[Ályktun] UJ árétta andstöðu Samfylkingarinnar við skólagjöld

Ungir jafnaðarmenn harma ummæli Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar Alþingis, um að skólagjöld við opinbera háskóla séu eingöngu tímaspursmál.

Ungir jafnaðarmenn harma ummæli Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar Alþingis, um að skólagjöld við opinbera háskóla séu eingöngu tímaspursmál. Auk þess vekja hugmyndir hans um að stuðningi við skólagjöld vaxi ásmegin innan Samfylkingarinnar furðu, enda úr lausu lofti gripnar. Stefna Samfylkingarinnar er skýr: Engin skólagjöld við opinbera háskóla!

Í landsfundarályktun Samfylkingarinnar frá árinu 2007 segir orðrétt að Samfylkingin vilji „[S]tuðla að því að öllum standi til boða gjaldfrjáls menntun frá og með leikskóla til og með háskóla.“ Einnig að Samfylkingin vilji „[T]ryggja að skólagjöld verði ekki tekin upp í almennu grunn- og framhaldsnámi við opinbera háskóla.“

Ungir jafnaðarmenn fagna því að í nýju frumvarpi menntamálaráðherra sé opinberum háskólum ekki heimilað að taka upp skólagjöld. Jafnrétti til náms er eitt af grundvallaratriðum jafnaðarstefnunar og mikilvægt að það verði ekki skert með upptöku skólagjalda í opinberum háskólum. Stóran fyrirvara þarf þó að gera við að í frumvarpinu eru gjaldtökuheimildir á nemendur auknar, s.s. vegna inntöku-, upptöku- og fjarprófa. Ekki er sett hámark á heimildirnar og setja Ungir jafnaðarmenn fyrirvara við þessi ummæli í greinargerð: „ [G]jaldtakan [á ]að vera stjórntæki til að stýra eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem um er að ræða hverju sinni.“

Ungir jafnaðarmenn vilja þó gagnrýna að í frumvarpi menntamálaráðherra sé dregið úr sjálfstæði opinberra háskóla með gjörbreyttri skipan háskólaráða. Samkvæmt frumvarpinu verður meirihluti hvers háskólaráðs skipaður einstaklingum sem engin bein tengsl hafa við viðkomandi háskóla. Þá er það er sérstakt áhyggjuefni að dregið verður úr áhrifum kennara og stúdenta í háskólaráðum opinberra háskóla en áhrif menntamálaráðuneytisins aukin að sama skapi. Gengur það þvert gegn yfirlýstu markmiði menntamálaráðherra með frumvarpinu, en þar kemur fram að auka eigi sjálfstæði háskólanna.

Deila

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur