Eyðir heilu dögunum í ferðalög á milli aðildarfélaga -viðtal við Johönnu Uekermann

Johanna Uekermann er formaður ungra jafnaðarmanna í Þýskalandi. Sigrún Skaftadóttir, fyrrverandi alþjóðafulltrúi Ungra jafnaðarmanna og formaður Feminist Network innan ungra jafnaðarmanna í Evrópu, fékk að stela nokkrum mínútum úr lífi hennar og spyrja hana spjörunum úr.

Byrjum á byrjuninni: Hvaðan frá Þýskalandi ertu og gætirðu sagt okkur eitthvað um pólitískan bakgrunn þinn?
Ég ólst upp í Mitterfels, sem er smábær í Bæjaralandi. Íhaldsmenn drottna yfir svæðinu, en fjörskylda mín er kratafjölskylda til margra kynslóða, svo ég kynntist Sósíaldemókrataflokknum snemma í æsku. Stjórnmálaumræður voru algengar við eldhúsborðið. Sjálf varð ég virkur félagi í ungliðahreyfingunni 15 ára. Það sem skar úr um mína pólitísku afstöðu var að ég fann þörf fyrir að berjast gegn þeirri ákvörðun að koma á skólagjöldum og stytta skólavist að stúdentsprófi úr 13 í 12 ár.

Þú ert formaður Jusos, ungliðahreyfingar Sósíaldemókrataflokksins í Þýskalandi. Geturðu sagt okkur dálítið um leið þína að formennskunni?
Ég hef verið virk í pólitík frá táningsaldri. Fyrir utan ábyrgðarstörf mín fyrir ungliðahreyfinguna var ég einnig fulltrúi kvennahreyfingar í háskólanum. Árið 2011 varð ég varaformaður Jusos og helgaði störf mín ungmennamálefnum, verkalýðsmálum, menntun og starfsþjálfun sem og alþjóðastarfi. Sumarið 2013, þegar ég bauð mig einnig fram til þýska þingsins, ákvað ég að bjóða mig sömuleiðis fram til formennsku í Jusos. Ég hafði í farteskinu margar hugmyndir um málefnaþróun Jusos á komandi málþingum eins og umræðuna um hvað ,,góð vinstrihreyfing“ fæli í sér.

Hve margir félagar eru í Jusos?
Allir félagar í Sósíaldemókrataflokknum (SPD), sem yngri eru en 35 ára, eru sjálfvirkt félagar í Jusos. Jafnframt er mögulegt að vera bara félagi Jusos og ekki félagi SPD. Í heild eru í kringum 70 þúsund félagsmenn í Jusos.

Hvað eru stærstu viðfangsefnin í starfi þínu sem formaður?
Í byrjun er rétt að viðurkenna að ég á fullt í fangi með að uppfylla allar skyldur og ljúka öllum verkefnum sem starfið felur í sér. Ég fæ margar beiðnir og er oft boðið hingað og þangað þannig að í raun þyrfti ég á 30 stunda vinnudegi að halda.
Mig langar til að efla Jusos. Við förum fljótlega af stað með „framtíðarverkstæði“ (future workshops) og erum að þróa herferð næsta ár sem við nefnum „vinstralíf“. Við verðum að vera þyrnir í holdi SPD innan hins stóra meirihluta sem ríkir (SPD og íhaldsmenn) í Þýskalandi og verðum að leita breiðs umræðugrundvallar með Alþýðusambandi Þýskalands og ungmennahreyfingunni.

Gæturðu sagt okkur dálítið hver meginviðfangsefni þýskra stjórnmála eru um þessar mundir og innan Evrópusambandsins?
Sósíaldemókratar náðu mikilvægum áfanga í síðasta mánuði eftir að hafa barist um árabil við hlið verkalýðshreyfingarinnar fyrir lögbundnum lágmarkslaunum. Loksins tókst að koma þeim á. En með þeim er að sönnu fjöldi undanþáguákvæða þannig að ungt fólk undir 18 ára aldurs nýtur þeirra ekki að fullu og það finnst okkur ekki fullnægjandi. Annað málefni er að eftirlaunakerfið þýska var lagfært. Það felur í sér miklar samfélagsumbætur og félagslegt réttlæti. Nú er mikið rætt um utanríkisstefnu vegna ástandsins í Úkraínu og Írak. Með því á ákveða að afhenda Peschmerga í Írak vopn til að berjats gegn Isis blasir við okkur pólitísk umræða um „ábyrgð Þýskalands“ sem Jusos lítur gagnrýnum augum. Það vantar í raun aðgerðir Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins.

Þýskaland er stórt land. Ertu ekki sífellt á ferðinni að heimsækja hinar ýmsu deildir Jusos innan SPD?
Jú, ég ferðast mikið og eyði heilu dögunum í lestarferðir. En ég ég gleðst yfir hverju heimboði og hverju tækifæri til að sækja heim deildir Jusos. Þetta er ekki síst mikilvægt svo að tengslin haldist góð og að við vitum hvað brennur á ungliðum flokksins. Þar að auki sæki ég marga fundi í Berlín í framkvæmdanefnd flokksins og í ýmsum vinnuhópum.

Heldur þú að það væri hagkvæmt fyrir Ísland að ganga í ESB?
Ég er mikill stuðningsmaður Evrópusamrunans. Þvert á það sem sumir halda fram hefur Þýskaland haft mikinn hag og gerir enn af Evrópusamvinnunni. En Íslendingar verða að ákveða þetta sjálfir. Jusos-liðar gleðjast yfir hverju nýju Evrópubandalagslandi og hverju landi sem óskar inngöngu og á það einnig við um Tyrkland.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand