Ungt Jafnaðarfólk

Ungt jafnaðarfólk er nafn ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar og var hreyfingin stofnuð 11. mars 2000. Hreyfingin er opinn og lýðræðislegur vettvangur fyrir skapandi umræður og félagsstarf ungs jafnaðar- og félagshyggjufólks.

Hreyfingin hefur það markmið að efla nýsköpun og frumkvæði ungs jafnaðar- og félagshyggjufólks með því að stofna til víðtækra skoðanaskipta, umræðu og málefnavinnu, einkum í málaflokkum er varða ungt fólk og byggja á grunnhugmyndum jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti, og bræðralag.

Þá hefur hreyfingin það markmið að auka samskipti og samkennd ungs jafnaðar- og félagshyggjufólks með öflugu félagsstarfi og útgáfu.

Ungt jafnaðarfólk aðhyllast lýðræðislegt þjóðskipulag byggt á virkri þátttöku almennings, valddreifingu, fyllstu mannréttindum og félagslegu réttlæti.

Aðild að Ungu jafnaðarfólki geta öll félög og málefnahópar átt, svo framarlega sem meðlimir félaganna/hópanna sé fólk á aldrinum 16 til 35 ára sem vill vinna að framgangi félagshyggju og jafnaðarstefnu og gangast undir lög Ungra jafnaðarmanna.

Alls hafa verið stofnuð fimmtán aðildarfélög að Ungu jafnaðarfólki: í Reykjavík, í Kópavogi, í Hafnarfirði, í Mosfellsbæ, á Suðurnesjum, á Suðurlandi, í Hveragerði, á Akranesi, á Austurlandi, í Vestmannaeyjum, á Ísafirði, á Siglufirði, í Þingeyjarsýslum, í Garðarbæ og á Seltjarnarnesi. Æðsta vald samtakanna er í höndum landsfundar, en þess á milli hvílir ákvörðunarvald hjá miðstjórn og framkvæmdavald hreyfingarinnar hjá framkvæmdastjórn Ungs jafnaðarfólks.