Grunnstefna Ungs jafnaðarfólks

1.01. Verkalýðsmál

Ungir jafnaðarmenn styðja verkalýðsbaráttu launafólks og hvetja jafnt aðila vinnumarkaðarins sem og hið opinbera til að tryggja að laun haldi í við verðlagsþróun og stefnt sé að því að efla kaupmátt launafólks. Þá skal stuðlað að auknum réttindum fólks til sveigjanleika í starfi. Ungir jafnaðarmenn hafna með öllu jafnaðarkaupi.

1.02. Atvinna ungs fólks

Ungir jafnaðarmenn vilja að tekið sé sérstaklega á atvinnuleysi ungs fólks og þeirri félagslegu einangrun sem því fylgir. Atvinnuleysisbætur verða að duga fyrir mannsæmandi lífi. Bjóða þarf upp á hvetjandi verkefni fyrir atvinnulausa. Einnig þarf að fræða ungt fólk um kosti löglegrar atvinnu umfram bóta og svartrar vinnu.

1.03. Vinna við hæfi

Ungir jafnaðarmenn vilja að allir sem vilja og geta unnið eigi möguleika á atvinnu við hæfi.  Í því skyni þarf að huga sérstaklega að konum og innflytjendum..Þess vegna teljum við að skapa þurfi hvata til opinberra og einkarekinna  fyrirtækja um að bjóða upp á hlutastörf í auknum mæli. Sérstaklega er brýnt að jaðarsettum hópum á borð við innflytjendur, konur og fólk með fötlun eða örorku sé gerð raunveruleg þátttaka á vinnumarkaði möguleg. Þá þarf að taka föstum tökum það ofbeldi sem fatlað fólk verður fyrir á vinnumarkaði, sér í lagi fatlaðar konur.

1.04. Öflugra eftirlit með vinnumarkaði

Ungir jafnaðarmenn vilja stórefla Vinnueftirlitið og heimildir þess, gera stórfelld brot á kjarasamningum refsiverð, og hefja stórsókn gegn hvers kyns mansali. Bregðast þarf við svikum og félagslegu undirboði á íslenskum vinnumarkaði af miklum þunga. Dæmin sýna að íslenskum atvinnurekendum er ekki treystandi fyrir velferð allra sinna starfsmanna. Er því nauðsynlegt að ríkið grípi inn í með öflugra eftirliti og þyngri refsingum.

1.05. Launamunur kynjanna

Launamunur kynjanna er samfélagsmein sem skal útrýmt hið fyrsta. Hið opinbera skal ganga fram með góðu fordæmi og innleiða jafnlaunastefnu á öllum sviðum. Bæta þarf sérstaklega kjör hefðbundinna kvennastétta, s.s. kennara og hjúkrunarfræðinga.

1.06. Nýsköpun ofar stóriðju

Ungir jafnaðarmenn hafna stóriðjudekri og því einhæfa atvinnulífi sem því fylgir. Frekar ætti hið opinbera að vinna náið með aðilum vinnumarkaðarins til þess að þróa nýsköpunar- og vísindastarfsemi hér á landi. Gífurleg tækifæri felast í því að gera Ísland að þekkingar- og vísindasamfélagi.

1.07. Græn atvinnustefna

Ungir jafnaðarmenn vilja sjálfbæra atvinnustefnu á Íslandi, með áherslu á þróun vistvænna orkugjafa og ábyrgðarfullrar stefnu þegar kemur að ferðamanna- og iðnaðargeira. Allar ákvarðanir um atvinnustefnu landsins skulu teknar með tilliti til sjálfbærni- og umhverfissjónarmiða. Þá á að beita opinberum styrkjum og ívilnunum til að hvetja til grænnar atvinnustarfsemi.

1.08. Heildaruppstokkun í landbúnaðarkerfinu

Ungir jafnaðarmenn telja að nauðsynlegt sé að stokka verulega upp í landbúnaðarkerfinu. Núverandi kerfi gagnast hvorki bændum né neytendum, heldur fyrst og fremst vinnslustöðvum. Þá hvetur kvótakerfi í sauðfjár- og mjólkurbúskapi til framleiðslu langt um fram eftirspurn. Því vilja Ungir jafnaðarmenn afnema núverandi greiðslumarkskerfi og taka í stað upp styrki til bænda sem stunda landbúnað, óháð því hvað sé ræktað. Þá þarf að styrkja garðyrkju-, grænmetis-, og skógræktarbændur sérstaklega, m.t.t. umhverfissjónarmiða. Efla þarf nýsköpunarstyrki til landbúnaðarins, auðvelda framkvæmdir í átt að sjálfbærari og umhverfisvænni rekstri, og aðstoða bændur við að komast undan skuldaánauð. Þá þarf að afnema samkeppnisfriðhelgi MS og hvetja til virkrar samkeppni í íslenskum landbúnaði, svo að landbúnaðurinn sé í stakk búinn til að takast á við erlenda samkeppni.

1.09. Atvinna á landsbyggðinni

Ungir jafnaðarmenn vilja að horft sé til byggðarstjónarmiða við veitingu nýsköpunarstyrkja. Auðvelda þarf stofnun fyrirtækja út á landi. Störfum í landsbyggðunum fer fækkandi, og þarf að efla nýsköpun og stofnun smárra til meðalstórra fyrirtækja til að bregðast við því. Stóriðja og þungaframkvæmdir er ekki töfralausn til að bregðast við þessum vanda. Hann verður einungis leystur með sjálfbærri atvinnusköpun og fjárfestingu til langs tíma.

1.10.Þjóðareign auðlinda

A)Ungir jafnaðarmenn álíta auðlindir landsins auðlindir þjóðarinnar allrar. Ótækt er að arður af þessum auðlindum lendi í vösum fámennrar stéttar. Því er rétt að sá arður sem af nýtingu þeirra hlýst renni í ríkissjóð og sé nýttur í sameiginleg verkefni þjóðarinnar. Innheimta á fullt gjald fyrir fiskveiðiauðlindina. Sanngjarnasta leiðin til að ákveða fullt gjald er að bjóða aflaheimildir upp á markaði. Við viljum líta til reynslu Færeyinga þegar kemur að markaðsleið í sjávarútvegi.

2.01. Menntun í forgang

Ungir jafnaðarmenn vilja setja menntun í forgang og að stjórnvöld fjárfesti þannig í framtíðinni. Mikilvægt er að allir geti menntað sig, óháð fjárhag.Því vilja Ungir jafnaðarmenn að öll skólastigin séu gjaldfrjáls. Leggja þarf áherslu á nútímalega og aðgengilega menntun. Taka þarf aukið tillit til félagslegrar þátttöku og að sú mikilvæga óformlega menntun sem fram fer með þátttöku í lýðræðislegu starfi félagasamtaka og önnur sjálfboðavinna fái tilhlýðilega viðurkenningu í skólakerfinu.

2.02. Leikskóli fyrsta skólastigið

Leikskóli leggur grunn að framtíð barna, bæði í námi og félagslega. Öll börn eiga að hafa rétt á leikskólavist og skal leikskólinn fullnægja þörfum allra barna. Leikskólinn á að vera gjaldfrjáls.

2.03. Femínísk nálgun í kennslu

Ungir jafnaðarmenn vilja femíníska menntastefnu þar sem kynjafræði er fléttuð inn í námsefni á öllum skólastigum, þ.m.t. leikskólastigi. Einnig skal kynjafræði gerð að skyldufagi í öllu kennaranámi.

2.04. Fræðsla um sjálfbæra þróun

Ungir jafnaðarmenn vilja auka fræðslu um umhverfisvernd og sjálfbærni í skólakerfinu. Mannkynið stendur frammi fyrir gríðarlegum áskorunum í tengslum við mengun, hrun vistkerfa og hlýnun jarðar. Til þess að geta mætt þessum áskorunum verðum við að ala upp börn og ungmenni sem tileinka sér umhverfisvernd.

2.05. Námslánakerfið

Ungir jafnaðarmenn vilja að 50% námslána breytist í styrk að námi loknu. Þá þarf að hækka grunnframfærslu námslána og tryggja að hún haldi í við verðlag og raunhæf framfærsluviðmið námsmanna. Ungir jafnaðarmenn vilja hefja samtímagreiðslur námslána.

2.06. Afslættir til námsmanna

Ungir jafnaðarmenn vilja að námsmenn njóti vildarkjara til jafns við öryrkja og aldraða . Námsmenn búa oft við krappan kost og eiga að fá að njóta vildarkjara í samfélaginu til jafns við þessa hópa.

2.07. Faglegur stuðningur í skólakerfinu

Efla þarf faglegan stuðning á öllum stigum skólakerfisins. Á þetta við um sérkennslu, náms- og starfsráðgjöf og sálfræðiþjónustu.

2.08. Ungmennastarf

Efla þarf opinberan stuðning við starfsemi ungmennafélaga. Þá þarf ríkið að framfylgja framsækinni ungmennastefnu í samráði við ungmennafélög landsins. 

2.09. Fjármögnun opinberra háskóla

Ungir jafnaðarmenn telja að fjármögnun opinberra háskóla verði alltaf að vera tryggð áður en fjármagni er veitt til háskóla í einkarekstri. Fjármögnun opinberra háskóla á Íslandi á að vera til jafns við það sem gerist á Norðurlöndum.  

2.10. Opinn framhaldsskóli

Framhaldsskólinn á að vera gjaldfrjáls að öllu leyti og skal öllum nemendum boðið upp á námsgögn bæði á rafrænu, bóklegu formi, sem og öll gögn nauðsynleg til náms. Ungir jafnaðarmenn vilja að stytting framhaldsskólans sé dregin til baka og þess í stað unnið að því að auka fjölbreytni og faglegt starf skólanna og stuðla að meiri sveigjanleika og einstaklingsmiðuðu námi. Þess í stað má skoða að stytta grunnskólann.

2.11. Eflum iðn-, verk- og tungumálanám

Ungir jafnaðarmenn vilja efla stöðu tungumála-, iðn-, og verkmenntunar í framhaldsskólakerfinu. Lengi hefur verið við líði ákveðin elítismi í íslensku menntakerfi, þar sem bók- og raunvísindanám er skipar ofar öðrum námsleiðum. Fara þarf í markvisst átak til að efla stöðu þessara námsleiða. 

2.12. Norræn samvinna í menntun 

Ungir jafnaðarmenn vilja efla samvinnu við Norðurlöndin þegar kemur menntun og menningu. Leggja Ungir jafnaðarmenn til að í samstarfi við Norðurlandaráð verði komið á fót skiptinemaverkefni svo ungt fólk fái  tækifæri til þess að kynnast norrænni menningu á veigameiri hátt en ella. Þá styðja Ungir jafnaðarmenn hugmyndir, sem komið hafa fram á vettvangi Norðurlandaráðs ungmenna, um að ungu fólki verði gert auðveldara að sækja um nám á öllum Norðurlöndunum.

2.13. Frjálsir fjölmiðlar

Ungir jafnaðarmenn vilja að á Íslandi sé öflugur ríkisfjölmiðill, en að rými sé á fjölmiðlamarkaði fyrir frjálsa fjölmiðla. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í því að miðla frétta- og menningarefni um allt land, ásamt því að vera drifkraftur í íslenskri dagskrárgerð. Hins vegar er ljóst að bæta þurfi rekstrarstöðu frjálsra fjölmiðla.

2.14. Varðveitum íslenskuna

Ungir jafnaðarmenn vilja að gripið sé til aðgerða til að varðveita íslenskt mál. Afnema á virðisaukaskatt af bókaútgáfu og styrkja þýðingar á erlendum bókmenntaverkum. Styrkja á framleiðslu á íslensku barnaefni og tryggja að það sé aðgengilegt á efnisveitum.

2.15. Tungumálakennsla

Ungir jafnaðarmenn vilja endurskoða fyrirkomulag tungumálakennslu og gera hana fjölbreyttari. Leggja á áherslu á kennslu annarra tungumála en enskufyrr á skólagöngunni.

3.01. Alheimsfriður

Ungir jafnaðarmenn vilja alheimsfrið og að íslensk stjórnvöld gerist öflugri boðberar friðar, frelsis og jöfnuðar enda viljum við búa í opnum og frjálsum heimi. Ísland á að undirrita samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

3.02. Þróunarsamvinna

Ungir jafnaðarmenn vilja að Ísland veiti að lágmarki 0,7% af vergri landsframleiðslu árlega til þróunarmála, en það er lágmarksviðmið Þróunarmálastofnunar SÞ. Þetta viðmið standast þegar mörg lönd, svo sem Holland og Danmörk. Það getur Ísland einnig. Þar að auki skulu 0,3% af VLF renna í sérstakan neyðarsjóð til að bregðast við náttúruhamförum í þróunarlöndum og öðrum tímabundnum hamförum. Þá skal Ísland taka þá stefnu, í samstarfi við Evrópusambandið og önnur ríkiað fella í auknum mæli niður   tolla gagnvart þróunarríkjum, og vinni þannig gegn misskiptingu og valdaójafnvægi milli ríkja. Loks vilja Ungir jafnaðarmenn að sérþekking Íslands á sjávarútvegs- og orkumálum sé nýtt til að stuðla að sjálfbærri og umhverfisvænni þróun um allan heim.

3.03. Alþjóðleg réttindabarátta

Ungir jafnaðarmenn vilja að íslensk stjórnvöld berjist alþjóðlega fyrir réttindum kvenna, barna, hinsegin fólks og annarra jaðarhópa. Valdefling og menntun kvenna er lykilatriði í að tryggja sjálfbæra uppbyggingu þjóða og stuðla að friði í heiminum.

3.04. Sjálfstæð Palestína

Ungir jafnaðarmenn styðja sjálfstæðiskröfu Palestínu. Hún skal njóta fullveldis og vera jafningi annarra fullvalda ríkja. Þá mótmæla Ungir jafnaðarmenn harðlega síendurteknum mannréttindabrotum og stríðsglæpum Ísraelsstjórnar gegn Palestínumönnum. Þá vilja Ungir jafnaðarmenn að Ísland geri fríverslunarsamning við Palestínu, og styðji þannig við efnahag ríkis sem á allt of fáa bandamenn. Að auki vilja Ungir jafnaðarmenn að Ísland styrki uppbyggingar- og þróunarverkefni í Palestínu.

3.05. Klára aðildarviðræður við ESB og kjósa um aðild

Ungir jafnaðarmenn telja hagsmunum Íslands betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess. Ungir jafnaðarmenn vilja kanna til hlítar kosti og galla þess að ganga í Evrópusambandið og verður það einungis gert með því að fara í gegnum aðildarviðræður. Þegar fullgerður samningur liggur fyrir verður hægt að taka upplýsta umræðu um inngöngu Íslands í ESB. Í kjölfarið skal þjóðin fá að kjósa um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. EES- samningurinn hefur fært Íslendingum mælanlega hagsæld og ómælanleg menningarleg verðmæti. Ungir jafnaðarmenn vilja að Ísland gangi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og að þjóðin fái að þeim loknum að taka afstöðu til fullrar þátttöku í sambandinu, þar sem Íslendingar njóta ekki einungis hagsældar samstarfsins, heldur geti jafnframt haft áhrif á framvindu þess. Ungir jafnaðarmenn vilja búa í Evrópu byggðri á félagslegu réttlæti og jöfnuði.

3.06. Samábyrgð í flóttamannamálum 

Ungir jafnaðarmenn telja að í alþjóðasamstarfi, og þá sérstaklega í Evrópusamstarfi, eigi Ísland að beita sér af fullum krafti fyrir aukinni samábyrgð og mannúð í flóttamannamálum. Sameiginlegt átak allra ríkja Evrópu þarf til þess að taka með sem bestum hætti við fólki á flótta. Ísland á vera ötull talsmaður mannúðar á þessu sviði og beita sínum áhrifum til að gera flóttamannastefnu Evrópusambandsins ábyrgari og mannúðlegri. Endurskoða þarf Dyflinnarreglugerðina á vettvangi Evrópusambandsins. 

3.07. Græn nálgun á málefni norðurslóða

Ungum jafnaðarmönnum er umhugað um náttúru norðurheimskautsins. Við viljum að Ísland beiti sér fyrir verndun náttúru norðurslóða í stað þess að taka þátt í kapphlaupi um þær auðlindir sem kunna að leynast norðan heimskautsbaugs. Blátt bann á að vera við vinnslu jarðefnaeldsneytis og úrans á Norðurslóðum og Ísland á að beita sér fyrir því á heimsvísu. Þá á öll notkun svartolíu í skipum að vera bönnuð í efnahagslögsögu Íslands.

3.08. Óhófleg notkun sýklalyfja

Ungir jafnaðarmenn vilja að Ísland beiti sér gegn almennri óhóflegri notkun sýklalyfja, sérstaklega í landbúnaði. Óhófleg notkunsýklalyfja í landbúnaði veldur  alvarlegum heilsufarsvandamálum sem allri heimsbyggðinni stafar veruleg hætta af. 

3.09. Blátt bann við hvalveiðum

Ungir jafnaðarmenn vilja banna hvalveiðar við Íslands strendur. Hvalveiðar skaða orðspor Íslands út á við og geta skaðað samskipti Íslands við aðrar þjóðir. Þær geta einnig skaðað viðskiptahagsmuni íslenskra útflutningsfyrirtækja erlendis vegna þess hversu siðferðislega vafasamar þær eru. 

3.10. Opin landamæri

Ungir jafnaðarmenn hafna með öllu því að landamæri séu lokuð. Sjá Ungir jafnaðarmenn lokuð landamæri sem tæki til kúgunar minnihluta hópa og lægri stétta samfélagsins. Vilja Ungir jafnaðarmenn sjá ríkis heims opna landamæri sín með því að tryggja frjálst flæði fólks um heim allan.

4.01. Almenningssamgöngur

Ungir jafnaðarmenn vilja skilvirkar almenningssamgöngur sem eru aðgengilegar öllum, óháð fjárhag. Ungir jafnaðarmenn styðja uppbyggingu hágæða almenningssamgöngukerfis – Borgarlínu, og að ríkið fjármagni hana að hluta. Á meðan beðið er eftir Borgarlínu þarf að auka tíðni á núverandi strætókerfi og fjölga forgangsreinum svo strætó komist leiðar sinnar óháð umferð. Bjóða skal upp á næturakstur strætó. Almenningssamgöngur eiga að vera öllum aðgengilegar, líka fólki með skerta hreyfigetu og fólki sem styðst við hjálpartæki eins og hjólastóla.

4.02. Sveitarstjórnamál

Ungir jafnaðarmenn telja brýnt að efla veg og vegferð landsbyggðarinnar þannig að allir landsmenn sitji við sama borð óháð búsetu þegar kemur að grunnþjónustu og kostnaði sem af henni hlýst. Ríkið skal tryggja sveitarfélögum nægilegt fjármagn til að veita íbúum sínum þá lögbundnu þjónustu sem þeim ber. Þá eru stærri sveitarfélög betur til þess fallin að sinna lögbundinni þjónustu og því er mikilvægt að hvetja til sameiningar.

4.03. Samgöngur á landsbyggðinni

Ungir jafnaðarmenn vilja að allir byggðarkjarnar verði tengdir með almennilegu vegakerfi sem hægt er nota allan ársins hring. Mikilvægt er að klára að malbika allan þjóðveg 1 í kringum Ísland og skipta út einbreiðum brúm á sömu leið. Efla þarf almenningssamgöngur á landsbyggðinni og gera þær ódýrari. Þá vilja Ungir jafnaðarmenn styrkja og stækka flugvelli á landsbyggðinni, sér í lagi með það fyrir sjónum að dreifa ferðamönnum sem hingað koma um allt land. Þar að auki vilja Ungir jafnaðarmenn að Suðurlandsvegur milli Hveragerðis og Selfoss, og Vesturlandsvegur milli Reykjavíkur og Borgarfjarðar, verði tvöfaldaðir, að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar og að ráðist verði í gagngerar endurbætur á vegakerfi Vestfjarða.

5.01. Réttindi fólks með fötlun

Ungir jafnaðarmenn vilja standa vörð um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Bæta þarf aðgengismál til muna og skal hið opinbera ganga fram með góðu fordæmi og tryggja aðgengi allra á alla opinbera staði. Þá hafna Ungir jafnaðarmenn stofnanavæðingu í þjónustu við fatlað fólk og vilja leggja meiri áherslu á einstaklingsbundna þjónustu.

5.02. Fjölmenning

Ungir jafnaðarmenn fagna fjölmenningu og telja hana auðga samfélagið. Mikilvægt er að taka vel á móti innflytjendum og tryggja að þeim sé ekki mismunað eftir bakgrunni þeirra. Tryggja þarf góða móðurmálskennslu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku og sömuleiðis þarf góð íslenskukennsla að standa öllum innflytjendum til boða óháð fjárhag, búsetu, fötlunar, stöðu á vinnumarkaði og annarra bakgrunnsþátta.

5.03. Rýmka reglur um ríkisborgararétt

Ungir jafnaðarmenn vilja rýmka reglur um veitingu íslensks ríkisfangs og atvinnuleyfis fyrir einstaklinga utan EES-svæðisins. Veiting ríkisborgararéttar fer eftir löngu úreltum reglum. Ólíðandi er að Alþingi hafi geðþóttavald fyrir veitingu ríkisborgararéttar.Umsóknarferli fyrir ríkisfang og atvinnuleyfi er líkast völundarhúsi fyrir innflytjendur sem vilja setjast að á Íslandi, og úr því þarf að bæta.

5.04. Mannúðarsjónarmið fái aukið vægi í málefnum hælisleitenda

Ungum jafnaðarmönnum er umhugað að hælisleitendur fái að halda virðingu sinni og mannhelgi. Afgreiðsla mála þarf að vera eins skjótt og auðið er og skal aldrei tefjast fram yfir 90 daga hámarkið. Hælisleitendur skulu fá sómasamlegt húsnæði, vera fundið viðurværi við hæfi og veitt sú hjálp sem þau þurfa á að halda.

5.05. Móttaka kvótaflóttamanna

Ungir jafnaðarmenn telja mikilvægt að Ísland taki á móti fleira kvótaflóttafólki. Flóttamenn eru jafn miklar manneskjur og hver einn og einasti Íslendingur. Ísland á nóg af ást og umhyggju og plássi og peningum fyrir fólk á flótta.

5.06. Aðskilnaður ríkis og kirkju

Ungir jafnaðarmenn telja að með ríkisstuddri yfirburðastöðu Þjóðkirkjunnar halli á önnur trú- og lífsskoðanafélög. Á Íslandi skal ríkja trúfrelsi og ekki skal hygla einum trúarhóp yfir aðra. Rétt sé því að ríki og kirkja skulu aðskilin að fullu.

5.07. Réttindi hinsegin fólks

Réttindabaráttu hinsegin fólks (LGBTQIA+) er hvergi nærri lokið á Íslandi. Sérstaklega er þörf á réttarúrbótum í málefnum trans- og intersex fólks. Tryggja þarf rétt trans- og intersex einstaklinga til sjálfskilgreiningar og leggja bann við óafturkræfum skurðaðgerðum á kynfærum barna sem fæðast ekki inn í hefðbundna kynjaskilgreiningu. Þá skal taka upp x skráningu á kyni, fyrir þá sem kjósa að skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar.

5.08. Jafnt vægi atkvæða

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að vægi atkvæða sé jafnt á landinu öllu. Alþingismenn skulu vera kjörnir á þing til að sinna heildarhagsmunum þjóðarinnar og forgangsraða þannig að það hagnist íbúum landsins sem heild.

5.09. Ný stjórnarskrá

Ungir jafnaðarmenn telja mikilvægt að heildarendurskoðun stjórnarkrárinnar fari fram og byggi sú vinna á tillögum stjórnlagaráðs, í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Ungir jafnaðarmenn telja mikilvægt að stjórnarskráin endurspegli samfélagið hverju sinni og sífellt sé verið að skoða hana og bæta hana á opinn á lýðræðislegan hátt.

5.10. Stjórnmálaþátttaka ungs fólks

Ungir jafnaðarmenn telja brýna þörf á því að sértækar aðgerðir verði viðhafðar til að efla lýðræðisvitund og kosninga- og stjórnmálaþátttöku ungs fólks. Slíkar aðgerðir geta t.d. falist í skuggakosningum í framhaldsskólum, samhentu kynningarátaki stjórnmálahreyfinga, félagasamtaka og skólayfirvalda og eflingu lýðræðismenntunar á öllum skólastigum. Þá eru Ungir jafnaðarmenn fylgjandi því að kosningaaldur verði lækkaður í 16 ár.

6.01. Rammaáætlun

Ungir jafnaðarmenn styðja rammaáætlun og faglegu mati verkefnastjórnar sé fylgt þegar kemur að virkjanakostum.

6.02. Fjölbreyttari orkukostir

Ungir jafnaðarmenn vilja að stutt sé við rannsóknir og þróun á vinnslu fjölbreyttra sjálfbærra orkukosta, svo sem vindorku og sjávarfallaorku.

6.03. Orkuskipti í samgöngum

Ungir jafnaðarmenn vilja að íslenska ríkið beiti sér fyrir orkuskiptum í bíla- og skipaflota Íslendinga. Líklega eru fáir staðir í heiminum þar sem það er jafn hagstætt að reka rafknúin ökutæki og á Íslandi. Endurnýjun bílaflotans, með það fyrir sjónum að hann sé knúinn á umhverfisvænum orkugjöfum, er brýnt verkefni ef sporna á gegn yfirvofandi loftslagshörmungum. Þá á hið opinbera að hvetja sjávarútveginn til að raforkuvæða skipaflotann.

6. 04. Efling landgræðslu og beitastjórn

Ungir jafnaðarmenn vilja efla landgræðslu enda er gróður- og jarðvegseyðing einn alvarlegasti umhverfisvandi á Íslandi. Mikilvægt er að gera raunhæfa áætlun um landgræðslu og takmörkun búfjárbeitar til að sporna gegn þessari þróun.

6.05. Minna rusl

Ungir jafnaðarmenn telja hugarfarsbreytingu og aðgerðir nauðsynlegar til að auka umhverfisvitund neytenda og draga úr notkun ónáttúruvænna umbúða. Mikilvægt er að fjölga flokkunar- og móttökustöðum fyrir úrgang. Leita á allra leiða til að minnka notkun einnota plastumbúða og plastpoka og afnema tolla og vörugjöld á umhverfisvænar umbúðir. Ísland skal stefna að því að komast í efstu sæti á lista þeirra ríkja sem endurvinna mest.

6.06. Hreint haf 

Ungir jafnaðarmenn hafa miklar áhyggjur af mengun hafsins. Ísland á að skipa sér í forystusveit á heimsvísu þegar kemur að hreinsun hafsins, enda er hreint haf lykilatriði fyrir íslenskan efnahag. Ísland á að styrkja verkefni sem snúa að hreinsun hafsins á alþjóðavísu.

6.07. Græn stefnumótun

Brýnt er að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í umhverfismálum, sérstaklega þegar kemur að loftslagsmálum. Þannig getur Ísland lagt lóð sín á vogarskálarnar í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Við alla stefnumótun ættu stjórnvöld að tileinka sér grænar áherslur í hvívetna.

6.08. Enga olíuvinnslu við Íslands strendur

Ungir jafnaðarmenn hafna vinnslu jarðefnaeldsneyta við Íslands strendur. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein alvarlegasta ógn sem steðjar að mannkyni og vistkerfi jarðarinnar. Af þessum sökum telja Ungir jafnaðarmenn óforsvaranlegt að hefja vinnslu olíu og gass og stuðla þannig að auknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

6.09. Loftslagsprósenta

Ungir jafnaðarmenn vilja að hið opinbera verji sem nemur 1% af VLF til aðgerða í loftslagsmálum. Með því er átt aðgerðir sem miða að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir sem dempa áhrif loftslagsbreytinga og koma til móts við þau samfélög sem verða verst úti vegna afleiðinga þeirra.

7.01. Fæðingarorlof

Fæðingarorlof þarf að vera með þeim hætti að jafnræði foreldra sé tryggt eftir fremsta megni. Þá þarf þak fæðingarorlofsgreiðslna að hækka svo meginþorra foreldra gerist kleift að nýta sér fæðingarorlof með sem minnstri tekjuskerðingu. Fæðingarorlof með minnstri tekjuskerðingu.

7.02. Velferðarkerfið tryggi að enginn þurfi að búa á götunni

Ungum jafnaðarmönnum finnst að íslenskt velferðarkerfi eigi að geta komið öllum til hjálpar. Óásættanlegt er að fólk neyðist til að búa á götunni. Brýnt er að tryggja útigangsfólki betri aðstoð og úrræði hið fyrsta, samhliða því sem orsakir stöðu þeirra verði rannsakaðar sérstaklega.

7.03. Manneskjulegri stofnanir

Ungir jafnaðarmenn vilja skilvirkari, notendavænni og manneskjulegri stofnanir í velferðarþjónustu. Það er óþolandi að notendur velferðarþjónustu mæti óþarfa veggjum og jafnvel óvild í velferðarkerfinu. Það þarf að endurskoða velferðarþjónustu með það markmið að gera hana þjónustuvænni og bæta samskipti milli ólíkra stofnana.

7.04. Húsnæðismál

Ungir jafnaðarmenn vilja jafnræði milli búsetuforma, enda hentar einkaeignarformið á húsnæði ekki öllum. Leiguúrræði gagnast sérstaklega ungu fólki og námsmönnum sem þurfa á sveigjanleika að halda. Þá vilja Ungir jafnaðarmenn að vaxtabóta- og húsnæðisbótakerfið verði sameinað. Forgangsraða á í þágu þeirra sem þurfa raunverulega á bótum að halda og þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Bæturnar skulu áfram fylgja einstaklingum þó leigt sé með öðrum. Ungir jafnaðarmenn telja að eitt mikilvægasta verkefnið í húsnæðismálum sé að auka framboð af félagslegu húsnæði. Ríkisvaldið á að stíga inn á húsnæðismarkaðinn með því að styðja við uppbyggingu öflugs félagslegs húsnæðiskerfis að norrænni fyrirmynd.

7.05. Stúdentaíbúðir

Ungir jafnaðarmenn vilja að hið opinbera komi í auknum mæli til móts við samtök námsmanna um byggingu stúdentagarða. Fyrir marga, sér í lagi fólk utan af landi og fólk sem glímir við erfiðar félagslegar aðstæður, er það grunnforsenda fyrir háskólamenntun að til staðar sé ódýrt húsnæði á meðan á námi stendur. Því þarf að fara í átak í uppbyggingu stúdentagarða á næstu árum, og að fyrirkomulag verði fest í sessi sem tryggir að slík uppbygging fari fram reglulega. 

7.06. Opinber heilbrigðisþjónusta

Ungir jafnaðarmenn telja afar brýnt að allir hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Hreyfingin hafnar því frekari einkavæðingu heilbrigðiskerfisins enda heilbrigðiskerfi í opinberri eigu betur til þess fallið að þjóna almenningi. Sporna á gegn því að markaðssjónarmið verði ríkjandi í veitingu heilbrigðisþjónustu. Fjárhagsstaða á aldrei að ráða því hvort einhver hljóti aðhlynningu. Ungir jafnaðarmenn telja það brýnt að stórbæta heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Það er forsenda fyrir öflugri byggðastefnu að hægt sé að sækja mikilvægustu grunnþarfir í heimabyggð.

7.07. Öflug geðheilbrigðisþjónusta

Ungir jafnaðarmenn vilja öfluga sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu um allt land. Fjölga þarf sálfræðingum á heilsugæslum um allt land og auka kostnaðarhlutdeild hins opinbera í sálfræðiþjónustu. Auka þarf aðgengi að geðlæknum og styrkja geðdeildir. Enginn á að líða fyrir langa biðlista eða vera vísað frá í geðheilbrigðiskerfinu.

7.08. Tannlækningar hluti af almenna heilbrigðiskerfinu

Ungir jafnaðarmenn vilja að tannlækningar verði aðgengilegar öllum. Tannlækningar eiga ekki að vera munaður fyrir hina fáu sem eiga efni á henni heldur hluti af almennri heilbrigðisþjónustu. 

7.09. Gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi

Ungir jafnaðarmenn vilja að stefnt verði að því að heilbrigðiskerfið verði gjaldfrjálst. Há greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu snertir verst þá sem minnst mega við viðbótarútgjöldum, þ.á m. eldri borgara, námsmenn og öryrkja.

7.10.  Nóg komið af einkavæðingu í velferðarþjónustu

Nóg er komið af einkavæðingu velferðarþjónustunnar. Auka þarf eftirlit með fyrirtækjum sem þegar starfa í velferðargeiranum, sérstaklega þeim sem sinna þjónustu við börn og unglinga. Hagsmunir barna eiga að ráða för, ekki gróðahagsmunir fyrirtækja.

7.11. Lífeyrir hækki í samræmi við laun

Ungir jafnaðarmenn vilja að lífeyrir í almannatryggingakerfinu fylgi launaþróun. Það er ótækt að þau sem standa höllum fæti í samfélaginu séu skilin eftir meðan vinnumarkaðurinn hækkar í launum.

7.12. Stytting vinnuviku

Ungir jafnaðarmenn styðja styttingu vinnuvikunnar. Með þessu fær fólk á vinnumarkaði meiri tíma til að sinna frístundum og fjölskyldu. Með þessu væri þeim ábata sem orðið hefur í atvinnulífinu vegna tæknivæðingar á síðustu áratugum deilt með réttlátari hætti.

7.13. Afglæpavæðing fíkniefna

Ungir jafnaðarmenn vilja stíga markviss skref í átt að afglæpavæðingu fíkniefna. Fíknivandi er heilbrigðisvandi og á að taka á honum sem slíkum. Fjölga verður úrræðum fyrir fólk með fíknivanda og styrkja enn frekar þau sem fyrir eru.

7.14. Útrýmum fátækt

Ungir jafnaðarmenn vilja samfélagslegt átak um að útrýma fátækt. Það er ólíðandi að  börn skuli búa við efnislegan skort á Íslandi. Nýta verður öll tæki hins opinbera til að draga úr fátækt og lyfta upp þeim hópum sem höllustum fæti standa.

7.15. Átak gegn kynbundnu ofbeldi

Kynbundið ofbeldi á ekki að líðast í nokkurri mynd og skal hið opinbera beita öllum tiltækum ráðum til að uppræta allar birtingamyndir þess, bæði hérlendis og erlendis.

8.01. Skattar sem tekjujöfnunartæki

Ungir jafnaðarmenn telja skattkerfið mikilvægan lið í að að tryggja jöfnuð í samfélaginu. Skattbyrðinni skal þannig dreift að hinir efnameiri leggi meira af mörkum til samfélagsins, en hinum efnaminni sé eftir megni hlíft. Hliðra þarf skattbyrðinni í auknum mæli til þeirra sem hæstu tekjurnar hafa. Þá vilja Ungir jafnaðarmenn að fjármagnstekjuskattur sé þrepaskiptur, með það fyrir sjónum að hvetja almenning til fjárfestingar, en að atvinnufjárfestar og fjármagnseigendur borgi ekki lægri skatt til samfélagsins en launþegar.

8.02. Hærri persónuafsláttur

Ungir jafnaðarmenn vilja hækka persónuafslátt til muna. Hækkun persónuafsláttar er jafnasta skattalækkunin, en hún gagnast öllum til jafns að krónutölu. Þannig er raunverulega aukið við ráðstöfunartekjur þeirra heimila sem mest þurfa á því að halda.

8.03. Hærri erfðafjárskattur

Ungir jafnaðarmenn leggja til hækkun erfðafjárskatts, ásamt hækkun á skattleysismörkum skattsins. Erfðafjárskattur er sanngjörn leið til þess að vinna gegn eignaójöfnuði í samfélaginu

8.04. Grænir skattar

Ungir jafnaðarmenn vilja að grænir skattar séu hækkaðir og þeim fjölgað. Mannkynið allt stendur frammi fyrir gríðarstórum áskorunum í loftslags- og umhverfismálum. Grænir skattar eiga að hvetja fólk og fyrirtæki til að velja umhverfisvænar lausnir og tekjur ríkisins af þeim eiga að renna í verkefni sem nýtast baráttunni gegn loftslagsbreytingum eða stuðla að betra umhverfi. Ungir jafnaðarmenn vilja að vörur sem framleiddar eru eftir alþjóðlegum umhverfis- eða siðferðisstöðlum hljóti skattaívilnanir.

8.05. Lækka matarskatt

Ungir jafnaðarmenn vilja lækka virðisaukaskatt á matvæli á ný. Það er fyllilega réttlætanlegt að skattar séu lagðir á skaðlega neyslu sem hækka kostnað við rekstur heilbrigðiskerfisins. Hins vegar er fráleitt að almenn matvæli séu skattlögð jafn mikið og raun ber vitni. Hafa ber í huga að matarútgjöld er einn stærsti kostnaðarliður íslenskra heimila.

8.06. Stóriðja skili réttmætum arði til samfélagsins

Ungir jafnaðarmenn vilja að skattundanskot álvera og stórfyrirtækja sem starfa á Íslandi verði tekin föstum tökum. Það er ólíðandi að fyrirtæki sem koma hingað til lands fyrir ódýra orku, og menga íslenska náttúru, skjóti undan skatti fyrir allra augum. Þá vilja Ungir jafnaðarmenn að raforkuverð til stóriðju verði hækkað.

8.07. Lækkun tolla

Ungir jafnaðarmenn vilja lækka tolla á innfluttar vörur. Ísland er lítið land og er einungis um helmingur af neyslukörfu hins almenna Íslendings framleiddur hér á landi. Það veldur neytendum fjárhagslegu tjóni að skattar séu lagðir á innfluttar vörur sem margar hverjar eru þeim nauðsynlegar. Þá vernda tollarnir jafnframt innlenda framleiðslu frá heilbrigðri samkeppni, aftra nýsköpun og skaðar þar meðsamkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja til lengri tíma.

8.08. Upptaka Evru

Valkostir í peningamálum Íslands eru skýrir; sjálfstæður gjaldmiðill í höftum eða upptaka evru. Ungir jafnaðarmenn telja það brýnt hagsmunamál fyrir íslenska alþýðu að jarða íslensku krónuna í eitt skipti fyrir öll og taka upp gjaldmiðil sem sé ekki notaður ítrekað til að efla hag útflutningsfyrirtækja á kostnað launþega.

8.09. Opið bókhald ríkisins

Ungir jafnaðarmenn vita að ríkið er í eigu almennings. Það er því óásættanlegt að fjárlög séu sett upp á jafn óskýran og óskiljanlegan máta eins og nú tíðkast. Nauðsynlegt er að almenningur geti skilið hvert fjármagninu þeirra er varið. Hreyfingin hvetur ríkisvaldið til þess að setja fjárlög fram á skiljanlegri hátt með nánari sundurliðun.

8.10. Sóun á opinberu fé

Ungir jafnaðarmenn telja það brýnt að minnka sóun á opinberu fé. Sé sú sjálfsagða krafa gerð að fólk og fyrirtæki leggi fé til samneyslunnar, er það sjálfsagð krafa að stjórnmála- og embættismenn fari með það fé af virðingu, og geri sér grein fyrir því hve dýrmætt það er. Víða í hinu opinberu kerfi má nýta skattfé betur, svo sem við innkaup, útboð og opinberar framkvæmdir. Einnig þarf að endurskoða verklag frá grunni um hvernig fjárhagsáætlanir fyrir stórar framkvæmdir eru gerðar, og hvernig er farið með slíka áætlun á meðan framkvæmdir standa yfir.

8.11. Erlend fjárfesting

Ungir jafnaðarmenn vilja opna Ísland í ríkari mæli fyrir erlendum fjárfestingum. Þeim skal ekki mætt með tortryggni og fordómum þegar kemur að uppbyggingu landsins. Sömu reglur skulu gilda um alla og stjórnvöld verða að gæta jafnræðis. Þó skal erlendum stórfyrirtækjum ekki gefið undir fótinn með sérstökum skattaívilnunum.

8.12. Viðskipti við þróunarlönd

Ungir jafnaðarmenn vilja auka viðskipti við þróunarlönd. Ein besta þróunaraðstoð sem Ísland getur veitt eru aukin viðskipti. Þetta hjálpar ríkjum sem hafa óöruggan ríkisfjárhag og iðnað að vaxa og dafna, og auka samkeppnisstöðu sína á heimssviðinu.

8.13. Aukin neytendavernd

Ungir jafnaðarmenn vilja að Neytendastofa verði stórlega efld. Neytendastofa þjónar mikilvægum hagsmunum landsmanna allra, enda græða allir á neytendavernd. Neytendastofa í þeirri mynd sem við sjáum í dag er vanbúin til að takast á við breytta tíma í markaðssetningu og vöruþróun, og líða íslenskir neytendur fyrir það. Þá þarf hið opinbera að framkvæma öflugar neytendakannanir, í samstarfi við verkalýðshreyfinguna sem sinnir verkefninu nú, til að vinda ofan af eiginlegu verðsamráði í krafti fákeppni.