Grunnstefna Ungra jafnaðarmanna

 

Atvinnustefna

Verkalýðsmál

Ungir jafnaðarmenn styðja verkalýðsbaráttu launafólks og hvetja jafnt aðila vinnumarkaðarins sem og hið opinbera til að tryggja að laun haldi í við verðlagsþróun og stefnt sé að því að efla kaupmátt launafólks. Þá skal stuðlað að auknum réttindum fólks til sveigjanleika í starfi. Ungir jafnaðarmenn hafna með öllu jafnaðarkaupi.

Atvinna ungs fólks

Ungir jafnaðarmenn vilja að tekið sé sérstaklega á atvinnuleysi ungs fólks og þeirri félagslegu einangrun sem því fylgir. Atvinnuleysisbætur verða að duga fyrir mannsæmandi lífi. Bjóða þarf upp á hvetjandi verkefni fyrir atvinnulausa. Einnig þarf að fræða ungt fólk um kosti löglegrar atvinnu umfram bóta og svartrar vinnu.

Launamunur kynjanna

Launamunur kynjanna er samfélagsmein sem skal útrýmt hið fyrsta. Hið opinbera skal ganga fram með góðu fordæmi og innleiða jafnlaunastefnu á öllum sviðum. Bæta þarf sérstaklega kjör hefðbundinna kvennastétta, s.s. kennara og hjúkrunarfræðinga.

Nýsköpun ofar stóriðju

Ungir jafnaðarmenn hafna stóriðjudekri og því einhæfa atvinnulífi sem því fylgir. Frekar ætti hið opinbera að vinna náið með aðilum vinnumarkaðarins til þess að þróa nýsköpunar- og vísindastarfsemi hér á landi. Gífurleg tækifæri felast í því að gera Ísland að þekkingar- og vísindasamfélagi.

Græn atvinnustefna

Ungir jafnaðarmenn vilja sjálfbæra atvinnustefnu á Íslandi, með áherslu á þróun vistvænna orkugjafa og ábyrgðarfullrar stefnu þegar kemur að ferðamanna- og iðnaðargeira. Allar ákvarðanir um atvinnustefnu landsins skulu teknar með tilliti til sjálfbærni- og umhverfissjónarmiða.

Heildaruppstokkun í landbúnaðarkerfinu

Ungir jafnaðarmenn telja tímabært að ráðast í uppstokkun á landbúnaðarkerfinu með það að markmiði að stuðla að lægra matvælaverði fyrir neytendur, t.d. hvað varðar löggjöf um tolla og vörugjöld. Núverandi styrkjakerfi í landbúnaði er bæði óskilvirkt og óhagkvæmt og nýtast styrkir  illa þeim bændum sem hafa áhuga á vöruþróun og og nýsköpun. Ljóst er að breyta þarf kerfinu.

Þjóðareign auðlinda

Ungir jafnaðarmenn álíta auðlindir landsins auðlindir þjóðarinnar allrar. Ótækt er að arður af þessum auðlindum lendi í vösum fámennrar stéttar. Því er rétt að sá arður sem af nýtingu þeirra hlýst renni í ríkissjóð og sé nýttur í sameiginleg verkefni þjóðarinnar.

 

Menntastefna

Menntun í forgang

Ungir jafnaðarmenn vilja setja menntun í forgang og að stjórnvöld fjárfesti þannig í framtíðinni. Mikilvægt er að allir geti menntað sig, óháð fjárhag.Því vilja Ungir jafnaðarmenn að öll skólastigin séu gjaldfrjáls. Leggja þarf áherslu á nútímalega og aðgengilega menntun. Taka þarf aukið tillit til félagslegrar þátttöku og að sú mikilvæga óformlega menntun sem fram fer með þátttöku í lýðræðislegu starfi félagasamtaka og önnur sjálfboðavinna fái tilhlýðilega viðurkenningu í skólakerfinu.

Leikskóli fyrsta skólastigið

Leikskóli leggur grunn að framtíð barna, bæði í námi og félagslega. Öll börn eiga að hafa rétt á leikskólavist og skal leikskólinn fullnægja þörfum allra barna. Leikskólinn á að vera gjaldfrjáls.

Femínísk nálgun í kennslu

Ungir jafnaðarmenn vilja femíníska menntastefnu þar sem kynjafræði er fléttuð inn í námsefni á öllum skólastigum, þ.m.t. leikskólastigi. Einnig skal kynjafræði gerð að skyldufagi í öllu kennaranámi.

Námslánakerfið

Ungir jafnaðarmenn vilja að 50% námslána breytist í styrk að námi loknu. Þá þarf að hækka grunnframfærslu námslána og tryggja að hún haldi í við verðlag og raunhæf framfærsluviðmið námsmanna. Ungir jafnaðarmenn vilja hefja samtímagreiðslur námslána.

Æskulýðsstarf

Efla þarf opinberan stuðning við æskulýðsstarf. Þá þarf ríkið að framfylgja framsækinni og ungmennamiðaðri æskulýðsstefnu í samráði við æskulýðsfélög landsins.

Fjármögnun opinberra háskóla

Ungir jafnaðarmenn telja að fjármögnun opinberra háskóla verði alltaf að vera tryggð áður en fjármagni er veitt til háskóla í einkarekstri.

Opinn framhaldsskóli

Framhaldsskólinn á að vera gjaldfrjáls að öllu leyti og skal öllum nemendum boðið upp á námsgögn bæði á rafrænu, bóklegu formi, sem og öll gögn nauðsynleg til náms. Stytting náms til stúdentsprófs má ekki koma niður á faglegu starfi eða fjölbreytni framhaldsskólanna heldur skal vinna að auknum sveigjanleika og einstaklingsmiðuðu námi.

 

Utanríkisstefna

Alheimsfriður

Ungir jafnaðarmenn vilja alheimsfrið og að íslensk stjórnvöld gerist öflugri boðberar friðar og frelsis, enda viljum við búa í opnum og frjálsum heimi.

Þróunarsamvinna

Ungir jafnaðarmenn vilja að Ísland veiti að lágmarki 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu árlega til þróunarmála, en það er lágmarksviðmið Þróunarmálastofnunar SÞ. Þetta viðmið standast þegar mörg lönd, svo sem Holland og Danmörk. Það getur Ísland einnig. Þá skal Ísland taka þá stefnu, í samstarfi með Evrópusambandinu að fella í auknum mæli niður tolla gagnvart þróunarríkjum, og vinni þannig gegn alþjóðlegum elítisma Vesturlanda.

Alþjóðleg réttindabarátta

Ungir jafnaðarmenn vilja að íslensk stjórnvöld berjist alþjóðlega fyrir réttindum kvenna, barna, hinsegin fólks og annarra jaðarhópa. Valdefling og menntun kvenna er lykilatriði í að tryggja sjálfbæra uppbyggingu þjóða og stuðla að friði í heiminum.

Sjálfstæð Palestína

Ungir jafnaðarmenn styðja sjálfstæðiskröfu Palestínu. Hún skal njóta fullveldis og sitja sem jafningi meðal annarra fullvalda ríkja hvar svo sem það á við. Þá mótmæla Ungir jafnaðarmenn harðlega síendurteknum mannréttindabrotum og stríðsglæpum Ísraelsstjórnar gegn Palestínumönnum.

Klára aðildarviðræður við ESB og kjósa um aðild

Ungir jafnaðarmenn telja hagsmunum Íslands betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess. Ungir jafnaðarmenn vilja þó að kannað verði til hlítar kosti og galla þess að ganga í Evrópusambandið og verður það einungis gert með því að ljúka aðildarviðræðum. Þegar fullgerður samningur liggur fyrir verður hægt að taka upplýsta umræðu um inngöngu Íslands í ESB. Í kjölfarið skal þjóðin fá að kjósa um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ungir jafnaðarmenn vilja búa í Evrópu byggðri á félagslegu réttlæti og jöfnuði.

Græn nálgun á málefni norðurslóða

Ungum jafnaðarmönnum er umhugað um náttúru norðurheimskautsins. Við viljum að Ísland beiti sér fyrir verndun náttúru norðurslóða í stað þess að taka þátt í kapphlaupi um þær auðlindir sem kunna að leynast norðan heimskautsbaugs.

Opin landamæri

Ungir jafnaðarmenn hafna með öllu því að landamæri séu lokuð. Sjá Ungir jafnaðarmenn lokuð landamæri sem tæki til kúgunar minnihluta hópa og lægri stétta samfélagsins. Vilja Ungir jafnaðarmenn sjá ríkis heims opna landamæri sín með því að tryggja frjálst flæði fólks um heim allan.

 

Samgöngu- og sveitarstjórnastefna

Almenningssamgöngur

Ungir jafnaðarmenn vilja skilvirkar almenningssamgöngur sem eru aðgengilegar öllum, óháð fjárhag. Almenningssamgöngur eru, og munu áfram vera, grænasti samgöngumátinn og sá samgöngumáti sem best nýtir þá innviði sem þegar eru til staðar. Ljóst er að til að gera almenningssamgöngur samkeppnishæfari er þörf á ríkari stuðning frá hinu opinbera.

Sveitarstjórnamál

Ungir jafnaðarmenn telja brýnt að efla veg og vegferð landsbyggðarinnar þannig að allir landsmenn sitji við sama borð óháð búsetu þegar kemur að grunnþjónustu og kostnaði sem af henni hlýst. Ríkið skal tryggja sveitarfélögum nægilegt fjármagn til að veita íbúum sínum þá lögbundnu þjónustu sem þeim ber. Þá eru stærri sveitarfélög betur til þess fallin að sinna lögbundinni þjónustu og því er mikilvægt að hvetja til sameiningar.

Samgöngur á landsbyggðinni

Ungir jafnaðarmenn vilja að allir byggðarkjarnar verði tengdir með almennilegu vegakerfi sem hægt er nota allan ársins hring.

 

Mannréttinda- og lýðræðisstefna

Réttindi fólks með fötlun

Lögð skal áhersla á að notendastýrð persónuleg aðstoð verði eitt af meginþjónustuformum fyrir fatlað fólk. Bæta þarf aðgengismál til muna og skal hið opinbera ganga fram með góðu fordæmi og tryggja aðgengi allra á alla opinbera staði.

Fjölmenning

Ungir jafnaðarmenn fagna fjölmenningu og telja hana auðga samfélagið. Mikilvægt að taka vel á móti innflytjendum og tryggja að þeim sé ekki mismunað eftir bakgrunni þeirra.

Mannúðarsjónarmið fái aukið vægi í málefnum hælisleitenda

Ungum jafnaðarmönnum er umhugað að hælisleitendur fái að halda virðingu sinni og mannhelgi. Afgreiðsla mála þarf að vera eins skjót og auðið er og skal aldrei tefjast fram yfir 90 daga hámarkið. Hælisleitendur skulu fá sómasamlegt húsnæði, vera fundið viðurværi við hæfi og veitt sú hjálp sem þau þurfa á að halda.

Móttaka kvótaflóttamanna

Ungir jafnaðarmenn telja mikilvægt að Ísland taki á móti fleira kvótaflóttafólki. Flóttamenn eru jafn miklar manneskjur og hver einn og einasti Íslendingur. Ísland á nóg af ást og umhyggju og plássi og peningum fyrir fólk á flótta.

Aðskilnaður ríkis og kirkju

Ungir jafnaðarmenn telja að með ríkisstuddri yfirburðastöðu Þjóðkirkjunnar halli á önnur trú- og lífsskoðanafélög. Á Íslandi skal ríkja trúfrelsi og ekki skal hygla einum trúarhóp yfir aðra. Rétt sé því að ríki og kirkja skulu aðskilin að fullu.

Réttindi hinsegin fólks

Réttindabaráttu hinsegin fólks (LGBTQIA+) er hvergi nærri lokið á Íslandi. Sérstaklega er þörf á réttarúrbótum í málefnum trans- og intersex fólks. Tryggja þarf rétt trans- og intersex einstaklinga til sjálfskilgreiningar og leggja bann við óafturkræfum skurðaðgerðum á kynfærum barna sem fæðast ekki inn í hefðbundna kynjaskilgreiningu. Þá skal taka upp x skráningu á kyni, fyrir þá sem kjósa að skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar.

Jafnt vægi atkvæða

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að vægi atkvæða sé jafnt á landinu öllu. Alþingismenn skulu vera kjörnir á þing til að sinna heildarhagsmunum þjóðarinnar og forgangsraða þannig að það hagnist íbúum landsins sem heild.

Ný stjórnarskrá

Ungir jafnaðarmenn telja mikilvægt að heildarendurskoðun stjórnarkrárinnar fari fram og byggi sú vinna á tillögum stjórnlagaráðs, í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Ungir jafnaðarmenn telja mikilvægt að stjórnarskráin endurspegli samfélagið hverju sinni og sífellt sé verið að skoða hana og bæta hana á opinn á lýðræðislegan hátt.

Stjórnmálaþátttaka ungs fólks

Ungir jafnaðarmenn telja brýna þörf á því að sértækar aðgerðir verði viðhafðar til að efla lýðræðisvitund og kosninga- og stjórnmálaþátttöku ungs fólks. Slíkar aðgerðir geta t.d. falist í skuggakosningum í framhaldsskólum, samhentu kynningarátaki stjórnmálahreyfinga, félagasamtaka og skólayfirvalda og eflingu lýðræðismenntunar á öllum skólastigum. Þá eru Ungir jafnaðarmenn fylgjandi því að kosningaaldur verði lækkaður í 16 ár.

 

Umhverfisstefna

Rammaáætlun

Ungir jafnaðarmenn styðja rammaáætlun og faglegu mati verkefnastjórnar sé fylgt þegar kemur að virkjanakostum.

Græn orka

Bæði opinberir aðilar og einkaaðilar ættu að nýta umhverfisvæna orku eftir fremsta megni og ætti hið opinbera að leggja sig sérstaklega fram við innleiðingu orkuskiptastefnu, m.a. þegar kemur að bílaflota landsins.

Efling landgræðslu og beitastjórn

Ungir jafnaðarmenn vilja efla landgræðslu enda er gróður- og jarðvegseyðing einn alvarlegasti umhverfisvandi á Íslandi. Mikilvægt er að gera raunhæfa áætlun um landgræðslu og takmörkun búfjárbeitar til að sporna gegn þessari þróun.

Minna rusl

Ungir jafnaðarmenn telja hugarfarsbreytingu og aðgerðir nauðsynlegar til að auka umhverfisvitund neytenda og draga úr notkun ónáttúruvænna umbúða. Mikilvægt er að fjölga flokkunar- og móttökustöðum fyrir rusl og afnema tolla og vörugjöld á umhverfisvænum umbúðum. Ísland skal stefna að því að komast í efstu sæti á lista þeirra ríkja sem endurvinna mest.

Græn stefnumótun

Brýnt er að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í umhverfismálum, sérstaklega þegar kemur að loftslagsmálum. Þannig getur Ísland lagt lóð sín á vogarskálarnar í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Við alla stefnumótun ættu stjórnvöld að tileinka sér grænar áherslur í hvívetna.

Enga olíuvinnslu við Íslands strendur

Ungir jafnaðarmenn hafna vinnslu jarðefnaeldsneyta við Íslandss strendur. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein alvarlegasta ógn sem steðjar að mannkyni og vistkerfi jarðarinnar. Af þessum sökum telja Ungir jafnaðarmenn óforsvaranlegt að hefja vinnslu olíu og gass og stuðla þannig að auknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

 

Velferðastefna

Fæðingarorlof

Fæðingarorlof þarf að vera með þeim hætti að jafnræði foreldra sé tryggt eftir fremsta megni. Þá þarf þak fæðingarorlofsgreiðslna að hækka svo meginþorra foreldra gerist kleift að nýta sér fæðingarorlof með sem minnstri tekjuskerðingu. Fæðingarorlof með minnstri tekjuskerðingu.

