húsnæðislánum, en fjölbreytni á lánamarkaði hefur aukist og mun aukast á næstu misserum. Offjárfesting í húsbyggingum hefur haft alvarlegar afleiðingar. En hér duga engar töfralausnir, svo mikið ætti ævintýrið með 90 – 100% lánin að kenna okkur. Mest þörf er á litlum leiguíbúðum og nú þegar er hafin uppbygging á þeim. Ríki, sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins og fleiri vinna að stefnumótun og aðgerðaáætlun sem lítur til allra þeirra fjölmörgu þátta sem hafa áhrif á aðgegni fólks að hentugu húsnæði, á réttum stað og á viðráðanlegu verði. Félagsleg samheldni og húsnæðisöryggi eru lykilorð í húsnæðisstefnu jafnaðarmanna.

Hér má einnig nefna breytingar á stjórnarskránni. Áratugum saman hefur endurskoðun stjórnarskrárinnar setið á hakanum og Alþingi mistekist að vinna þetta mikilvæga verk. Þessi saga er dapurleg og þinginu lítt til sóma. Ætlum við nú enn eina ferðina að gefast upp á miðri leið? Nei, Samfylkingin gefst ekki upp jafnvel þó að sérhagsmunahópar þyrli upp ryki til að dylja ótta sinn við það að almannahagsmunir verði settir í öndvegi. Við dustum það ryk af okkur og höldum áfram enda sýna kannanir að almenningur vill fá að taka afstöðu til nýrrar stjórnarskrár.

Í þriðja lagi má nefna aðild að Evrópusambandinu. Fátt er mikilvægara til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar til langs tíma en að sitja til borðs með öðrum þjóðum Evrópu. Smáþjóðum er mikilvægt að eiga í alþjóðlegu samstarfi á jafnréttisgrundvelli en jafnvel margfalt stærri þjóðir telja hagsmunum sínum best borgið í samstarfi innan Evrópusambandsins. Að standa ein utanvið slíkt samstarf er ekki góð framtíðarsýn fyrir landið. En samningaviðræður taka sinn tíma og því gerast margir óþolinmóðir. Andstæðingar aðildar vilja nú þjóðaratkvæði um hvort samningaviðræðum skuli fram haldið. Af hverju? Jú þeir hræðast að samningurinn verði okkur of hagfeldur og að almenningur velji Evrópu í stað íslenska klíkusamfélagsins. Við hræðumst ekki og höldum sókndjörf áfram í samningaviðræðunum.

Ótaldar eru kerfisbreytingar á sviði almannatrygginga og skattkerfisins, mannréttindaumbætur til handa fötluðu fólki, konum, samkynhneigðum og þeim sem brotið hefur verið á, stjórnkerfisumbætur, rammaáætlun um vernd og nýtingu orkuauðlinda, breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og stefna um grænt hagkerfi. Allar þessar breytingar stuðla að samfélagi sjálfbærrar þróunar þar sem kynslóðir samtímans deila kjörum með kynslóðum framtíðar þegar litið er til umhverfisþátta, félagslegs réttlætis og efnahagsmála. Jafnréttishugsjónin og ábyrgð fyrir komandi kynslóðum er í öndvegi. Samfylkingin er með sterkar femíniskar rætur og sýnir í verki og gefur fyrirheit um gott samfélag sem byggir á margbreytileika, gagnkvæmri virðingu og frelsi.

Góðir félagar.

Jóhanna Sigurðardóttir var valin til forystu af Samfylkingunni og kjósendum, enda leitun að stjórnmálamanni sem með verkum sínum hefur sýnt og sannað að hún berst fyrir almannahagsmunum, jöfnuði og fyrir þá sem síst geta varið hagsmuni sína. Þrátt fyrir áróður um annað hefur okkur tekist að verja kjör þeirra verst settu og koma á auknum jöfnuði í landinu. Það gerðist ekki af tilviljum heldur með skýrri pólitískri forgangsröðun undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Heldur fólk í fullri alvöru að ríkum pabbadrengjum hefði tekist að leiða þjóðina með farsælli hætti út úr ólgusjó hrunsins? Ég hef enga trú á því. Bretlandi er nú stjórnað af ríkum pabbadrengjum og hver er staðan þar? Hagvöxtur lætur á sér standa og Bretland er nú sokkið í nýja kreppu. Hugarfar ríku pabbadrengjanna kom best í ljós á dögunum þegar skattur á breska auðmenn var lækkaður og hækkaður í staðinn hjá lífeyrisþegum, enda hefur breska ríkið engin efni á skattalækkunum frekar en það íslenska. Við jafnaðarmenn höfnum slíkum leiðum og viljum endurreisn grundvallaða á jöfnuði og almennri velferð. Við höfum valið norrænu leiðina og tölfræðin staðfestir að gildin okkar ná til allra. Við erum að byggja samfélag samábyrgðar og umhyggju. Húsið okkar verður fagurrautt og dyr þess standa öllum opnar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
1. maí 2012
Iðnó – Reykjavík

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand