STJÓRNMÁLAÁLYKTUN

landsþings Ungs jafnaðarfólks 27. ágúst 2022


Mótvægisaðgerðir fyrir ungt og tekjulægra fólk

Landsþing Ungs jafnaðarfólks kallar eftir mótvægisaðgerðum fyrir ungt og tekjulægra fólk vegna verðbólgu og snarpra vaxtahækkana.

Seðlabankastjóri sagði í vikunni að fórnarlömb verðbólgunnar væru tekjulægra fólk og benti einnig á að snarpar vaxtahækkanir bitnuðu helst á ungu fólki á fasteignamarkaði.

Það liggur fyrir að ríkisstjórn Íslands hefur á undanförnum árum fært opinberan húsnæðisstuðning að mestu til tekjuhæstu hópa samfélagsins. Þetta var gert með því að brjóta niður vaxtabótakerfið, sem gagnaðist helst ungum og tekjulágum, og með því að innleiða þess í stað skattaafslætti sem renna að langstærstum hluta til eldra og tekjuhærra fólks.1 

Nú er skaðsemi þeirrar stefnu ljós. Ungt jafnaðarfólk skorar á ríkisstjórnina að viðurkenna vandann og ráðast í raunverulegar mótvægisaðgerðir fyrir ungt og tekjulægra fólk en brjóta ekki verðbólguna á baki þessara hópa, eins og stefnir í að óbreyttu. Þá skorar Ungt jafnaðarfólk á ríkisstjórnina að falla frá boðaðri lækkun framlaga til uppbyggingar félagslegs og óhagnaðardrifins leiguhúsnæðis.

Loks tekur Ungt jafnaðarfólk undir kröfur Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) um að upphæðir námslána verði endurskoðaðar til hækkunar árlega, að lágmarki í samræmi við verðlagsþróun, auk þess sem vaxtaþak á námslánum verði lækkað.

Svikin loforð lífskjarasamninga bitna á ungu fólki

Þann 3. apríl 2019 gaf ríkisstjórn Íslands loforð í tengslum við lífskjarasamninga um að ráðist yrði í tilteknar aðgerðir til að bæta hag og stöðu leigjenda.

Ungt jafnaðarfólk harmar þá staðreynd að ríkisstjórnin hafi svikið þetta loforð og bendir á að ungt fólk er langstærsti hópurinn á leigumarkaði. Tæplega 78 prósent fólks sem aldrei hefur átt eigið húsnæði á Íslandi er 18 til 40 ára gamalt.2

Því er ljóst að svikin loforð ríkisstjórnarinnar í tengslum við lífskjarasamninga bitna einna helst á ungu fólki á leigumarkaði. Ungt jafnaðarfólk kallar eftir því að loforð um bætta stöðu leigjenda verði efnt.

Sköpum pláss fyrir iðnnema

Ungt jafnaðarfólk hefur áhyggjur af alvarlegri stöðu sem komin er upp í íslensku menntakerfi. Ár eftir ár er hundruðum ungmenna neitað um möguleikann til að sækja iðnnám.

Þetta er gróf mismunun gagnvart fólki eftir því hvar áhugi og hæfileikar þeirra liggja. Ungt fólk nýtur ekki jafnra tækifæra í samfélaginu þegar aðgengi að iðnnámi er skert svo illa sem raun ber vitni.

Staðan er sérlega óheppileg í ljósi þess að vöntun er á iðnlærðu fólk á íslenskum vinnumarkaði. Ungt jafnaðarfólk skorar á ríkisstjórn Íslands að taka málið alvarlega og styrkja menntakerfið um land allt þannig að fleiri eigi kost á því að sækja iðnnám.

1 Heimild: ASÍ.
2 Heimild: Svar innviðaráðherra við fyrirspurn á Alþingi.