Eftir vel heppnað málefnakvöld kynna Ungir jafnaðarmanna kosningaáherslur sínar

Ráðumst í róttækar loftslagsaðgerðir
Hröðum orkuskiptunum og gerum Ísland óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2035. Stóreflum almenningssamgöngur, hækkum kolefnisgjöld og græna skatta og setjum innflutningskvóta á jarðefnaeldsneyti. Hættum að styrkja framleiðslu á kjöti og mjólk og styðjum frekar við skógrækt og endurheimt votlendis og vistkerfa.

Vinnum gegn kynslóðaójöfnuði
Lækkum almennan kosningaaldur niður í 16 ár. Hækkum grunnframfærslu og frítekjumark stúdenta hjá Menntasjóði námsmanna. Tryggjum stúdentum rétt til atvinnuleysisbóta að nýju. Stækkum almenna íbúðakerfið, fjölgum leiguíbúðum og temprum húsnæðismarkað. Fjármögnum kjarabætur fyrir ungt fólk með stóreignasköttum. 

Bætum réttarstöðu þolenda

Tryggjum þolendum í kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum málsaðild þegar réttað er yfir geranda. Styttum málsmeðferðartíma, lögbindum rétt til launaðs leyfis þolenda í kjölfar brots, rýmkum gjafsóknarreglur og tryggjum brotaþolum langtímastuðning og öryggi meðan mál þeirra eru til rannsóknar.

Tökum betur á móti fólki 

Bjóðum fólki af erlendum uppruna velkomið og ráðumst í endurskoðun á útlendingalöggjöfinni með mannúð að leiðarljósi. Hættum að vísa burt barnafjölskyldum sem hafa myndað tengsl við landið og stöðvum brottvísanir til óöruggra landa á borð við Grikkland og Ungverjaland. 

Afglæpavæðum neysluskammta

Tökum á vanda vímuefnaneytenda í heilbrigðiskerfinu en ekki dómskerfinu.