Event cover - landsþingLandsþing Ungra jafnaðarmanna 2013 var haldið 4 – 5 október í Sandgerði. Landsþingið er valdamesta samkoma Ungra jafnaðarmanna og er haldið ár hvert. Eftirfarandi eru landsfundarsamþykktir landsþingsins 2013.

 

 

Stjórnmálaályktun

Ung­ir jafnaðar­menn telja það með ein­dæm­um að mögu­legt sé að standa fyr­ir jafn mik­illi aft­ur­för á jafn skömm­um tíma og ný rík­is­stjórn Íslands hef­ur staðið fyr­ir. Er þar ekki ein­ung­is horft til aðgerða henn­ar í þágu hinna fáu, held­ur einnig þess orðbragðs og þess vinnu­lags sem rík­is­stjórn­in hef­ur viðhaft á skömm­um starfs­tíma. Ein­angr­un­ar­hyggja í alþjóðamál­um í bland við ónýta efna­hags­stefnu veld­ur því að Ung­ir jafnaðar­menn telja þörf á kröft­ugu andsvari þeirra sem styðja áfram­hald­andi stöðugar end­ur­bæt­ur, vel­ferðarríki og fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lag í anda rík­is­stjórn­ar jafnaðarmanna.

Kosn­inga­úr­slit vors­ins voru Ung­um jafnaðarmönn­um veru­leg von­brigðum, þar sem hafnað var ábyrgri stefnu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og veru­leg­ur ár­ang­ur þáver­andi rík­is­stjórn­ar, sér­stak­lega í efna­hags­mál­um fékk um­fjöll­un sem skyldi. Þess í stað komust til valda stjórn­mála­flokk­ar sem ekki verður annað séð en að hafi logið sig til valda með óraun­hæf­um og inni­stæðulaus­um lof­orðum í kosn­inga­bar­átt­unni. Hef­ur það enda komið á dag­inn að inni­hald, upp­hæðir og tíma­setn­ing­ar efnda hafa ger­breyst á þeim fáu mánuðum sem liðnar eru frá kosn­inga­bar­átt­unni. Ung­ir jafnaðar­menn hafna stjórn­mál­um óheiðarleik­ans og telja ábyrgð stjórn­mála­manna sem leggja stund á þau vera slíka að þeim er ekki vært í valda­stól­um.

Von­brigði Ungra jafnaðarmanna birt­ast einna helst í eft­ir­far­andi mál­um.  Ann­ars veg­ar hinni órétt­látu og óút­færðu al­mennu skuld­aniður­fell­ingu. Við telj­um al­ger­lega óboðlegt að hinu op­in­bera sé beitt til þess að hygla stór­eigna­fólki á kostnað ungs fólks, sér­stak­lega þegar sú aðgerð fel­ur í sér mörg hundruð millj­arða króna út­gjöld rík­is­ins á sama tíma og vel­ferðar­kerfið er al­var­lega fjár­svelt og ríkið sit­ur í skuldasúpu Hins veg­ar í ráðal­eysi rík­is­stjórn­ar­inn­ar í Evr­ópu­mál­um þar sem eng­in ákvörðun hef­ur verið tek­in önn­ur en ábyrgðarlaus­ar yf­ir­lýs­ing­ar ut­an­rík­is­ráðherra. Brýna Ung­ir jafnaðar­menn fyr­ir nú­ver­andi rík­is­stjórn að kynna sér grunn­regl­ur þing­ræðis­ins. Þá er ít­rekuð krafa Ungra jafnaðarmanna um að full­kláraður samn­ing­ur verði lagður í dóm ís­lensku þjóðar­inn­ar.

Ung­ir jafnaðar­menn harma jafn­framt hvernig fór fyr­ir nýrri stjórn­ar­skrá í lok síðasta kjör­tíma­bils. Ung­ir jafnaðar­menn standa ennþá við þá stefnu að Íslandi þurfi nýja stjórn­ar­skrá byggða á til­lög­um stjórn­lagaráðs. Við krefj­umst þess að okk­ar full­trú­ar haldi lífi í mál­inu og virði ekki kosn­ingalof­orð okk­ar um nýja stjórn­ar­skrá að vett­ugi held­ur fari eft­ir þeim vilja þjóðar­inn­ar sem birt­ist skýrt í niður­stöðum þjóðar­at­kvæðagreiðslunn­ar 20. októ­ber 2012.

Ung­ir jafnaðar­menn líta til framtíðar og ætla að taka þátt í upp­bygg­ing­ar­starfi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Aldrei er meiri þörf á öfl­ugri hug­sjón en þegar á bját­ar og því er nauðsyn­legt að öfl­ug­ur jafnaðarmanna­flokk­ur og virk ungliðahreyf­ing sé til staðar. Vilji Ungra jafnaðarmanna stend­ur jafn­framt til auk­ins sam­starfs þeirra stjórn­mála­hreyf­inga sem beita sér gegn sér­hags­muna­valdi.

 

Fjölmenning og mannréttindi

Innflytjendur

Ungir jafnaðarmenn vilja bæta stöðu innflytjenda á Íslandi. Við höfum áhyggjur af vaxandi þjóðernishyggju sem byggir á neikvæðri afstöðu gagnvart öðrum menningarheimum. Við óttumst að þrýstingur til einsleitni verði til þess að víðsýni og fjölmenning dafni ekki. Ungir jafnaðarmenn eru eindregnir stuðningsmenn fjölmenningarsamfélagsins. Þörfin til að ramma inn einstaklinga og hópa eftir þjóðernum, til að mynda í gegnum opinbera kerfið og með landamærahyggju er varhugaverð stefna. Við viljum að ólíkir menningarheimar fái að njóta sín en óttumst að íslensk stjórnvöld hygli vestrænni menningu umfram aðra.

1. Upplýsingar og tungumálaaðgengi

Ungir jafnaðarmenn vilja tryggja aðstöðu innflytjenda til viðunandi tungumálakennslu óháð efnahag.  Skortur á aðstöðu og upplýsingaflæði dregur úr samfélagsþátttöku innflytjenda, svo sem í félagslífi, stjórnmálum og menningarlífi.

Því teljum við mikilvægt að auka aðgengi innflytjenda að upplýsingum, til dæmis með því að þýða upplýsingar á fleiri tungumál og setja þær upp á myndrænni hátt. Sérstaklega þarf að gæta þess að þessi hópur fái greiðan aðgang að upplýsingum um réttindi þeirra og skyldur.

Gæta þarf þess að börn fái næga kennslu í þeirra eigin móðurmáli, en það er grundvöllur þess að þau nái valdi á öðrum tungumálum, svo sem íslensku og ensku.

2. Viðhorf

Ungir jafnaðarmenn vilja auka fræðslu fyrir börn jafnt sem fullorðna um mismunandi menningarheima, sem og trúarbrögð, siði og venjur.  Sérstök áhersla á að kynna sér aðra menningu á að vera til staðar í námskrá, svo komandi kynslóðir vaxi úr grasi lausar við fordóma og fyrirfram gefnar hugmyndir um fólk með annan bakgrunn. Einnig ætlumst við til að trúfrelsi einstaklinga sé virt og að allir sitji við sama borð þegar kemur að aðstöðu og aðstoð hins opinbera til að iðka trú sína.

Hatursglæpir í garð ólíkra menningarhópa eru raunverulegt vandamál og reynsla nágrannaþjóða okkar verður að nýtast sem víti til varnaðar.  Ennfremur óttast Ungir jafnaðarmenn að ritskoðun færi hatursfulla orðræðu neðanjarðar.

Við viljum tryggja að skoðanir almennings séu ekki ritskoðaðar og að umræðan um málefni innflytjenda sé á yfirborðinu, svo að samfélagið geti tekist á við óupplýsta, öfgafulla orðræðu.

3. Einangrunarhyggja

Réttindi Íslendinga erlendis mega ekki skerðast vegna vaxandi einangrunarhyggju.Ungir jafnaðarmenn telja að íslenskum borgurum sé best borgið innan Evrópusambandsins, en einungis þannig er hægt að opna á fullt frelsi þeirra til að stunda nám og atvinnu í Evrópu.

 

Flóttamenn og hælisleitendur

Ungir jafnaðarmenn ávíta íslensk stjórnvöld fyrir áhugaleysi á málaflokki flóttamanna og hælisleitenda. Nauðsynlegt er að stjórnvöld móti framtíðarstefnu í málefnum flóttamanna og hælisleitenda. Aðgerðarleysi í þessum málaflokki er ekki ásættanlegt.

1. Meðferð hælisumsókna

Skortur á fjármagni til málaflokksins leiðir til versnandi kjara flóttamanna, stöðnunar og aðgerðaleysis.   Við teljum að opinberar stofnanir sem taka á þessum málum séu óskilvirkar, hægvirkar og íhaldssamar. Við teljum nauðsynlegt að stytta málsmeðferðartíma umsókna um hæli, dvalarleyfi og ríkisborgararétt.

Ungir jafnaðarmenn leggja til að málaflokknum sé hlíft við frekari niðurskurði, enda sé mikilvægt að taka vel á móti flóttamönnum og hælisleitendum sem flýja land sitt, sökum bráðrar lífshættu og mjög takmarkaðra lífsgæða.  Ungir jafnaðarmenn vilja að íslenska ríkið láti af þeirri framkvæmd að refsa hælisleitendum fyrir að koma til landsins á fölsuðum skilríkjum.

2. Aðbúnaður hælisleitenda

Við viljum stórbæta móttöku hælisleitenda.  Fordómar gagnvart hælisleitendum eru óásættanlegir.  Aðbúnaður hælisleitenda er slæmur, þeir hafa takmarkaða möguleika á atvinnu og búa við lakar heimilisaðstæður.  Við  höfnum öllum hugmyndum um skert mannréttindi hælisleitenda svosem notkun ökklabanda.

Styrkja þarf lagaumhverfið á vettvangi hælisleitenda og efla eftirfylgni og aðstoð. Auk þess vilja Ungir jafnaðarmenn að skipað verði í embætti umboðsmanns flóttamanna og hælisleitenda svo þeir eigi auðveldara með að leita réttar síns ásamt því að bæta aðstöðu hælisleitenda og bæta réttindi þeirra til ráðgjafar og stuðnings.

3. Flóttamenn

Ungir jafnaðarmenn harma hversu fáum flóttamönnum Ísland tekur við, miðað við þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Fjöldi flóttamanna í heiminum, aðstaða þeirra í flóttamannabúðum og aðskilnaður fjölskyldna eru hnattræn vandamál sem Íslendingar eiga að einsetja sér að lagfæra eftir megni.  Áhugaleysi þeirra sem búa við góð lífsskilyrði er ekki réttlæting fyrir aðgerðaleysi. Hælisleitendur sem hafa ekki gild vegabréf eiga skilið að fá næga hjálp, líkt og það fólk sem flýr átakasvæði eða umdeild svæði, svo sem Palestínu eða Vestur-Sahara.   Ungir jafnaðarmenn vilja að Ísland veiti ríkisfangslausum flóttamönnum sérstaka aðstoð, svo sem fólki sem fæðst hefur í flóttamannabúðum í nærliggjandi löndum Palestínu. Auk þess þarf að veita flóttamönnum sem flýja átökin í Sýrlandi sérstakan gaum í samræmi við ábendingar alþjóðastofnana. Í þeim efnum má taka Svíþjóð til fyrirmyndar en þar hefur verið ákveðið að allir sýrlenskir flóttamenn sem nú búa í Svíþjóð fái dvalarleyfi sitt framlengt til frambúðar.

Þá krefjumst við þess að Ísland taki við sambærilegum fjölda kvótaflóttamanna og þau ríki sem við berum okkur saman við.  Sérstaklega þarf að leggja áherslu á þá flóttamenn sem eiga hagsmuna að gæta í málaflokkum þar sem Ísland stendur framarlega, svo sem í málefnum hinsegin fólks.

4. Ríkisborgararéttur

Ungir jafnaðarmenn hafna hentistefnu við úthlutun ríkisborgararéttar.  Sjálfsagt er að skýr skilyrði séu fyrir veitingu ríkisborgararéttar, en einnig þarf að tryggja að allir hafi kost á því að sækja um ríkisborgararétt óháð bakgrunni.

Trúmál

Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu á að á Íslandi ríki trúfrelsi, að engum trúarhópum sé hyglt umfram aðra og að fólk njóti jafnrar virðingar og tækifæra óháð trúar- og lífsskoðunum. Við óttumst yfirburði Þjóðkirkjunnar og gagnrýnum að hún sé í sumum tilfellum eini kostur til sálarhjálpar og annarrar mikilvægrar þjónustu sem ætti frekar að vera sinnt af þar til gerðum sérfræðingum, s.s. sálfræðingum, félagsráðgjöfum o.s.frv.

1. Menntun

Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu á að menntun á vegum hins opinbera byggi á veraldlegum gildum og að aðkoma trúfélaga að menntun sé takmörkuð. Trúboð skal ekki fara fram í skólum og þess gætt að trúfrelsi nemenda sé virt. Þó skal tryggja að fjölbreytt trúarbragðafræði, heimspeki og siðfræði standi til boða í skólum og að allir hafi rétt á því að leggja stund á trúarlega menntun samkvæmt sinni sannfæringu utan skóla.

2. Sálræn og félagsleg aðstoð

Við óttumst skort á möguleikum fólks á því að sækja sálræna og félagslega aðstoð án aðkomu Þjóðkirkjunnar þegar áfall ber að garði. Við viljum að öllum sé tryggð sú aðstoð sem þörf er á óháð trúfélögum, að öllum standi til boða að sækja slíka þjónustu niðurgreidda utan sem innan trúfélaga með sama hætti og nú þegar tíðkast hjá Þjóðkirkjunni.

3. Hatursorðræða

Ungir jafnaðarmenn hafa áhyggjur af hatursorðræðu í garð trúarhópa. Við teljum að með aukinni fræðslu megi koma í veg fyrir frekara hatur og ofbeldi gegn trúarhópum. Glæpi, öfgar og mannréttindabrot, réttlætt í nafni trúar, má þó aldrei umbera.

4.  Aðskilnaður ríkis og kirkju

Þjóðkirkjan hefur ríkisstudda yfirburðastöðu í Íslandi, en Ungir jafnaðarmenn telja að með slíkri yfirburðastöðu Þjóðkirkjunnar halli á önnur trúfélög og lífsskoðanafélög. Ungir jafnaðarmenn vilja aðskilnað ríkis og kirkju.

 

Réttindi barna

Ungir jafnaðarmenn vilja að séð verði til þess að öll börn hafi rétt á heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. tannlæknisþjónustu, óháð efnahagslegri stöðu foreldra. Við viljum að börnum sé boðið upp á fjölbreytt nám og þeim leyft að njóta sín, en ekki öllum steypt í sama mótið þegar kemur að kennsluaðferðum.

1. Skólakerfið

Ungir jafnaðarmenn vilja að iðnnám verði raunhæfur valkostur á við bóknám. Leikskólar eiga ekki að ýta undir kynjahlutverk og verða því að bjóða upp á leikföng sem aðgreina ekki kyn heldur leyfi börnum að þroskast sem einstaklingar óháð kyni. Öll skólastig verða að kenna börnum gagnrýna hugsun og efla lýðræðisvitund þeirra.

2. Forræðismál

Við teljum það slæmt að hefðir ráði oft för í forræðismálum og það sem er barninu fyrir bestu sé ekki haft að leiðarljósi þegar kemur að forræðisdeilum. Efla þarf embætti umboðsmanns barna.

3. Réttur barna á alheimsvísu

Ísland á að berjast fyrir mannréttindum barna um allan heim. Brúðkaup þar sem stúlkur eru neyddar til að giftast, þá oft á tíðum mönnum sem eru mikið eldri en þær, eiga ekki að viðgangast. Börn eiga að fá að njóta sín sem einstaklingar sama í hvaða landi þau búa og teljum við með öllu óásættanlegt að börn alist upp í flóttamannabúðum þar sem tækifæri þeirra til lærdóms og leikja eru takmörkuð.

Börn eiga sjálfsagðan rétt á heilbrigðisþjónustu um allan heim.

 

Réttindi hinsegin fólks

Ungir jafnaðarmenn hafna fáfræði og fordómum í garð hinsegin fólks.  Ónóg fræðsla um málefni hinsegin fólks veldur misskilningi og óvarkárni í orðræðu. Við óttumst stöðnun í réttinda- og viðhorfabaráttu á Íslandi sem orsakast m.a. af niðurskurði fjárframlaga til hagsmunasamtaka og stofnanna sem standa fyrir fræðslu, ráðgjöf og réttindabaráttu. Eðlishyggja og notkun staðalímynda, t.a.m. þegar kemur að auglýsingum og afþreyingarefni, er menningarlegt mein sem dregur úr lífsgæðum þessara þjóðfélagshópa.

1. Intersex og transgender

Tvíhyggju gætir í íslensku samfélagi þegar kemur að viðhorfum til hinsegin fólks (LGBTQI).  Við viljum standa vörð um réttindi intersex og transgender einstaklinga, sérstaklega barna. Þá ber að varast óþarfa tvíhyggju í íþrótta- og félagsstarfi. Ungir jafnaðarmenn telja því mikilvægt að skólar, íþróttafélög og önnur félagasamtök komi til móts við intersex og transgender börn með aðgengi að salernis- og búningsaðstöðu sem hentar þessum hópi.

Við krefjumst þess að hér á landi verið hið lagalega þriðja kyn tekið upp fyrir þau börn sem fæðast ekki inn í hina hefðbundnu kynjaskilgreiningu.  Þetta hafa lönd eins og Ástralía og Þýskaland þegar ákveðið að gera og sjálfsagt að Ísland fylgi í fótspor þeirra.

Á sama tíma þarf að koma í veg fyrir að læknar, heilbrigðisstarfsfólk og foreldrar taki óafturkræfar ákvarðanir um líkamlegt kyn barns og breyti með skurðaðgerðum kynfærum þess, áður en barnið er sjálft fært um að taka þátt í ákvörðuninni.

2. Barneignir samkynhneigðra

Við óttumst að samkynhneigðir hafi takmarkaða möguleika til barneigna.

Við teljum því mikilvægt að íslensk stjórnvöld og Íslensk ættleiðing beiti sér fyrir því að gerðir verði ættleiðingarsamningar við lönd sem leyfa ættleiðingu til samkynhneigðra. Einnig vilja Ungir jafnaðarmenn skoða möguleika á staðgöngumæðrun, en þó af mikilli varkárni og þá einungis í góðgerðaskyni.

3. Réttindi samkynhneigðra á heimsvísu

Við óttumst áhugaleysi Íslendinga og íslenskra stjórnvalda við að beita sér fyrir réttindum hinsegin fólks á heimsvísu, gegn hatursorðræðu og ofbeldi. Því hvetjum við Íþrótta- og ólympíusamband Íslands til að draga sig úr keppni á Vetrarólympíuleikunum í Rússlandi til mótmæla bágri stöðu mannréttindamála hinsegin fólks þar í landi.  Við hvetjum líka íslensk stjórnvöld til að nýta hvert tækifæri á alþjóðavettvangi til að fordæma mannréttindabrot gegn hinsegin fólki um allan heim.

 

Kvenfrelsi og kynjajafnrétti

Eitt af stærstu áhyggjuefnum Ungra jafnaðarmanna er feðraveldið hér heima og ekki síður út í heimi, þar sem staða kvenna er oft skelfileg. Við viljum aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og uppræta stöðluð kynjahlutverk. Þá teljum við sérstakra aðgerða þörf fyrir stelpur á atvinnumarkaði og stráka í skólakerfinu.

1. Jöfn tækifæri

Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu á jöfn tækifæri kynjanna á atvinnumarkaði. Kynbundin launamunur og atvinnutækifæri kvenna valda okkur miklum áhyggjum. Við viljum brjóta glerþakið með þeim tækjum og tólum sem við höfum svo sem kynjakvótum.

2. Kynjafræðsla

Ungir jafnaðarmenn hafa áhyggjur af orðræðu og hugmyndum fólks um baráttu fyrir auknu kynjajafnrétti. Við viljum auka fræðslu um femínisma, jafnrétti, kynbundið ofbeldi og kynjaða orðræðu. Ungir jafnaðarmenn vilja að kynjafræði sé skyldufag í grunn- og framhaldsskólum.

3. Stöðluð kynjahlutverk

Við höfnum stöðluðum kynjahlutverkum í æsku, hvað varðar fatnað, orðalag, leikföng og sjónvarpsefni. Við hvetjum leik- og grunnskóla, fjölmiðla og framleiðendur afþreyingarefnis til að vinna gegn kynjuðum staðalhlutverkum.

4. Aðstoð við þróunarlönd

Íslendingar eiga að bjóða fram aðstoð við að efla konur til menntunar, atvinnu og sjálfstæðis.

5. Kynbundið ofbeldi

Ungir jafnaðarmenn hvetja yfirvöld á Íslandi til að beita sér gegn kynbundnu ofbeldi innanlands sem utan. Kynbundið ofbeldi birtist t.d. í heimilisofbeldi, nauðgunum, áreiti, hatursfullri orðræðu, sýruárásum, þvinguðum hjónaböndum og umskurði. Yfirvöld þurfa að verja auknum tíma og orku í að berjast gegn öllum myndum kynbundins ofbeldis.

Lífskjör ungs fólks

Velferð

Ungir jafnaðarmenn hafa áhyggjur af því að veigamiklar ákvarðanir um velferðarkerfið séu aðallega teknar af fólki sem hefur sjaldan eða aldrei þurft á velferðarkerfi að halda og þar með gagnist þjónustan ekki sem skyldi. Úr þessu viljum við bæta. Við óttumst fátækt ungra fjölskyldna og þá sérstaklega áhrif fátæktarinnar á börn. Nauðsynlegt er að skoða þetta vandamál í stóru samhengi og raunverulegu lausnir vandans hljóta að líta til þátta eins og að bæta leigumarkaðinn og hækka laun láglaunastétta. Einnig þarf að styrkja stuðningsstofnanir, svo sem leikskólana, til að þeir geti sinnt því uppeldis- og umönnunarhlutverki sem þeir deila með foreldrum.

1. Skipulag leikskóla

Við leggjum til að leikskólar verði skilgreindir sem hluti af skólakerfinu og að áhersla verði lögð á opinberan rekstur leikskóla. Þá skal leitast við að leikskólar geti í auknum mæli tekið við ungbörnum og verði þannig valkostur við vistun barna hjá dagmæðrum. Þannig skal tryggt að stefnumótun sé heildræn, eftirlit skilvirkt og ábyrgð skýr.Ungir jafnaðarmenn hvetja til þess að sveitarfélög setji sér stefnu um matarframboð á leikskólum, en nauðsynlegt er að boðið sé upp á fjölbreytt og næringarríkt mataræði og að tillit sé tekið til sérþarfa af líkamlegum, trúarlegum eða siðferðislegum ástæðum, í samráði við forráðamenn.

2. Fjármagn og kjör í leikskólakerfinu

Við hvetjum einnig til nýrra og frumlegra lausna, t.d. hvað varðar nýtingu á rými, í þeim tilgangi að mæta fjárhagsvanda leikskóla. Þá lýsum við yfir stuðningi við kjarabaráttu leikskólakennara og annarra velferðarstétta sem borið hafa skarðan hlut frá borði kjarasamninga of lengi.

3. Kjör öryrkja og NPA

Ungir jafnaðarmenn leggja til að grunnframfærsla öryrkja verði tafarlaust hækkuð og forgangsraðað verði í þágu þeirra sem ekki hafa önnur úrræði en að þiggja örorkubætur. Þá hvetja Ungir jafnaðarmenn stjórnvöld til að halda áfram að efla NPA-þjónustu (notendastýrða persónulega aðstoð).

4. Fæðingarorlof

Hlúa þarf að fæðingarorlofsmálum og því kerfi sem komið hefur verið upp síðustu ár, tryggja jafnræði foreldra eftir fremsta megni og koma í veg fyrir afturför. Í því skyni leggjum við til að þak fæðingarorlofsgreiðslna verði hækkað til að gera meginþorra foreldra kleift að nýta sér fæðingarorlof með sem minnstri tekjuskerðingu.

5. Aðstoð við útigangsfólk

Ungir jafnaðarmenn óttast fjölgun útigangsfólks og að verstu birtingarmyndir fátæktar færist í aukana á Íslandi. Íslenska velferðarkerfið á að geta komið öllum til hjálpar í neyð sinni og því er brýnt að tryggja útigangsfólki betri aðstoð og úrræði hið fyrsta, samhliða því sem orsakir stöðu þeirra verði rannsakaðar sérstaklega. Enginn á að þurfa að búa á götunni. Einnig hvetja Ungir jafnaðarmenn Alþingi til að breyta lögum svo hægt sé að setja upp neysluklefa fyrir sprautufíkla, líkt og gert hefur verið í Danmörku, þar sem fíklar geta nálgast hreinar nálar, neyslan er færð í öruggt umhverfi og auðvelt er að nálgast fræðslu.

 

Atvinna

Ungir jafnaðarmenn hafa áhyggjur af skorti á spennandi atvinnutækifærum. Gjaldeyrishöft og einangrun Íslands býr ekki vel í haginn fyrir nýsköpunarstarfsemi í atvinnulífi landsins, en innganga í Evrópusambandið er raunhæfasta lausnin við því vandamáli. Aukna vitund þarf um verkalýðsmál meðal ungmenna og hvetja þarf ungt fólk til að velja vinnumarkaðinn eða menntaveginn umfram atvinnuleysisbætur eða svarta vinnu. Ungir jafnaðarmenn leggja mikla áherslu á að tryggja jöfn tækifæri allra á vinnumarkaði og í því skyni þarf sérstaklega að útrýma kynbundnum launamun.

1. Einhæft atvinnulíf

Ungir jafnaðarmenn óttast einhæfni í atvinnulífi landsins líkt og þá sem stóriðjustefna hins opinbera hefur ýtt undir og hætt er við að valdi spekileka og atgervisflótta úr landinu. Helstu stóriðjuframkvæmdir síðustu áratuga má skýra með stórtækri fyrirgreiðslu í formi skattaafslátta og raforku á gjafaverði. Ungir jafnaðarmenn hafna slíku stóriðjudekri og vilja langtímastefnumótun sem tekur fyrir óþarfa niðurgreiðslu, skattaívilnanir og sérhannaðar skipulagslausnir til þess eins að setja öll eggin í sömu körfuna

2. Nýsköpun

Við hvetjum til þess að atvinnuþróunarfélög og nýsköpunarmiðstöðvar verði efldar og að hið opinbera starfi náið með aðilum vinnumarkaðarins að því marki. Þá leggjum við til að kostnaður við að stofna fyrirtæki verði lækkaður og sértækar lausnir verði í boði fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki, svo sem að geta dreift greiðslu stofnhlutafés yfir tíma.

3. Verkalýðs- og launamál

Ungir jafnaðarmenn óttast að verkalýðs- og launamál fái ekki næga athygli né stuðning af hálfu stjórnvalda. Lág laun kennara og umönnunarstétta hafa engan veginn fylgt verðlagi síðustu ár. Skattleysismörk hafa heldur ekki fylgt verðlagi og hörmum við að afleiðingum efnahagskreppunnar hafi með þessum hætti verið velt yfir á almenning.

4. Jafnaðarkaup og verkalýðsréttindi

Við viljum sporna við ólaunaðri yfirvinnu í nafni svokallaðs „jafnaðarkaups“, sem er lögleysa sem þarf að taka á. Við lýsum yfir áhuga á að vinna að því í samstarfi við ASÍ og önnur helstu verkalýðsfélög landsins að efla fræðslu meðal ungs fólks um verkalýðsleg réttindi þess sem og að berjast fyrir réttindum sem lúta sérstaklega að ungum launþegum.

5. Atvinnuleysi

Viðvarandi atvinnuleysi ungs fólks og svört atvinnustarfsemi eru mikið samfélagsvandamál, sem og sú félagslega einangrun sem því fylgir. Ávallt skal vera hvetjandi fyrir atvinnulausa að leita og sækja atvinnu á sama tíma og atvinnuleysisbætur verða að geta dugað fyrir mannsæmandi framfærslu. Við leggjum því til að lágmarkslaun verði hækkuð, enda hafa þau engan veginn fylgt verðlagi undanfarin ár. Einnig leggjum við til að farið verði í sérstök hvatningarverkefni til að koma ungu atvinnulausu fólki út á vinnumarkaðinn en slíkt verkefni gafst vel á síðasta kjörtímabili. Þá leggjum við til að fræðsla meðal ungs fólks um réttindi og skyldur á vinnumarkaði leggi m.a. áherslu á kosti atvinnu umfram atvinnuleysisbætur og svarta vinnu.

6. Jafnrétti í launamálum

Ungir jafnaðarmenn óttast að konur njóti hvorki jafnra tækifæra né launa á vinnumarkaði. Það er skammarlegt að launamunur kynjanna sé enn jafn mikill og raun ber vitni. Við teljum mikilvægt að hið opinbera leggi aukna áherslu á að eyða launamun kynjanna í opinbera geiranum og gangi fram fyrir skjöldu sem fyrirmynd. Byrjað var að hrinda jafnlaunaáætlun stjórnvalda í framkvæmd undir lok síðasta kjörtímabils og er afar mikilvægt að sú vinna haldi áfram. Þá viljum við að laun stétta þar sem konur eru í meirihluta, svo sem kennara á lægri skólastigum og umönnunarstarfsfólks, verði hækkuð til að fylgja verðlagi síðustu ára.

Húsnæðismál

Ungir jafnaðarmenn óttast þá alvarlegu stöðu sem upp er komin á húsnæðismarkaði landsins sem veldur því að ungt fólk á æ erfiðara með að flytja að heiman og koma sér upp eigin húsnæði. Húsnæðisverð er almennt hátt og af því leiðir hátt leiguverð. Vegna hárra leigugreiðslna getur ungt fólk illa lagt fyrir til að fjármagna húsnæðiskaup og festist þannig annaðhvort á leigumarkaði eða þarf að treysta á foreldrahús lengur en góðu hófi gegnir. Ungir jafnaðarmenn hafa af því þungar áhyggjur að ungt fólk sem ílengist í foreldrahúsum fái ekki það næði til að stunda kynlíf sem öllu fólki er hollt. Augljóst er því að grípa þarf til aðgerða á húsnæðismarkaði.[1]

1. Skipulag húsnæðismála

Ungir jafnaðarmenn vilja að lögð verði rík áhersla á að byggja upp fjölbreytt íbúðarhúsnæði sem hentar leigjendum og ungu fólki en ekki verktökum með fjarmagnssjónarmið í forgrunni, í skammtíma- og langtímaskipulagi komandi ára. Þá höfum við áhyggjur af þeirri þróun að litlar íbúðir miðsvæðis í Reykjavík séu í auknum mæli notaðar undir gistirýmarekstur í stað þess að þær séu leigðar út til ungmenna og leggjum til að byggðaskipulag taki mið af því að stemma stigu við þeirri þróun.

2. Húsnæðisbótakerfið

Ungir jafnaðarmenn óttast að nýtt húsnæðisbótakerfi sem var í mótun hjá fyrri ríkisstjórn muni ekki koma til framkvæmdar. Það kerfi sameinaði vaxtabóta- og húsnæðisbótakerfið undir einn hatt og er í því fólgin þörf einföldun. Því leggjum við til að húsnæðisbótakerfið forgangsraði í þágu þeirra sem raunverulega þurfi á bótunum að halda, sem og til þeirra sem eru að kaupa fyrstu íbúð sína. Þá óttumst við að núverandi kerfi henti illa fjölbreyttari búsetuformum, svo sem tveggja eða fleiri einstaklinga sem eru þó ekki bundnir fjölskylduböndum. Tryggja þarf að rétturinn til húsnæðisbóta fylgi einstaklingi þó hann leigi með hóp af fólki. Í þessari stefnu viljum við taka mið af þeirri vinnu sem Samfylkingin hefur þegar unnið.

3. Skítleg skuldaniðurfærsla

Ungir Jafnaðarmenn hafna alfarið hugmyndum ríkisstjórnarinnar um almenna niðurfærslu húsnæðislána þar sem þær eru afleit leið til að aðstoða þá sem eiga í mestum skuldavanda og fela í sér stórkostlega eignatilfærslu frá almenningi til auðmanna, auk þess sem tillögurnar eru til þess fallnar að ýta undir bólu á fasteignamarkaði sem kæmi sérstaklega niður á ungu fólki og öðrum leigjendum.

4. Efling leigumarkaðar

Ungir jafnaðarmenn leggja til að stofnað verði sérstakt embætti umboðsmanns leigjenda, sem og að ríki, sveitarfélög, verkalýðsfélög, lífeyrissjóðir og félagasamtök taki saman höndum um að stofna leigufélög sem kaupi og leigi út fjölbreyttar íbúðir á sem allra lægsta verði. Slík leigufélög gætu opnað fyrir möguleikann á því að einstaklingar búi í leiguhúsnæði alla ævina með því að bjóða upp á trygga langtímaleigusamninga fjölbreyttar íbúðir sem henti fólki með mismunandi þarfir eftir aldri, fjölskyldustærð o.fl.

5. Útleiga á ónotuðu húsnæði

Við leggjum til að íbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs sem standa tómar verði komið í útleigu, ef ekki milliliðalaust þá t.d. með því að selja sveitarfélögum eignirnar sem leigi þær út í kjölfarið. Þá mætti ríkið gera slíkt hið sama við húsnæði í eigu ríkisins sem stendur autt og ónotað.

Heilbrigði

Ungir jafnaðarmenn óttast ástandið í heilbrigðiskerfi landsins, enda muna Ungir jafnaðarmenn ekki eftir öðruvísi fréttum úr heilbrigðiskerfinu heldur en að verið sé að skera niður. Ný ríkisstjórn hefur léð máls á því að „það sé ýmislegt annað í boði heldur en það að ríkissjóðurinn, ráðuneytið, standi í rekstri [heilbrigðisþjónustu]“. Ungir jafnaðarmenn óttast að hér sé vísir að því að ríkið komi sér undan nauðsynlegri styrkingu heilbrigðiskerfisins með því að einkavæða hluta þess.

1. Einkavæðing heilbrigðiskerfisins

Ungir jafnaðarmenn hafna frekari einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Þess í stað á að verja öllum mögulegum krafti og fjárráðum í að byggja heilbrigðiskerfið aftur upp á þeim góða grunni sem það hefur staðið. Heilbrigðiskerfi í opinberri eigu getur betur sinnt ábyrgð sinni gagnvart almenningi og kemur í veg fyrir að markaðssjónarmið verði ráðandi þegar kemur að því að veita sjúklingum heilbrigðisþjónustu. Aldrei skal auðvald ráða því hver fær heilbrigðisþjónustu eður ei. Heilbrigðisstéttir hafa af mikilli elju og fórnfýsi haldið uppi löskuðu kerfi undanfarin ár í gegnum mikinn niðurskurð og skort á viðhaldi og endurnýjun húsnæðis. Nú er komið að því að ríkið þarf að axla sína ábyrgð og við leggjum til að allra leiða verði leitað til að búa heilbrigðisstéttunum betra starfsumhverfi.

2. Geðheilbrigðismál

Ungum jafnaðarmönnum er annt um geðheilbrigði fólks, sér í lagi ungs fólks og barna. Enn má greina fordóma gagnvart geðsjúkdómum enda er enn við lýði óþarflega mikil aðgreining í kerfinu á geðsjúkdómum annarsvegar og öðrum sjúkdómum hinsvegar. Við  leggjum til að geðheilbrigðismál verði skilgreind í samræmi við önnur heilbrigðismál. Þá mælum við með því að unnið verði að því að auka aðgengi að grunngeðheilbrigðisþjónustu þannig að t.d. verði hægt að sækja sálfræðiþjónustu á svipaðan hátt og leitað er til heimilislæknis vegna annarra heilsuvandamála. Fyrst um sinn væri góð byrjun að ríkið niðurgreiði sálfræðiþjónustu.

3. Kynheilbrigði

Ungir jafnaðarmenn leggja til að smokkum verði reglulega dreift í framhaldsskólum landsins. Einnig viljum við að þeir verði flokkaðir sem nauðsynjavörur og falli því niður í lægsta skattþrep með 7% virðisaukaskatt.

Land í byggð

Umhverfis- og auðlindamál

Ungir jafnaðarmenn óttast að gengið verði of langt við nýtingu á náttúru og auðlindum Íslands. Við viljum að sátt náist um rammaáætlun og að ekki sé allt virkjað sem hægt er að virkja. Við höfnum frekari stóriðju sem lausn við atvinnuleysi. Einhæf, óarðbær og óumhverfisvæn atvinnustarfsemi í þeim landsvæðum þar sem atvinnuleysi er hátt er ekki lausn á þeim vanda. Við teljum mikilvægt að stjórnvöld styðji frekar við frumkvöðlastarfsemi og græna atvinnu. Þá ber stjórnvöldum að vernda þá sérstöðu sem náttúran er, því sérstaðan skapar tækifærin.

1. Umhverfisvæn orkustefna

Ungir jafnaðarmenn vilja koma í veg fyrir ofnýtingu virkjanakosta, ná pólitískri sátt og finna framtíðarlausn við gerð rammaáætlunar. Notkun jarðefnaeldsneyta í stað hreinnar orku veldur okkur einnig talsverðum áhyggjum. Þá viljum við leggja áherslu á að í virkjanamálum séu umhverfissjónarmið höfð í öndvegi og að við val og nýtingu á virkjanakostum verði sjálfbærni og langtímaáætlun höfð að leiðarljósi. Pólitískri sátt þarf að ná um framfylgd rammaáætlunar, sem meðal annars má ná fram með faglegri og óflokkspólitískri vinnu við áframhaldandi þróun hennar. Leggja þarf áherslu á að rafvæða alla stærri vinnustaði og heimili þar sem óumhverfisvænir orkukostir eru notaðir, t.d. þar sem olía er notuð til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi.  Styðja verður við framþróun og nýsköpun á sjálfbærum aðferðum við framleiðslu raforku, t.d. með því að kanna möguleika í sjávarfalla-, sólar- og vindorkuvirkjunum.

