Landsþing Ungra jafnaðarmanna 2015 fór fram dagana 9. til 11. október í Hafnarfirði. Landsþingið sendi frá sér eftirfarandi stjórnmálaályktun:

Stjórnmálaályktun landsþings Ungra jafnaðarmanna 2015

Aftengjum Dyflinarreglugerðina
Ungir jafnaðarmenn skora á íslenska ríkið að afnema aðild okkar að Dyflinarreglugerðinni og hvetja jafnframt til þess að henni verði ekki beitt hér á landi á næstu misserum. Ísland er í afar góðri stöðu til þess að taka á móti flóttafólki og hælisleitendum. Það endurspeglar því mikið ábyrgðarleysi af stjórnvalda hálfu að senda flóttamenn og hælisleitendur aftur til landa sem bersýnilega eru í mikið verri stöðu en Ísland til þess að veita þeim mannsæmandi lífskjör.

Þá fordæmir hreyfingin nýlega notkun Dyflinarreglugerðarinnar í októberbyrjun þar sem umsókn tveggja hælisleitenda var synjað á grundvelli hennar og þeim vísað aftur til Ítalíu þar sem ítrekað hefur verið fjallað um óviðunandi aðstæður flóttafólks.

Móttaka flóttafólks
Ungir jafnaðarmenn fagna ákvörðun íslenskra stjórnvalda um móttöku fleira kvótaflóttafólks og hvetja þau til dáða við að taka almennilega á móti þeim flóttamönnum sem hingað koma. Viðbrögð almennings í þessu máli hafa verið til fyrirmyndar þar sem fjöldi fólks bauð fram heimili sín til að hýsa flóttamenn. Ungir jafnaðarmenn ætla ekki að láta sitt eftir liggja í þessum efnum.

Gjaldfrjáls sálfræðiþjónusta
Ungir jafnaðarmenn fagna vitundarvakningu um geðheilbrigði og skora á stjórnvöld að bregðast við. Brýn þörf er á að bæta aðgengi allra, sérstaklega þó ungmenna, að sálfræðiþjónustu og skal hún vera gjaldfrjáls. Ungir jafnaðarmenn leggja til það fyrirkomulag að í öllum grunn- og menntaskólum landsins sé starfandi skólasálfræðingur sem allir nemendur hafi greiðan aðgang að.

Sjálfsagt aðgengi að lyfjum
Ungir jafnaðarmenn telja óforsvaranlegt að stjórnvöld berji sér á brjóst varðandi kaup á lífsnauðsynlegum lyfjum sem sjúklingar ættu að eiga fullan rétt á og greiðan aðgang að. Allir ættu að hafa aðgang að þeim lyfjum sem þeir þurfa.

Almannahagsmunamiðuð gjaldmiðlastefna
Atgervisflótti ungs menntaðs fólks er mikið áhyggjuefni og hætta er á því að fyrirtæki kjósi að flytja starfsemi sína úr landi vegna óstöðugs gjaldmiðils. Íhaldssemi og einangrunarhyggja ræður í dag gjaldmiðlastefnu og teljum við það ólíðandi að gjaldmiðlastefna hygli sérhagsmunahópum á kostnað almennings.

Frelsi til mismununar?
Ungir jafnaðarmenn mótmæla svokölluðu samviskufrelsi presta Þjóðkirkjunnar og telja óboðlegt að opinberir starfsmenn hennar hafi leyfi til að mismuna fólki, enda er það gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þá ítreka Ungir jafnaðarmenn skoðun sína að ríki og kirkja skulu aðskilin, enda er yfirburðarstaða þjóðkirkjunnar mismunun gegn öðrum trú- og lífskoðunarfélögum.

Burt með skækjuskömm í dómskerfinu og inn með kynjakvóta
Skækjuskömm (e. slut shaming) er grafalvarlegt samfélagslegt vandamál. Taka þarf á þessu samfélagsmeini á öllum stigum. Mikilvægt er að viðbragðsaðilar, s.s. lögregla og dómstólar, fái viðunandi fræðslu og þjálfun í meðhöndlun kynferðisbrotamála, sérstaklega þegar kemur að úrvinnslu mála þar sem börn og ungmenni eiga hlut að máli. Þá vilja Ungir jafnaðarmenn kynjakvóta á embætti dómara á öllum dómsstigum. Ungir jafnaðarmenn skora á stjórnmálastéttina að leiða samfélagslega vitundarvakningu þegar kemur að þessum málum.

Eitruð karlmennska
Einstrengingslegar staðalímyndir karlmennsku eru ein af undirstöðum feðraveldisins og ástæðum kynbundins ofbeldis. Vinna skal gegn þessari eitruðu karlmennsku í samfélaginu, bæði með tilkomu stjórnvalda og skólakerfisins til að stuðla að vitundarvakningu og viðhorfsbreytingum á úreltum hugmyndum um karlmennsku í kynjatvíhyggjukerfi.

Hinsegin fræðsla
Fyrir frumkvæði Ungra jafnaðarmanna og sveitarstjórnarfulltrúa Samfylkingarinnar hafa fjölmörg sveitarfélög hafa nú samþykkt að efla hinseginfræðslu nemenda grunnskóla. Ungir jafnaðarmenn hvetja til þess að fræðslan nái einnig til þeirra sem starfa með börnum, svo sem kennara og annarra. Þá vilja Ungir jafnaðarmenn einnig efla hinseginfræðslu í framhaldsskólum.

Ungt fólk til áhrifa
Landsþing Ungra jafnaðarmanna  haldið í Hafnafirði helgina 9 til 11.október 2015 skorar á flokksstjórn Samfylkingarinnar að breyta reglum flokksins þannig að ungu fólki verði tryggt að minnsta kosti eitt af þremur efstu sætunum á framboðslistum flokksins í öllum kjördæmum.