Velferðarkerfið tryggi að enginn þurfi að búa á götunni

Ungum jafnaðarmönnum finnst að íslenskt velferðarkerfi eigi að geta komið öllum til hjálpar. Óásættanlegt er að fólk neyðist til að búa á götunni. Brýnt er að tryggja útigangsfólki betri aðstoð og úrræði hið fyrsta, samhliða því sem orsakir stöðu þeirra verði rannsakaðar sérstaklega.

Húsnæðismál

Ungir jafnaðarmenn vilja jafnræði milli búsetuforma, enda hentar einkaeignarformið á húsnæði ekki öllum. Leiguúrræði gagnast sérstaklega ungu fólki og námsmönnum sem þurfa á sveigjanleika að halda. Þá vilja Ungir jafnaðarmenn að vaxtabóta- og húsnæðisbótakerfið verði sameinað. Forgangsraða á í þágu þeirra sem þurfa raunverulega á bótum að halda og þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Bæturnar skulu áfram fylgja einstaklingum þó leigt sé með öðrum.

Opinber heilbrigðisþjónusta

Ungir jafnaðarmenn telja afar brýnt að allir hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Hreyfingin hafnar því frekari einkavæðingu heilbrigðiskerfisins enda heilbrigðiskerfi í opinberri eigu betur til þess fallið að þjóna almenningi. Sporna á gegn því að markaðssjónarmið verði ríkjandi í veitingu heilbrigðisþjónustu. Fjárhagsstaða á aldrei að ráða því hvort einhver hljóti aðhlynningu.

Tannlækningar og sálfræðiþjónusta hluti af almenna heilbrigðiskerfinu

Ungir jafnaðarmenn vilja að tannlækningar og sálfræðiþjónusta verði aðgengileg öllum. Hreyfingin krefst þess að geðheilbrigðismál fái sama vægi og önnur heilbrigðismál og að unnið sé að betra aðgengi að grunngeðheilbrigðisþjónustu fyrir alla.

Gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi

Ungir jafnaðarmenn vilja að stefnt verði að því að heilbrigðiskerfið verði gjaldfrjálst. Há greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu snertir verst þá sem minnst mega við viðbótarútgjöldum, þ.á m. eldri borgara, námsmenn og öryrkja.

Átak gegn kynbundnu ofbeldi

Kynbundið ofbeldi á ekki að líðast í nokkurri mynd og skal hið opinbera beita öllum tiltækum ráðum til að uppræta allar birtingamyndir þess, bæði hérlendis og erlendis.

 

Efnahagsstefna

Skattar sem tekjujöfnunartæki

Ungir jafnaðarmenn telja skattkerfið mikilvægan lið í að að tryggja jöfnuð í samfélaginu. Skattbyrðinni skal þannig dreift að hinir efnameiri leggi meira af mörkum til samfélagsins, en hinum efnaminni sé eftir megni hlíft.

Upptaka Evru

Valkostir í peningamálum Íslands eru skýrir; sjálfstæður gjaldmiðill í höftum eða upptaka evru. Ungir jafnaðarmenn telja það brýnt hagsmunamál fyrir íslenska alþýðu að jarða íslensku krónuna í eitt skipti fyrir öll og taka upp gjaldmiðil sem sé ekki notaður ítrekað til að efla hag útflutningsfyrirtækja á kostnað launþega.

Opið bókhald ríkisins

Ungir jafnaðarmenn vita að ríkið er í eigu almennings. Það er því óásættanlegt að fjárlög séu sett upp á jafn óskýran og óskiljanlegan máta eins og nú tíðkast. Nauðsynlegt er að almenningur geti skilið hvert fjármagninu þeirra er varið. Hreyfingin hvetur ríkisvaldið til þess að setja fjárlög fram á skiljanlegri hátt með nánari sundurliðun, sem og að skila af sér fjáráætlun fyrir næstkomandi ár.

Erlend fjárfesting

Ungir jafnaðarmenn vilja opna Ísland í ríkari mæli fyrir erlendum fjárfestingum. Þeim skal ekki mætt með tortryggni og fordómum þegar kemur að uppbyggingu landsins. Sömu reglur skulu gilda um alla og stjórnvöld verða að gæta jafnræðis. Þó skal erlendum stórfyrirtækjum ekki gefið undir fótinn með sérstökum skattaívilnunum.