 

Ágangur á náttúru

Um leið og Ungir jafnaðarmenn fagna því að ferðamennska er vaxandi grein á Íslandi höfum við áhyggjur af auknu ágengi á náttúruperlur Íslands. Náttúra Íslands er á heimsmælikvarða, og því skylda okkar við heimsbyggðina og framtíðarkynslóðir að varðveita hana. Til þess er brýnt að stjórnvöld myndi sér stefnu í þeim efnum eins fljótt og unnt er. Skoða þarf gjaldheimtu við ferðamannastaði eða upptöku komuskatts til að anna viðhaldi á viðkvæmum náttúruperlum.

1. Ofveiði

Ungir jafnaðarmenn vilja að ákvarðanir um magnkvóta í fiskveiðum á ári hverju verði ávallt teknar á vísindalegum forsendum en ekki pólitískum. Það er besta tryggingin gegn ofveiði á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Mikilvægt er að yfirvöld beiti bestu mögulegu rannsóknaraðferðum og eftirliti við að koma í veg fyrir ofveiði. Þá ber Íslandi efnahagslega og umhverfisleg skylda að huga að stærð fiskistofna og afdrifum þeirra við samninga á veiðum á flökkustofnum.

2. Beitastjórn

Ennfremur hafa Ungir jafnaðarmenn áhyggjur af eyðingu landsins vegna ofbeitar og vilja koma á virkari beitastjórnun til að sporna við því.

3. Náttúruminjar

Þá vilja Ungir jafnaðarmenn að ekki verði gengið á náttúruminjar við mannvirkjagerð nema ítrustu nauðsyn beri og jafnframt þarf að tryggja að utanvegaakstur sé bannaður. Til þess þarf að tryggja að núgildandi náttúruverndarlög verði ekki afturkölluð.

Samgöngumál

Ungir jafnaðarmenn óttast áhugaleysi og skort á viðunandi framtíðarstefnumörkun í samgöngumálum á Íslandi. Við óttumst að stefnumörkun í samgöngumálum muni ekki taka tillit til útblásturs gróðurhúsalofttegunda og þá óttumst við jafnan að ekki verði horft til nýrra kosta í almenningssamgöngum s.s. léttlestir. Þá þarf einnig að auka á umferðafræðslu og bæta umferðamenningu Íslendinga.

1. Almenningssamgöngur

Þá þarf að gera almenningssamgöngukerfið aðgengilegra fyrir notendur þess. Ungir jafnaðarmenn vilja að fargjöld í almenningssamgöngukerfinu séu sem lægst og að nemakort séu til á lágu verði, sér í lagi fyrir einstaklinga sem þurfa að ferðast langar leiðir til náms. Þá er brýnt að efla almenningssamgöngur úti á landi. Skoða má að fjárfesta í smærri vögnum fyrir smærri hverfi og auka tíðni strætóferða. Þá mætti hvetja fyrirtæki til að bjóða starfsmönnum sínum upp á samgöngukort í strætó. Þar á hið opinbera að vera fyrirmynd og taka upp samgöngukort fyrir opinbera starfsmenn.

2. Reiðhjólamenning

Ungir jafnaðarmenn fagna aukinni reiðhjólamenningu á Íslandi og vilja efla hana til muna. Það má afreka með fleiri reiðhjólastígum og hverfaskipulagi sem gerir ráð fyrir styttri vegalengd að grunnþjónustu. Þá þarf að tryggja góðan aðgang að reiðhjólum til að mynda með ódýrum reiðhjólum og götuhjólum til leigu. Skoða mætti skatta og tollakerfi til að leitast við að lækka reiðhjólaverð.

3. Grænir bílar

Grænir fararskjótar og orkuskipti í bifreiðum þurfa að vera raunhæfur kostur á Íslandi. Allt skattaumhverfi þarf að taka mið af því að umbuna þeim sem kjósa vistvænan samgöngumáta. Þá skulu ríki og sveitafélög ganga fram með góðu fordæmi með því að fjárfesta í grænum bifreiðum þegar skipta þarf út bílaflota hins opinbera. Ungir jafnaðarmenn  fagna því ef að á Íslandi byggist upp markaður fyrir umhverfisvæna skammtímalánsbíla líkt og gerist annarsstaðar í Evrópu.

4. Áhugaleysi

Ungir jafnaðarmenn óttast áhugaleysi á umhverfismálum. Sérstaklega höfum við áhyggjur af áhugaleysi Samfylkingarinnar og ungs fólks almennt í málaflokknum. Þess vegna vilja Ungir jafnaðarmenn auka fræðslu á öllum skólastigum og þá sérstaklega þeim efri um umhverfismál. Þar að auki þarf að auka fræðsluna meðal einstaklinga á vinnumarkaði og þeirra sem eldri eru til muna. Auk þess þarf Samfylkingin að marka sér skýrari stefnu í umhverfismálum og hafna með öllu frekari stóriðju. Stefna flokksins þarf að taka miða af markmiðum Sameinuðu Þjóðanna í loftslagsmálum. Við krefjumst þess að sérstakur ráðherra verði yfir ráðuneyti umhverfis og auðlindarmála.

5. Neysla og endurvinnsla

Ungir Jafnaðarmenn vilja hugarfarsbreytingu og aðgerðir til að draga úr óþörfum og ónáttúruvænum umbúðum og auka umhverfivitund neytenda.. Við óttumst að ferlið við það að endurvinna sé ekki nógu umhverfisvænt og ennfremur höfum við áhyggjur af afstöðu- og hvataleysi til ruslaflokkunar almennings og fyrirtækja. Því viljum við breyta með því að afnema tolla og vörugjöld á umhverfisvænar umbúðir. Við viljum einnig fjölga flokkunar- og móttökustöðum fyrir rusl. T.d. er hægt að koma þeim upp við matvöruverslanir eins og þekkist í Evrópu ásamt því að athuga hvort hægt sé að fjölga þeim umbúðum sem skilagjald fæst fyrir. Að lokum viljum við að ríkið móti sér stefnu um markvissar aðgerðir til að koma Íslandi á lista þeirra ríkja sem endurvinna hvað mest og hvetji þannig til endurvinnslu.

6. Sanngjörn gjaldtaka á nýtingu auðlinda

Ungir jafnaðarmenn telja núverandi ríkisstjórn sýna ábyrgðarleysi og skammsýni þegar kemur að því að veita óheflaðan aðgang að auðlindum landsins. Þá óttumst við sérstaklega að stór sjávarútvegsfyrirtæki greiði of lága rentu af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Því vilja Ungir jafnaðarmenn að veiðigjöld séu til þess fallin að tryggja jafnari dreifungu arðsins af auðlindinni. Svo arðurinn af henni skiptist réttláttmilli þjóðarinnar..

7. Raforkuverð til stóriðju

Ungir jafnaðarmenn telja að raforkuverð til stóriðju sé of lágt og að þar sé um skammtímalausn að ræða sem komi niður á komandi kynslóum. Því viljum við að stóriðjufyrirtæki borgi sanngjarnt verð fyrir raforkuna sem þau nota. Aðeins verði farið í virkjunarframkvæmdir sem eru arðsamar og sjálfbærari. Þá krefjast Ungir jafnaðarmenn þess að Alþingi tryggi stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum áður en kjörtímabilinu lýkur.

8. Súrnun hafsins og hlýnun jarðar

Ungir jafnaðarmenn óttast hlýnun jarðar og hækkandi sjávarmál. Þá er súrnun hafsins vandamál sem við teljum að taka þurfi föstum tökum. Við viljum að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og auki markmið sín um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda og selji ekki loftslagskvótann sinn áfram til annarra ríkja. Jafnframt viljum við að Ísland stefni að umhverfisvænni samgöngum og verði sér í lagi fyrirmynd varðandi umhverfisvænann samgöngumáta.

Styrking sveitastjórnarstigsins og samhæfð skipulagsmál

Ungir jafnaðarmenn óttast að smæð sveitarfélaga geri þeim illfært að sinna lögbundinni grunnþjónustu sem skildi. Við óttumst samráðsleysi og óhagstæða samkeppni sem komið getur upp á milli sveitarfélaga og leggjum til aukið samráð í skipulagsmálum milli sveitarfélaga svo ekki verð til óhagstæð samkeppni milli sveitarfélaga í lóðaverði. Þá vara Ungir jafnaðarmenn við þeim hugmyndum að afnema lágmarksútsvar. Slíkt gæti rýrt þjónustu við almenning.

1. Nýsköpun og fjölbreytni

Ungir jafnaðarmenn vilja tryggja fjölbreytta atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og hafna í því samhengi óarðbærri fjárfestingu í stóriðju. Tryggja þarf öfluga nýsköpun í landinu með miklum stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og atvinnuþróunarfélög. Sér í lagi er brýnt að horfa til nýsköpunar, nýliðunar og aukins frjálsræðis í landbúnaðargeiranum og matvælaiðnaðinum.

2. Sóknaráætlun fyrir landsbyggðina

Sönn jafnaðarmennska tekur tillit til allra landshluta. Ungir jafnaðarmenn vilja efla veg og vegferð landsbyggðarinnar með viðunandi hætti. Þá er brýnt að tryggja öfluga sóknaráætlun fyrir landshluta og fylgja henni eftir með viðunandi skipulagi og fjármagni. Til að mynda þarf að tryggja öflugt grunnet fyrir internet, gsm samband og orku alls staðar á landinu. Jafnframt þarf að jafna húshitunarkostnað. Heimili landsins eru verðugri til að taka á móti niðurgreiðslu orkuverðs heldur en stóriðjufyrirtæki.

Fjölbreytt og skapandi menntakerfi í nærsamfélaginu

Ungir jafnaðarmenn óttast einhæft nám og námsumhverfi, langa skólagöngu og forneskjulegar námsaðferðir.

1. Nútímavædd menntun

Brjóta þarf upp grunnskólastigið og samræma námsleiðir framhaldsskólastiginu betur. T.a.m þarf að efla iðn- og starfsnám fyrir grunnskólanema. Taka þarf upp nýstárlegri kennsluaðferðir t.a.m með því að brjóta upp heimanámsformið og nýta nútímamiðla. Þá þarf að nútímavæða margt kennsluefni. Ungir jafnaðarmenn vilja leggja meiri áherslu á siðfræði- og heimspekinám.

2.Menntun fyrir alla

Þá þarf að tryggja öllum á framhaldsskólaaldri viðunandi nám óháð búsetu. Efla þarf fjarnámsmöguleika námsmanna og auka á jöfnunarstyrk LÍN til að námsmenn geti sótt í skóla sem kenna sérhæfðara námsefni.

3.  Stytting námstíma

Þá styðja Ungir jafnaðarmenn við styttingu á almennri skólagöngu í grunn- og framhaldsskóla. Brýnt er að námsfólk hafi kost á að velja sér skjótari námsleiðir. Þá er brýnt að námshraði Íslendinga komist á álíka stig og þekkist í öðrum OECD ríkjum.

4. Framhaldsskóli verði áfram á vegum ríkisins

Ungir jafnaðarmenn efast um að flutningur framhaldsskólans til sveitastjórnarstigsins sé af hinu góða. Slíkt býður einungis upp á ósanngjarna samkeppni milli skóla og sveitafélaga og er til þess fallið að auka á hverfaskiptingu. Þá hafna Ungir jafnaðarmenn hverfaskiptingu í framhaldsskólakerfinu með öllu.

5. Menntun í forgang

Einnig vilja Ungir jafnaðarmenn sjá menntakerfið ofar í forgangsröðun ríkisins og hafna frekari niðurskurði í menntakerfinu. Þá styðja Ungir jafnaðarmenn  kjarabaráttu kennara. Þá fögnum við aukinni fjölbreytni í menntakerfinu.

Sérályktanir

Ályktun um lækkun kosningaaldurs

Kosningaþátttaka er einn af lykilþáttum í virkri samfélagsþátttöku. Ungir jafnaðarmenn hafa því verulegar áhyggjur af minnkandi kosningaþátttöku ungs fólks. Rannsóknir sýna að þeir sem nýta sér kosningaréttinn þegar þeir eru ungir eru líklegri til þess að gera það um alla ævi. Það er því nauðsynlegt að hvetja til aukinnar þátttöku ungs fólks í kosningum og virkja þau til þátttöku og aukinnar samfélagsvitundar. Það er þó ekki nægilegt eingöngu að hvetja til aukinnar þátttöku ungra kjósenda í kosningum, það er ekki síður mikilvægt að fræða ungt fólk um mikilvægi samfélagslegar þátttöku og lýðræðisvitund.

Margt ungt fólk á aldrinum 16 – 18 ára er á vinnumarkaði og greiðir því skatta. Þessi hópur hefur því meiri skyldur en réttindi.  Með því að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum niður í 16 ára virkjum við ungt fólk til þess að taka þátt í nærsamfélagi sínu og aukum lýðræðisvitund þeirra. Þess vegna viljum við lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum niður í 16 ár.